Vegamál - umbætur og einkaframkvæmd

Góð mæting var á sameiginlegan fund Viðskiptaráðs Íslands og Samtaka verslunar og þjónustu um umbætur í vegamálum og kosti einkaframkvæmdar í því samhengi. Framsögumenn voru Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, Þór Sigfússon forstjóri Sjóvá og Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Suðurlandsvegar ehf. Auk þess fór Sigurður Jónsson framkvæmdastjóri SVÞ yfir sýn samtakanna í þessum efnum og Hreinn Haraldsson framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar skýrði frá tæknilegum atriðum tengdum vegagerð. Fundinum stýrði Anna Kristín Gunnarsdóttir alþingismaður í fjarveru Kristjáns Þórs Júlíussonar bæjarstjóra Akureyrarbæjar. Í kjölfar erinda framsögumanna fóru fram pallborðsumræður þar sem gestum gafst kostur á að koma með spurningar.

Í ræðu sinni fór Sturla yfir áætlanir stjórnvalda í samgöngumálum og greindi frá helstu framkvæmdum undanfarinna ára. Hann sagði miklar kröfur gerðar um greiðfærar samgöngur á Íslandi og að oft mætti Samgönguráðuneytið mæta ósanngjarni gagnrýni. Þeir hafi síður en svo setið auðum höndum enda hafi mörgum framkvæmdum verið lokið á undanförnum árum. Sturla taldi engu að síður fulla þörf á átaki í samgöngumálum enda væri um samfellt verkefni að ræða. Hann fagnaði umræðu um einkaframkvæmd í geiranum og sagði mikilvægt að skoða þau mál til hlýtar.

Þór fór yfir kosti virkrar samkeppni í hönnun, rekstri, og uppbyggingu samgöngumannvirkja. Miklir möguleikar eru á hagræðingu og nýsköpun með aukinni aðkomu einkaaðila að vegamálum landsins. Þór benti á að þar tvinnuðust saman hagsmunir stjórnvalda og fyrirtækja í landinu. Nefndi hann sérstaklega þá sameiginlegu hagsmuni sem tryggingarfélög og stjórnvöld  hafa af auknu umferðaröryggi og lækkun á slysatíðni.

Halldór Benjamín reyfaði kosti þess að setja framkvæmdir og rekstur umferðarmannvirkja í hendur einkaaðila. Hann fór sérstaklega yfir mögulegt rekstrarfyrirkomulag á Suðurlandsvegi. Taldi hann allar forsendur fyrir hendi að hagkvæmara væri að fela ákveðinn verkefni í hendur einkaaðila, þrátt fyrir að fjármögnun yrði eitthvað dýrari.

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld sem og almenning til að skoða vel þær hugmyndir sem lagðar hafa verið fram einkarekstur í vegamálum. Um er að ræða hagkvæman kost sem getur verið öllum til hagsbóta; ríkissjóði, fyrirtækjum og almenningi.

Tengt efni

Umsögn um áform um breytingu á lögum um umhverfis- og auðlindaskatta

Hinn 3. nóvember sl. birti fjármála- og efnahagsráðuneytið áform um breytingu á ...

Umsögn um drög að frumvarpi til laga um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir

Hinn 31. október sl. birti umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti drög að ...

Umsögn um frumvarp til laga um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir

Sameiginleg umsögn Viðskiptaráðs, SA, SAF, SFS og SVÞ um frumvarp til laga um ...