Efnahagsstofa atvinnulífsins - Bætum hagtölur

Í litlu hagkerfi eins og Íslandi mætti ætla að auðvelt væri að nálgast góðar upplýsingar um helstu hagstærðir. Svo er hins vegar ekki, en all nokkrir annmarkar eru á söfnun, gerð og birtingu mikilvægra upplýsinga um stöðu og þróun hagkerfisins. Hefur jafnvel verið komist svo að orði að yfirleitt sé erfitt að spá um framtíð, en á Íslandi væri jafnframt ómögulegt að sjá fyrir um fortíðina. Sýnileg þörf á nákvæmari og nýlegri gögnum kom skýrt fram eftir fall bankakerfisins þegar útskýra þurfti fyrir umheiminum hver staða lands og þjóðar var og yrði í náinni framtíð. Vandinn sem ráðamenn og atvinnulíf stóðu þá frammi fyrir fólst m.a. í því að enn var verið að uppfæra hagspár frá fyrra ári og upplýsingar um eiginlega stöðu ríkisins lágu ekki fyrir.

Þrátt fyrir mikla umræðu um þetta málefni allt frá því að Þjóðhagsstofnun var lögð niður árið 2002 hefur lítið breyst. Horft fram á við má öllum vera það ljóst að gera þarf verulega bragarbót á þessu sviði. Í því felst að færa alla staðla, gæðakröfur og annað verklag til samræmist við það sem best gerist í heiminum. Lykilaðilar í söfnun og vinnslu hagtalna munu að öllum líkindum áfram vera opinberar stofnanir á borð við Seðlabankann, fjármálaráðuneytið og Hagstofuna, en skoða þarf nauðsyn þess að aðrir aðilar efli umræðu um greiningu og söfnun hagtalna. Þá er það ekki síður framsetning þeirra og miðlun sem þarf að taka verulegum breytingum.

Stofnun Efnahagsstofu atvinnulífsins
Efnahagsstofu atvinnulífsins er ætlað að ýta á umbætur í þessum efnum, með það að markmiði að styðja við bætta framsetningu hagtalna og stuðla að efnislegri umræðu um þær. Fyrst um sinn mun verður áhersla á úrvinnslu spágagna um mikilvægustu hagstærðirnar, t.d. hagvöxt og verðbólgu. Þegar fram í sækir verður greining og gagnaöflun smám saman umfangsmeiri.

Það er ætlan Viðskiptaráðs að sem flest atvinnulífssamtök, fulltrúar háskólasamfélagsins og fyrirtækja komi að rekstri og stefnumótun Efnahagsstofunnar. Megintilgangur Efnahagsstofunnar verður að bæta þau gögn sem fyrir eru og framsetningu þeirra og auka þá um leið almennt upplýsingaflæði um hagkerfið til að gagn verði af fyrir atvinnulíf og samfélag. Þá mun Efnahagsstofan jafnframt að þrýsta á markvissari, víðtækari og samræmdari gagnasöfnun meðal opinberra aðila og samræmingu í útgáfu þeirra.

Áhugi atvinnulífsins til staðar
Á Umbótaþingi Viðskiptaráðs kom fram skýr vilji aðildarfélaga ráðsins um að atvinnulífið í heild, sem megin notandi hagtalna, léti sig þennan málaflokk varða. Upp frá því hefur ráðið unnið að því að útfæra aðkomu atvinnulífsins og afrakstur þeirrar vinnu er stofnsetning Efnahagsstofu atvinnulífsins. Hlutverk Efnahagsstofunnar verður fyrst um sinn að taka saman og miðla spám um hagvöxt og verðbólgu frá fjölda greiningaraðila, bæði horft fram á við og spár frá fyrri árum og bera saman við rauntölur.

Markmiðið er að Efnahagsstofan geti stuðlað að bættum upplýsingum um stöðu hagkerfisins og sett fram upplýsingar á nytsaman hátt. Áherslur Umbótaþingsins eru í takt við niðurstöður viðhorfskönnunar sem fyrirtækið Maskína framkvæmdi fyrir Viðskiptaráð í aðdraganda Viðskiptaþings 2011, þar sem 61% svarenda voru hlynntir því að efnahagsráði yrði komið á laggirnar. Einvörðungu 10% voru því andvíg. Sjá má niðurstöður úr könnuninni hér.

Fjallað er nánar um Efnahagsstofuna í skýrslu Viðskiptaráðs Tökumst á við tækifærin - atvinnulíf til athafna.

Tengt efni

Ávarp Ara Fenger á Viðskiptaþingi

Ari Fenger flutti opnunarávarp á Viðskiptaþingi 2024. Þetta var hans síðasta ...
12. feb 2024

Ný útgáfa um íslenskt efnahagslíf - 4. ársfjórðungur

Viðskiptaráð Íslands hefur birt nýja ársfjórðungslega útgáfu af The Icelandic ...
2. nóv 2023

Um annarra manna fé

Fyrir hverja krónu sem heimili og fyrirtæki verja samanlagt, eyðir hið opinbera ...
14. apr 2024