Þór Sigfússon skrifar um alþjóðavæðingu og erlenda sérfræðinga hérlendis

“Þið eruð svo sterk, þið trúið á lífið, þið eruð uppfull af orku og áhuga og vinnugleði. Þið eru ótrúlega gestrisin…” . Þannig lýsti danski presturinn Johannes Møllehave Íslendingum nýlega í Morgunblaðsviðtali. Og litlu síðar í viðtalinu bætti hann um betur og kallaði okkur “heimsborgara”.

Það gleður okkur Íslendinga að heyra útlendinga tala vel um kraft okkar og heimssýn. Við teljum okkur vera heimsborgara og erum stolt af því að mennta unga Íslendinga í bestu háskólum heims, alþjóðlegir menningarstraumar blási hér af krafti á ýmsum sviðum og að íslenskir frumkvölar í atvinnulífi eru að hasla sér völl erlendis. Á sama tíma og við lítum á okkur sem heimsborgara erum við kannski óafvitandi stolt af einsleitninni hjá þjóðinni; við förum öll í bað á nákvæmlega sama tíma á aðfangadag, tölum öll sama tungumálið og eyðum laugardagskvöldum með Gísla Marteini. Hvernig tekst svona þjóðfélagi að takast á við næstu stig alþjóðavæðingar í atvinnustarfsemi hérlendis?

Útrás og alþjóðavæðing atvinnustarfsemi hefur nær alls staðar verið með svipuðum hætti í þjóðfélögum: fyrst hefja fyrirtækin útflutning, þá byrja þau að kaupa starfsemi erlendis og setja upp ný fyrirtæki og loks myndast meiri gagnkvæm tengsl fyrirtækja yfir landamæri. Íslensk fyrirtæki voru fremur lengi að hefjast handa við víðtæka útrás en þegar strandhöggið hófst virtist ekkert geta stöðvað Íslandsvélina í útlöndum.

Nú þegar eru mörg íslensk fyrirtæki búin að hasla sér völl erlendis og þau eiga það flest sammerkt að starfsemin er að langstærstum hluta erlendis. Næsta skrefið í alþjóðavæðingu er að búa okkur undir það að hingað komi útlendingar til starfa hjá íslenskum þekkingarfyrirtækjum, bæði tímabundið og án tímamarka. Það er mikilvægt að við búum svo um hnútana að alþjóðleg starfsemi fyrirtækja geti þrifist hérlendis en ekki þurfi að flytja hana til annarra landa sökum skorts á sérhæfðu vinnuafli hérlendis og aðstöðuleysis fyrir erlenda starfsmenn sem hingað þyrftu að flytja.

Í allri umræðu um útlendinga á Íslandi hefur verið horft til “nýrra Íslendinga”; fólks sem flutt hefur til Íslands og hyggst setjast hér að. Það er eðlilegt í ljósi þess að um 20.000 íbúar landsins eru fæddir erlendis og flestir eru hingað komnir til þess að búa hér um lengri tíma. Það er hins vegar annar og vaxandi hópur sem við verðum að huga einnig að; sérfræðingar sem flust hafa til Íslands í því augnamiði að starfa við sérgrein sína hjá íslensku fyrirtæki. Mikilvægt er að þjóðfélagið allt nýti sér kraft og frumkvæði þessara einstaklinga og sætti sig við að þessi hópur hefur ekki endilega neinn sérstakan áhuga á því að vera kallaðir “nýir Íslendingar”. Þetta eru einstaklingar sem vilja búa á Íslandi eins og við Íslendingar búum í útlöndum. Þeir vilja taka þátt í samfélaginu án þess að verða beinlínis hluti af arfleifð þess. Af fastheldni Íslendinga í útlöndum á menningu söguþjóðarinnar erum við stolt og að sama skapi verðum við að virða lítinn áhuga þessara útlendinga á að taka upp okkar hefðir; þeir eru staddir hér til þess að starfa í sérhæfðum fyrirtækjum og vilja fyrst og fremst að þörfum þeirra fjölskyldna sé fullnægt miðað við alþjóðlegar kröfur.

Í bók bandaríska blaðamannsins Greggs Zacharys “Global Me” er birt viðtal við konu frá Ghana sem stundar nám við Háskóla Íslands. Hún segir á einum stað: “Ísland hefur gert mig meðvitaðri og tengdari menningu heimalands míns, Ghana. Að búa á meðal Íslendinga, sem eru mjög stoltir af arfleifð sinni, gerði mér betur grein fyrir því hversu mikilvægt móðurland mitt, hefðir þess og venjur eru mér”. Okkar einsleita menningarsamfélag er að verða fjölmenningarsamfélag þar sem býr fólk með rauð, græn, svört og blá vegabréf. Við þurfum í raun ekkert að gefa eftir stolt okkar á einsleitninni, við getum líka haft húmor fyrir okkar menningarlegu einsleitni en notið þess líka að opna landið fyrir nýjum straumum. Við getum aldrei uppfyllt allar óskir þeirra útlendinga sem hingað koma en við eigum að sýna viðleitni til að létta útlendingum lífið hérlendis. Verslunarráð Íslands kynnir nú skýrslu útlendra sérfræðinga sem hér starfa og benda á leiðir til þess að bæta aðbúnað og umhverfi þessa hóps.

Á næstu árum mun reyna á það hvort Íslendingar eru heimsborgarar í þeim skilningi að þeir taki á móti útlendingum og virði sérkenni þeirra, menningu og tungumál. Ef okkur á að takast að laða til landsins sérfræðinga sem starfi hérlendis hjá íslenskum útrásarfyrirtækjum þurfum við að gera umhverfið aðlaðandi og uppfylla kröfur þessa fólks. Til að ná árangri í alþjóðavæðingu þarf þjóðfélagið að vera opið og sýna viðleitni til þess að laða til sín fólk utan frá.

Tengt efni

Hvalir eru ekki blóm

„Ég skil að það sé freistandi að skrifa fréttir um innkaupakörfu áhrifavalds í ...
1. nóv 2023

Átján fyrirmyndarfyrirtækjum í stjórnarháttum veitt viðurkenning

Hópur fyrirtækja í fjölbreyttri starfsemi hlaut í dag verðlaun fyrir góða ...
22. ágú 2023

Já, ég er óþolandi

Svanhildur Hólm er komin með nýtt áhugamál sem vonandi léttir eitthvað álaginu ...
12. apr 2023