Leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja kynntar

Á fjölmennri ráðstefnu Verslunarráðs í gær voru nýútkomnar Leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja kynntar. Verslunarráð hefur komið upp á heimasíðu sinni sérstakri síðu sem tileinkuð er stjórnarháttum fyrirtækja. Á þeirri síðu er sagt frá starfi nefndar Verslunarráðs, Kauphallar Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem vann að gerð leiðbeininganna og forsaga málsins rakin. Á síðunni eru einnig upplýsingar um fleira það er tengist stjórnarháttum fyrirtækja, svo sem upplýsingar um hvernig önnur lönd hafa nálgast viðfangsefnið.

Á ráðstefnunni í gær komu hins vegar fram margvísleg og gagnleg sjónarmið.
Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar-
og viðskiptaráðherra ávarpaði ráðstefnuna og fagnaði útgáfu leiðbeininganna og sagði að þær myndi koma ítarlega til skoðunar í nefndum um endurskoðun viðskiptalöggjafar sem nú starfa á vegum hennar. Svanbjörn Thoroddsen formaður starfshóps Verslunarráðs sagði frá starfi nefndarinnar, Ólafur Nilsson endurskoðandi hjá KPMG fjallaði um upplýsingaskyldu fyrirtækja, Leena Linnainmaa lögfræðingur hjá finnska verslunarráðinu og einn höfunda leiðbeingina um stjórnarhætti fyrirtækja í Finnlandi bar saman íslensku og finnsku leiðbeiningarnar og Hreiðar Már Sigurðsson forstjóri KB banka sagði frá reynslu bankans af leiðbeiningum annarra landa.
Glærur þessara ræðumanna má finna á áðurnefndri síðu um stjórnarhætti og í Viðskiptablaðinu í dag er ítarleg frásögn af fundinum.

Í líflegum pallborðsumræðum, undir stjórn Ólafs B. Thors stjórnarformanns, kom fram hjá Þórði Friðjónssyni forstjóra Kauphallar að Kauphöllin muni mælast til þess við fyrirtæki að þau fylgi leiðbeiningunum. Hann benti svo á að í reglum Kauphallar væri gerð krafa um einhver atriði sem einnig eru í leiðbeiningunum, t.d. um upplýsingaskyldu um launakjör æðstu stjórnenda.

Fram kom það mat Bjarna Ármannssonar að lánastofnanir muni við lánshæfismat líta til þess hvort fyrirtæki fylgi þessum leiðbeiningum því það væri eðli máls samkvæmt hluti af áhættumati að meta hvort fyrirtæki fylgi góðum stjórnarháttum.

Illugi Gunnarsson aðstoðarmaður forsætisráðherra taldi að leiðbeiningarnar muni hafa áhrif á störf endurskoðunarnefndar viðskiptaráðherra sem er að störfum. Að mati Illuga þarf að meta það vandlega hvað eigi heima í reglum og hvað í leiðbeiningum sem þessum. Illugi sagði óvarlegt að fjötra viðskiptalífið svo að það missi snerpu og sveigjanleika. Illugi benti á að viðskiptasiðferði væri svo annað mál og erfitt að lögfesta það sem slíkt.

Jón Sigurðsson forstjóri Össurar hf. sagði frá því að Össur hefði reynslu af leiðbeiningum sem þessum, hefði í raun þegar tekið meirihluta þeirra upp (hefði þó ekki endurskoðunarnefnd). Að mati Jóns væri umræðan sem þessar leiðbeiningar munu vekja í raun mikilvægari en leiðbeiningarnar sjálfar.

Bjarni benti á í umræðunum að viðskiptaumhverfi hér á landi væri litlum hluthöfum hagkvæmt. Hér væri til að mynda auðvelt að ná fram margfeldiskosningu. Bjarni benti svo á að viðskiptaráðherra hefði greinilega ekki haft nýútkomnar leiðbeiningar að leiðarljósi við skipun nefndar sinnar um endurskoðun viðskiptalöggjafarinnar, a.m.k. ekki ákvæði leiðbeininganna um óhæði.

Tengt efni

Ómálefnaleg mismunun og dregið úr fjölbreytni

Umsögn Viðskiptaráðs um drög að frumvarpi til áfengislaga (mál nr. 596)
9. jún 2022

Alvarlegar athugasemdir við frumvarp til laga um breytingar á fjarskiptalögum

Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Viðskiptaráð Íslands hvetja til þess ...
21. des 2021

Erlendar fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi

Verslunarráð Íslands í samvinnu við Kauphöll Íslands stendur fyrir ...
20. okt 2004