Lögfesting gjaldeyrishafta?

Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til breytinga á lögum um gjaldeyrismál sem lýtur að því að festa í lög reglur Seðlabankans um gjaldeyrishöft. Reglur Seðlabankans voru settar í nóvember 2008 með lagaheimild, þær voru gagnrýndar strax í upphafi og hefur hækkað til muna í þeim gagnrýnisröddum eftir því sem höftin eru lengur við lýði. Spyrja verður hvers vegna verið sé að lögfesta höftin? Er það vegna efasemda um valdheimildir Seðlabankans til að fylgja eftir reglum sínum og vafa um fullnægjandi lagastoð? Ef svo er þá er eðlilegt að opin umræða fari fram um það en ekki að knúið sé á um lögfestingu reglnanna á öðrum forsendum.

Þó lengi megi deila um hvort ástæður hafi verið fyrir hendi til að setja á gjaldeyrishöft þá er nauðsynlegt að meta stöðuna eins og hún er í dag og hvort áhrif haftanna og fórnarkostnaður sé réttlætanlegur. Höftin koma í veg fyrir eðlilega uppbyggingu íslensks viðskiptalífs og hefta bæði inn- og útflæði fjármagns svo ekki sé talað um þann skaða sem þau valda á trúverðugleika landsins. Mikilvægt er að flýta afnámi þeirra eins og mögulegt er til að hindra að skaðsemi þeirri verði ekki meiri fyrir innlend fyrirtæki en nú þegar er orðin.

Í mars á þessu ári var kynnt áætlun Seðlabanka Íslands um afnám gjaldeyrishaftanna. Viðskiptaráð gagnrýndi meðal annars lengd þess tíma sem ætlaður er til að aflétta höftunum, en að mati ráðsins verður vart séð að rúm fjögur ár þurfi til að afnema höft sem eru í eðli sínu skammtímaráðstöfun. Þá eru viðmið um afnám óskýr og skapa óþarfa óvissu. Hafa verður í huga að hin fullkomna tímasetning kemur aldrei og verður því að hafa skýra og markvissa áætlun um hvernig komast eigi undan höftum á sem skemmstum tíma.

Umrætt frumvarp er ekki vísbending um að ætlunin sé að flýta afnámi haftanna eins og mögulegt er, enda er verið að skorða þau enn fastar í regluverk landsins. Einu rökin sem færð eru fram í greinargerð með frumvarpinu er að fyrirsjáanlegt sé að þau verði lengur til staðar en ætlað var, þykir því „rétt“ að lögfesta þau. Um leið er ljóst að með því að lögfesta höftin verða þau varanlegri hluti af íslensku efnahagsumhverfi og takmarka enn frekar möguleika á sveigjanlegri afléttingu þeirra m.v. ef þau væru í regluformi. Mun aðgengilegra er að laga reglur að breyttum tíma hverju sinni en lög.

Áhrif haftanna eru veruleg á íslenskt viðskiptalíf. Með þeim myndast í raun hvati fyrir íslensk fyrirtæki til að leita í auknum mæli út fyrir landssteinana í opnara umhverfi laust við höft. Fátt er með svo öllu illt að ei boði gott og verður halda til haga þeim jákvæðu breytingum sem frumvarpið felur í sér. Fagna verður þeim nýmælum er koma fram í frumvarpinu og heimila innlendum aðilum að kaupa erlendan gjaldeyri til greiðslu samningsbundinna afborgana lána í erlendum gjaldeyri, hjá því innlenda fjármálafyrirtæki sem veitti viðkomandi lán. Tregða hefur verið hjá innlendum lánastofnunum að veita erlend lán vegna þeirra réttaróvissu sem ríkir á því sviði. Losar ákvæðið því vonandi um þá stíflu sem hefur verið við veitingu erlendra lána. Þetta hefði hins vegar mátt gera með breytingum á núverandi reglum Seðlabankans.

Með því að lögfesta reglur um höftin er verið að senda röng skilaboð. Túlka mætti sem svo að verið sé að gefast upp fyrir því verkefni sem aflétting hafta er og eru þetta því ekki skilaboðin sem við ættum að vera senda frá okkur. Stjórnvöld ættu að leggja kapp í að leita allra leiða til að aflétta þeim hraðar en áætlanir gera ráð fyrir. Gera verður kröfu um að reglulega sé lögð fram réttlæting fyrir viðveru haftanna til að forða málinu frá því að rykfalla í skúffum stjórnvalda. Með reglulegri kröfu um réttlætingu er um leið verið að létta undir þeirri pressu á stjórnvöld sem höftin mynda. Aflétting og skilyrði sem heimila það ættu að vera forgangsatriði en ekki hvort þau verði í formi reglna eða laga.

Tengt efni:

Tengt efni

Endurskoða þarf lögverndun starfa

Fjöldi lögverndaðra starfsgreina og starfa á Íslandi er umtalsvert hærri en í ...
31. maí 2024

Áform um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar áform um frumvarp til breytinga á lögum ...

Skortur á samráði um losunarheimildir

Viðskiptaráð skilaði inn umsögn með Samtökum atvinnulífsins, Samtökum verslunar ...
12. okt 2023