Bætir löggjöf gegn hringamyndun lífsgæði? spyr Sigþrúður Ármann

Íslendingar eru á meðal þeirra þjóða sem við bestu lífskjör búa. Þannig viljum við hafa það áfram og við ætlum okkur að auka lífskjör þjóðarinnar enn frekar. Til að geta staðið undir auknum kröfum um bætt lífskjör, verður að bæta samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs. Ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar hafa náð miklum árangri í efnahagsmálum, sem m.a. má þakka auknu frelsi í viðskiptum. Frelsi fylgir mikil ábyrgð.

Hugmyndir forsætisráðherra um að setja lög til að bregðast við samruna fyrirtækja og einokun eru ekki tveggja vikna gamlar, heldur a.m.k. 13 ára þar sem stefnt var að því að setja lög gegn einokun og hringamyndun í stefnuyfirlýsingu hinnar svokölluðu Viðeyjarstjórnar árið 1991. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur því talað með þessum hætti allt frá því hann settist á þing.

En hver er tilgangurinn með því að setja lög sem ætlað er að sporna gegn hringamyndun? Bæta þau lífsgæði? Auka þau samkeppni? Auðvelda þau nýjum aðilum að koma inn á markaðinn? Koma þau í veg fyrir að aðilar nái markaðsráðandi hlutdeild? Það er hlutverk ríkisins að móta almennar leikreglur sem viðskiptalífið verður að virða. En hversu langt á ríkið að ganga og hvenær á ríkið að grípa inn í og koma í veg fyrir að frjáls markaður fái notið sín? Eða eiga lögin gegn hringamyndun einmitt að tryggja frelsið?

Það er mjög mikilvægt að málefnaleg umræða fari fram um þetta efni. Hróp og köll um að umræðan um hringamyndun tengist aðeins einstökum ágreiningsmálum, verður aðeins til þess að horft verður framhjá málefnalegum hliðum málsins. Slíkt má ekki gerast. Við verðum að líta á málið í heild og komast að niðurstöðu hvort atvinnulífið á Íslandi þurfi umrædd lög.

Vandamálið við reglur sem eiga að koma í veg fyrir ólöglegt samráð og einokun, er að oft koma þær í veg fyrir aukna samkeppni og hefta framgang viðskiptalífsins. Laga- og reglugerðagleði stjórnvalda sem komið er á í góðri trú, getur svo auðveldlega snúist upp í andhverfu sínu. Við skulum hafa það hugfast að í dag er ekki óheimilt að vera með markaðsráðandi stöðu.

Oft getur það verið neytendum fyrir bestu að fyrirtæki hagræði í starfsemi og tryggi þannig lægsta vöruverðið. Það er hins vegar ólöglegt að nýta sér markaðsráðandi stöðu, sem gerist ef fyrirtæki eru farin að hækka vöruverð eða viðhalda ákveðnu markaðsskipulagi á kostnað viðskiptavina. Besta leiðin til þess að koma í veg fyrir að fyrirtæki misnoti markaðsráðandi stöðu er að tryggja aðgengi nýrra aðila inn á markaðinn. Þannig að um leið og fyrirtæki hyggst misnota aðstöðu sína skapast tækifæri fyrir nýja aðila til að fara í samkeppni. Lykilatriðið er því að markaðurinn hér á landi sé opinn.

Íslenskt atvinnulíf á að taka þátt í aukinni alþjóðavæðingu viðskipta og auka útflutning á vöru og þjónustu. Við eigum að auka möguleika útlendinga á fjárfestingum hér á landi. Hvergi eru meiri hömlur á beina erlenda fjárfestingu innan OECD. Þessar takmarkanir draga úr möguleikum á að laða erlent fjármagn og þekkingu inn í íslenskt viðskiptalíf. Alþjóðavæðing atvinnulífsins kallar á mikla hagræðingu og samþjöppun. Fyrirtæki geta þurft að renna saman og mynda stærri einingar til þess að hafa afl til sóknar á erlenda markaði. Markaðurinn á Íslandi er í mikilli mótun. Nýverið bárust okkur fréttir af sölu tveggja öflugra sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi.  Það sem athygli vekur er að bæði þessi fyrirtæki eru seld einstaklingum og félögum þeirra sem ekki hafa talist hluti af öflugustu „valdablokkum” í íslensku viðskiptalífi.  Með auknu frelsi í viðskiptum eru nú að keppa 8-10 hópar fjárfesta á ólíkum sviðum en áður voru hér aðeins tveir hópar fjárfesta. Ef rétt er á málum haldið getum við séð fyrir að innan 5-10 ára verði hér starfandi 15-20 hópar öflugra fjárfesta, innlendra og erlendra, sem munu fjárfesta hér á ýmsum sviðum og keppa innbyrðis og stuðla þannig að aukinni samkeppni og bættum lífskjörum heimilanna í landinu.  Þetta hefur orðið raunin í nágrannalöndum okkar og ef rétt er á málum haldið getur þessi þróun orðið hérlendis. 

