Líflegur fundur um orkumál í morgun

Á fjölmennum morgunverðarfundi í morgun kynnti Verslunarráð skýrslu sína um markaðsvæðingu orkukerfisins sem starfshópur ráðsins hefur unnið að undirfarið misseri, undir forystu Páls Harðarsonar forstöðumanns hjá Kauphöll Íslands. Fundurinn hófst með kynningu Páls á skýrslunni, forsendum hennar og þeirri niðurstöðu sem hópurinn komst að.
Páll benti á að núverandi eignatengsl væru ekki samkeppnishvetjandi. Þá kom fram hjá honum að niðurstaða orkuhóps Verslunarráðs væri sú að klárlega væri ekki lengur þörf á aðkomu hins opinbera og lagt er til í skýrslunni að orkufyrirtækin séu gerð að hlutafélögum með það að markmiði að einkavæða þau. Þangað til að það verður gert er hins vegar eðlilegast að hlutabréf ríkisins í Landsvirkjun séu ekki í höndum iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem einnig fer með yfirumsjón málaflokksins. Verslunarráð hefur ávallt bent á að slíkt fyrirkomulag sé óeðlilegt og réttara væri að fjármálaráðherra fari með hluti ríkisins frekar en fagráðherrar. ´
Páll áréttaði mikilvægi þess að grunnþjónusta eins og orkuveita sé í höndum einkaaðila frekar en opinberra aðila.

Hér má nálgast glærur Páls og skýrslu Verslunarráðs.

Að framsögu lokinni voru hringborðsumræður með þátttöku þeirra Steingríms J. Sigfússonar alþingismanns, Benedikts Árnasonar skrifstofustjóra í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti og Stefáns Péturssonar framkvæmdastjóra hjá Landsvirkjun.

Steingrímu lýsti andstöðu sinni við þá niðurstöðu skýrsluhöfunda að stefna beri að markaðsvæðingu orkukerfisins. Steingrímur rifjaði það upp að hann hefði á sínum tíma talað fyrir því að Ísland fengi undanþágu frá tilskipun ESB sem varðar skipulagsbreytingar orkumála þó vissulega hefði hann talið ástæðu til að endurskoða skipulagið að einhverju leyti. Steingrímur bætti því þó við að hann sæi þó þann kost við markaðsvæðingu að einkafyrirtæki hefði, að hans mati, ekki farið út í framkvæmdir við Kárahnjúka heldur látið fjárhagsleg- og markaðssjónarmið ráða för.

Benedikt Árnason sagði að ljóst væri að ekki hefði fengist undanþága fyrir Ísland frá reglum ESB á þessu sviði. Þá setti Benedikt fram spá sína um þróunina á næstu misserum og árum. Þannig spáir hann því að næstu misseri verði orkufyrirtækjum að einhverju leyti erfið þar sem ljóst væri að þau þurfa að ráðast í ýmis konar endurskipulagningu. Þá væri fyrirséð að fyrirtæki með litla framleiðslu myndu leitast við að auka hana og ný fyrirtæki reyna að hasla sér völl í sölu. Lóðrétt skipulag verði ríkjandi hjá orkufyrirtækjum, þ.e. framleiðsla, dreifing og sala. Benedikt spáir því einnig að fyrirtækin stækki og samvinna við aðra geira aukist, t.d. við fjarskiptafyrirtæki. Fram kom í máli Benedikt að fyrirsjáanlegt sé að nýtt yfirbragð einkenni orkufyrirtæki framtíðar með aukinni markaðssetningu. Benedikt telur að raforkufyrirtæki séu hins vegar ekki í dag í stakk búin til að vera seld. Kemur þar margt inn í, s.s. vangaveltur um skattumhverfi þeirra, virkjunarleyfi og sameiginlegt eignarhald ríkis og sveitarfélaga sem getur flækst fyrir sölu á fyrirtækjunum.

Stefán Pétursson rifjaði það upp að Landsvirkjun hafi alltaf haft þá skoðun, og kynnt hana fyrirfram, að kostnaður myndi aukast við skipulagsbreytingar. Þá benti Stefán á þá hættu að dragi úr rannsóknarvinnu með aukinni samkeppni sem fylgir markaðsvæðingu. Rannsóknir séu dýrar og ávalt óvíst um fjárhagslegan ávinning af þeim. Því er líklegt að rannsóknarstarf færist frá orkufyrirtækjunum og haldist þar með hjá hinu opinbera.

Töluverðar umræður urðu meðal fundarmanna og pallborðsþátttakenda. Einn fundargesta, Þorkell Helgason orkumálastjóri tók til máls og benti á að ekki stæði til að þenja út Orkustofnun þótt eftirlitshlutverki hennar myndi aukast með markaðsvæðingu en því hafði verið haldið fram áður af pallborði. Þá benti Þorkell á að umræða um aukinn kostnað við markaðsvæðingu gæti stafað af því að orkufyrirtækin notuðu tækifærið til að taka til hjá sér og tengja annars nauðsynlega kostnaðarhækkun við markaðsvæðinguna sem slíka. Það væri þó kannski ekki sanngjarnt. Friðrik Sophusson forstjóri Landsvirkjunar var einnig á fundinum og svaraði því til að hinn aukni kostnaður væri klárlega vegna aukins eftirlits og aðskilnaðar í rekstri á sérleyfisþáttum og samkeppnisþáttum. Friðrik tók hins vegar undir meginniðurstöðu skýrslunnar um að markaðsvæðing væri næsta skrefið.

Á fundinum var einnig rifjuð upp niðurstaða nefndar iðnað- og viðskiptaráðherra, sem í sátu fulltrúar allra stjórnmálaflokka, þar sem samróma var mælt með því að stefna beri að markaðsvæðingu orkukerfisins.

Verslunarráð Íslands mun áfram vinna að skoðun þess hvernig best megi haga markaðsvæðingu málaflokksins og ábendingar um atriði í skýrslunni og annað þessu tengt eru vel þegin.

Tengt efni

Umsögn um frumvarp til laga um listamannalaun (nýir sjóðir og fjölgun úthlutunarmánaða)

Viðskiptaráð Íslands leggur til að frumvarpið verði endurskoðað. Nái frumvarpið ...

Ný útgáfa um íslenskt efnahagslíf - H1 2024

Viðskiptaráð Íslands hefur birt nýja útgáfu af The Icelandic Economy. Skýrslan ...
30. apr 2024

Höfum við efni á þessu?

Í því efnahagsástandi sem nú ríkir er tímabært að ræða sívaxandi umsvif hins ...
23. jún 2023