Frosti Ólafsson ráðinn framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

Frosti_OGengið hefur verið frá ráðningu Frosta Ólafssonar í starf framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs. Frosti hefur starfað fyrir Kaupmannahafnarskrifstofu alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey & Company undanfarin tvö ár, þar sem hann hefur einkum sinnt verkefnum í stefnumótun og rekstrarumbótum fyrirtækja. Frosti er hagfræðingur að mennt og með MBA gráðu frá London Business School. Hann mun hefja störf í byrjun júnímánaðar.

Frosti segir að verkefnið leggist vel í sig og að þrátt fyrir ýmsar áskoranir í íslensku efnahagslífi séu mikil tækifæri til staðar. ”Íslendingar standa frammi fyrir ýmsum úrlausnarefnum til að hér verði ásættanlegar aðstæður til fjárfestingar og sterkar forsendur til langtímahagvaxtar. Það er þó ljóst að fjölmörg tækifæri eru til staðar til að efla verðmætasköpun og hagsæld í landinu og það er spennandi verkefni fyrir mig, og aðra starfsmenn Viðskiptaráðs, að stuðla að slíkum umbótum á komandi misserum” segir Frosti.”Viðskiptaráð hefur á undanförnum árum stutt markvisst við lausnamiðaða og málefnalega umræðu um íslensk efnahagsmál og tækifæri til umbóta í rekstarumhverfi fyrirtækja. Samhliða hefur tekist vel að hlúa að hlutverki ráðsins sem bakhjarl menntunar og mun ég leggja mikla áherslu á að svo verði áfram.

Undanfarna mánuði hefur Haraldur I. Birgisson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, sinnt daglegum rekstri og verkefnastjórn ráðsins sem starfandi framkvæmdastjóri. Hann mun áfram starfa sem aðstoðarframkvæmdastjóri og lögfræðingur ráðsins.

Hreggviður Jónsson, formaður Viðskiptaráðs, segir ”það er mikill fengur fyrir Viðskiptaráð að fá Frosta til starfa. Hann þekkir vel til starfa ráðsins auk þess að hafa mjög djúpa og góða þekking á íslenskum efnahagsmálum og stöðu þjóðarbúsins. Ég vil nota tækifærið og þakka Haraldi fyrir frábært starf en hann hefur sinnt starfi framkvæmdastjóra af stakri prýði síðustu mánuði og var m.a ábyrgur fyrir einu glæsilegasta Viðskiptaþingi sem við höfum haldið.”

Frekari upplýsingar veitir Hreggviður Jónsson, formaður Viðskiptaráðs, í síma 535-7100 eða 824-7000.

Tengt efni

Hæpnar forsendur og ósjálfbær útgjaldavöxtur

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023
12. okt 2022

Ekki svigrúm til aukinna útgjalda

Umsögn Viðskiptaráðs um fjármálaáætlun
16. maí 2022

Viðskiptaráð kynnti áherslur sínar á kosningafundi í morgun

Viðskiptaráð Íslands bauð fulltrúum stjórnmálaflokka til fundar og þáðu ...
15. sep 2021