Um forgangsröðun og heildarhagsmuni

Endurskipulagning íslensks hagkerfis er á krossgötum. Taka þarf margar erfiðar og sársaukafullar ákvarðanir í fjárlögum til að rétta af fjárhag ríkissjóðs. Engum dylst að staðan er erfið og af þeim sökum er afar brýnt að forgangsröðun verkefna sé skýr og miði að hagsmunum heildar og verðmætasköpun til framtíðar.

Þegar litið er til nýlegra ákvarðana stjórnvalda þá virðist sem þröngir sérhagsmunir ráði í of mörgum tilvikum. Táknrænt dæmi um þetta er verkefni til atvinnusköpunar með uppbygginu snjóflóðavarna á Neskaupsstað og Ísafirði. Vissulega þjónar uppbygging snjóflóðavarna öryggishlutverki í umræddum bæjarfélögum og mun vafalaust veita einhverjum heimamönnum störf um nokkurt skeið. Engu að síður má velta upp spurningum um hvort hér sé fjármunum varið á skynsamlegan hátt.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar var atvinnuleysi á landsbyggðinni á þriðja ársfjórðungi 3,6% af mannafla en 8% á höfuðborgarsvæðinu. Ef verja á fjármunum í verkefni til að draga úr atvinnuleysi, væri æskilegt að haft væri að leiðarljósi það sem mest dregur úr atvinnuleysi í bráð og gera þann hóp sem helst á undir högg að sækja (ungt fólk, lítið menntað) hæfari til að þátttöku á vinnumarkaði. Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar eru nú 9.300 einstaklingar atvinnulausir á höfuðborgarsvæðinu en 433 á Vestfjörðum og Austurlandi samanlagt. Á höfuðborgarsvæðinu þá eru ungir karlar verst settir, 14% atvinnuleysi,  en á landsbyggðinni ungar konur, 13,9% atvinnuleysi.

Í því ljósi er eðlilegt að velta því upp annars vegar hvort farin sé skilvirk leið að ráðstafa 800 milljónum króna í verkefni á svæðum þar sem atvinnuleysi, meðal þeirra hópa sem munu sinna viðkomandi  verkefnum, er mun minna en á öðrum svæðum. Hinsvegar, hvort þessum fjármunum væri ekki betur varið í að draga úr atvinnuleysi og fjölga atvinnutækifærum þeirra sem eiga við mestan vanda að stríða á vinnumarkaði á hverju svæði fyrir sig.

Falskt fæðuöryggi
Annað dæmi um sérkennilega forgangsröðun endurspeglast í fréttum um skort á kjúklingaafurðum að undanförnu. Vandamálið hefur verið viðvarandi en þrátt fyrir það hefur innflutningsaðilum ekki verið heimilt að flytja inn nægilegt magn af erlendum kjúklingi til að svara eftirspurn. Gjarnan er talað um mikilvægi fæðuöryggis þegar rætt er um ástæður þess að innlendar kjötafurðir njóta verndar en það kemur ágætlega í ljós við þessar ástæður hve öryggið er í raun falskt. Öryggið felst ekki í því að við getum framleitt allar mögulegar kjötafurðir hérlendis heldur að við höfum sterka innflutningsaðila og verslanir til að bregðast við þörfum markaðarins hvort sem um ræðir innlendar eða erlendar afurðir.

Viðbrögð innflutningsaðila við þeim kjúklingaskorti sem nú ríkir hafa verið áhugaverð. Til að svara þessum skorti mátti sjá í gær stórar auglýsingar í blöðum þar sem auglýstar voru til sölu erlendar kalkúnabringur auk 3100 innfluttra pekinganda. Viðvarandi skortur á svo algengu hráefni í málsverði Íslendinga er afturhvarf til fortíðar og getur ekki talist ásættanlegt í nútímaþjóðfélagi.

Skökk forgangsröðun verkefna
Þessi örfáu dæmi benda til þess að forgangsröðun verkefna sé skökk. Ekki er nægilega hugað að  hag heildarinnar, t.d. með því að efla verðmætasköpun eða opna á leiðir til að bjóða neytendum uppá fjölbreytt úrval matvæla á eðlilegum kjörum. Í þeirri þröngu stöðu sem ríkissjóður og hagkerfið er í um þessar mundir þarf áherslan að vera á verðmætasköpun en ekki sérhagsmuni einstakra afmarkaðra hópa. Í Viðskiptablaðinu í gær benti Jón Daníelsson prófessor við London School of Economics á hættuna sem því fylgir þegar einstakir ráðamenn eða embættismenn hlutast til um hvers konar rekstur og fyrirtæki eiga að vera hér á landi - „Það getur bara endað illa.“

Tengt efni

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023

Greiðslumiðlun Schrödingers

„Með frumvarpinu er ekki einungis verið að veita Seðlabankanum heimild til að ...
4. mar 2024

Hver er þín verðbólga?

Viðskiptaráð hefur sett upp reiknivél sem gerir hverjum og einum kleift að ...
17. ágú 2022