Frjálst útvarp eftir Þór Sigfússon

Höfðu andstæðingar frjáls útvarps á réttu að standa þegar þeir börðust gegn afnámi ríkiseinkokunar útvarps á áttunda og níunda áratugnum? Í grein eftir Þorbjörn Broddason fjölmiðlafræðing frá árinu 1984 er varað við einkarekstri fjölmiðla með þeim rökum að “umsvifamestu kaupsýslufyrirtæki landsins og stjórnendur þeirra, verði eins konar útvarpsráð einkastöðvanna.” Nú virðast þau sjónarmið uppi að varnaðarorðin um áhrif þess að hleypa kaupsýslumönnum í fjölmiðla hafi reynst á rökum reist.

 

Nýtt frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum hefur að markmiði að draga úr valdi einstakra fyrirtækja í fjölmiðlum.  Frumvarpið kemur í veg fyrir að fyrirtæki í óskyldum rekstri verði kjölfestuhluthafar í fjölmiðlum og markaðsráðandi fyrirtæki eigi hlut í fjölmiðlum.  Þá má sama fyrirtækið ekki eiga bæði ljósvakamiðil og prentmiðil. 

 

Á einstaklingum sem rekið hafa fyrirtæki að vera fyrirmunað að eiga fjölmiðil á Íslandi?  Íslensk fyrirtæki hafa svo áratugum skiptir verið mikilvæg kjölfesta fjölmiðlunar hérlendis á markaði sem hefur einkennst af meiri ríkisumsvifum en í flestum nágrannalöndum okkar. Þrátt fyrir ríkisumsvifin hefur mikil gróska verið í einkafjölmiðlum og vel á annan tug öflugra fyrirækja hafa lagt fé í þá. Verði nýtt frumvarp að lögum verður langflestum þessara fyrirtækja gert erfitt að fjárfesta í starfsemi af þessu tagi vegna markaðshlutdeildar sinnar á öðrum sviðum. 

 

Sama kvöld og fréttir bárust af nýju frumvarpi um eignarhald á fjölmiðlum birti Ríkissjónvarpið lista yfir vinsælasta sjónvarpsefnið og svo vildi til að þættir Ríkissjónvarpsins röðuðu sér í átta efstu sætin í vinsældakönnuninni.  Umtalsvert tap er á rekstri RÚV, eigið fé er uppurið og skattgreiðendur halda áfram að greiða niður samkeppnisdagskrá.

 

Vandamálið í íslenskri fjölmiðlun í dag er ekki hlutafjárþátttaka fyrirtækja í einkafjölmiðlum. Vandinn liggur í algerri yfirburðastöðu ríkisfjölmiðla. Verði nýtt frumvarp að lögum í óbreyttri mynd mun einokun RÚV koma enn betur í ljós og stoðir einkarekstrar í fjölmiðlum hérlendis veikjast umtalsvert. 

 

Eðlilegt er að skoða hvernig koma megi í veg fyrir að stjórnvöld, einstaklingar eða einstök fyrirtæki misnoti ráðandi stöðu á fjölmiðlamarkaði.  Samkeppnislögin eru skýr hvað þetta varðar. Sé vilji til þess að takmarka eignarhald á fjölmiðlum þá er afar brýnt að takmarka umsvif ríkisins jafnframt í þeim lögum.

 

Nýtt frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum er afturhvarf til fortíðar og getur stuðlað að frekari ríkisvæðingu í fjölmiðlun hérlendis. Andstæðingar frjáls útvarps á síðustu öld höfðu rangt fyrir sér um afleiðingar aukins frelsis á þessu sviði og þeir hafa það enn.

Þór Sigfússon

Tengt efni

Má aðstoða hið opinbera? 

„Á meðan einkageirinn leiðir framleiðniaukninguna bendir ýmislegt til þess að ...
4. mar 2024

Óorð í ýmsum stærðum 

„Þegar íslensk stjórnvöld ákveða að innleiða EES-reglugerðir með íþyngjandi ...
4. okt 2023