Á Íslandi búa aðeins um 290.000 manns og því þurfum við að vera öflug ef við ætlum að keppa úti í hinum stóra heimi. Til að mynda þurfti aðeins að selja eitt tiltölulega lítið fyrirtæki í útlöndum til að eignast ráðandi hlut í stórum fyrirtækjum hérlendis. Menn líta á það misjöfnun augum hvort við eigum að bera okkur saman við Bandaríkin og fleiri lönd sem sett hafa lög gegn hringamyndun. Sem dæmi má nefna hin frægu Sherman lög sem tóku gildi árið 1890. Það getur verið vafasamt fyrir svo fámenna þjóð að taka löggjöf stórra þjóða til fyrirmyndar. Við þurfum að huga að okkar sérstöðu.

Við höfum yfir að ráða ýmsum aðferðum. Eftirlitsstarfsemi hins opinbera er til staðar. Skuldbindingar Íslands vegna þátttöku á evrópska efnahagssvæðinu knýja oft á um að settar eru reglur um tiltekið eftirlit. Það er undirstöðuatriði í samkeppnislöggjöf að hún á fyrst og fremst að leitast við að skapa forsendur fyrir samkeppni á markaði. Löggjöfin á hvorki að velja einhverja til að vegna betur eða refsa þeim sem ná árangri. Það að fyrirtæki stækki eða komist í markaðsráðandi stöðu getur verið vegna góðs rekstrar án þess að nokkurn tíma sé beitt samkeppnishamlandi aðferðum. Löggjöfin má ekki hamla samruna sem leiðir til aukinnar hagkvæmni og lækkunar kostnaðar í atvinnulífinu og skilar sér til viðskiptavinanna.

Allt eftirlit miðar að því að vernda einhverja hagsmuni, yfirleitt hagsmuni neytenda. Neytendurnir sjálfir eru án efa kröfuhörðustu eftirlitsaðilarnir. Fyrirtæki verða ávallt að vinna sér inn traust viðskiptavina og það gera þau m.a. með öflugu innra eftirliti. Ímynd fyrirtækja skiptir miklu máli og við forðumst að eiga viðskipti við fyrirtæki sem ekki hefur góðan orðstír. Það liggur í hlutarins eðli að fyrirtæki leggja sig fram við að svara þessum kröfum neytenda.

Það kemur ekkert í staðinn fyrir opið markaðskerfi og hinn frjálsa markað. Loforð hins opinbera um strangt eftirlit getur á hinn bóginn villt fyrir um á hinum frjálsa markaði og leitt til, þegar allt kemur til alls, verra eftirlits og aðhalds. Íslendingar vilja vera meðal þeirra þjóða sem við bestu lífskjör búa. Við þurfum aukið frelsi í fjárfestingum milli landa og almenna og skýra lagasetningu – ekki sértæka löggjöf sem getur spornað við eðlilegri þróun í atvinnulífinu og skert lífsgæði okkar.

Sigþrúður Ármann

Tengt efni

Gullhúðun og refsigleði í nýjum markaðssetningarlögum

Þingið hefur til umfjöllunar frumvarp til nýrra markaðssetningarlaga sem er ...
5. jún 2024

Umsögn um frumvarp til breytinga á lögum um virðisaukaskatt og lögum um kílómetragjald

Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn um frumvarpið og telur fyrirhugaðar ...

Árangurslitlar aðgerðir á húsnæðismarkaði

„Stuðningsúrræði stjórnvalda hafa verið of almenn í gegnum tíðina og kostað háar ...
4. des 2023