Velheppnað málþing um traust og trúverðugleika

Í gær var haldið málþing um traust og trúverðugleika í Salnum, Kópavogi, á vegum AP almannatenglsa, Viðskiptaráðs Íslands og Capacent. Á þinginu fluttu erindi þau Halla Tómasdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, Áslaug Pálsdóttir, framkvæmdastjóri AP almannatengsla, David Brain, framkvæmdastjóri Edelman í Evrópu og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, rannsóknastjóri Capacent. Jafnframt fóru fram fjörugar pallborðsumræður þar sem fulltrúar viðskiptalífs, fjölmiðla og stjórnmálamanna ræddu helstu niðurstöður íslensku könnunarinnar og báru saman við niðurstöður alþjóðlegu könnunar Edelman.

Séu niðurstöðurnar hér á landi bornar saman við niðurstöður nýjustu alþjóðlegu könnunarinnar, sem nær til 18 landa, kemur í ljós að viðhorf íslenskra áhrifavalda hvað þetta varðar er í stórum dráttum svipað og í Svíþjóð. Auk Svía og Íslendinga eru Hollendingar eina Evrópuþjóðin sem ber mest traust til ríkisstjórnarinnar, síðan kemur viðskiptalífið, þá fjölmiðlar, og loks reka frjáls félagasamtök og trúfélög lestina. Sé tekið meðaltal af hverjum heimshluta fyrir sig nýtur viðskiptalífið almennt meira trausts en ríkisstjórnir í öllum heimshlutum. Þess ber þó að geta að í könnun Capacent var notast við orðið ríkisstjórn í stað enska orðsins government, sem gæti haft einhver áhrif á niðurstöður.Traust til trúfélaga mælist hvergi jafnlítið og hér á landi meðal þeirra Evrópulanda sem þátt taka í könnuninni.

Heilbrigðisgeirinn nýtur langmests trausts hér á landi, en 79% segjast bera frekar mikið eða mikið traust til hans. Næst koma tæknifyrirtæki (62%), bankar (56%), orkufyrirtæki (52%) og sérfræðingar (50%). Athygli vekur að íslenskir áhrifavaldar treysta heilbrigðisgeiranum mun betur en erlendir, því að meðaltali treysta 63% svarenda í þróuðum löndum heilbrigðisgeiranum og 57% í þróunarlöndunum.

Þegar spurt er hversu áreiðanlegar upplýsingar og umfjöllun um einstök fyrirtæki eru eftir því hvaðan þær eru fengnar kemur í ljós að íslenskir áhrifavaldar telja útvarpsfréttir áreiðanlegastar. Um 75% segja þær vera frekar eða mjög áreiðanlegar, en fast á hæla þeim með 74% koma greinar í viðskiptablöðum og skýrslur frá verðbréfa- eða greiningarfyrirtækjum. Sjónvarpsfréttir ná 66% en greinar í dagblöðum ekki nema 42%. Minnstur er áreiðanleiki auglýsinga (5%), bloggsíðna og skemmtiefnis svo sem kvikmynda og sjónvarpsþátta (3%).

Háskólakennarar, fjármálasérfræðingar, „fólk eins og þú“, forstjórar/yfirmenn svarenda og læknar njóta mikils trausts á Íslandi, en á bilinu 66-68% svarenda telja upplýsingar sem fást frá þessum aðilum trúverðugar. Um 43% telja forstjóra fyrirtækis trúverðuga og 42% almenna starfsmenn fyrirtækis. Minnst traust er hins vegar borið til skemmtikrafta eða íþróttamanna (5%) og bloggara (4%).

Könnun Capacent Gallup er sambærileg traustskönnun Edelman, en hún mælir viðhorf skilgreindra áhrifavalda. Þeir eru háskólamenntað fólk á aldrinum 35-64 ára sem fylgist með fjölmiðlum og hefur heildartekjur yfir 400.000 krónum á mánuði. Nánari upplýsingar um rannsóknina og málþingið má finna á vefnum www.appr.is.

Tengt efni

Ávarp Ara Fenger á Viðskiptaþingi

Ari Fenger flutti opnunarávarp á Viðskiptaþingi 2024. Þetta var hans síðasta ...
12. feb 2024

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023

Morgunspjall með háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra

Fundur aðeins opinn aðildarfélögum Viðskiptaráðs
26. apr 2023