Af hverju er það neytendum í hag að banna ekki uppgreiðslugjöld af húsnæðislánum?

Í yfirlýsingu sinni frá því um helgina lagðist Viðskiptaráð Íslands gegn sértækri lagasetningu sem bannar fjármálastofnunum að innheimta uppgreiðslugjald á lánum.  Rétt er að ítreka að Viðskiptaráð fagnar áætlunum ráðherra um niðurfellingu stimpilgjalda og vörugjalda, enda hefur ráðið lengi barist fyrir niðurfellingu þeirra eins og kom skýrt fram í 90 ára skýrslu ráðsins um bætta samkeppnishæfni Íslands (sem nálgast má hér). Er því vísað algerlega á bug að Viðskiptaráð leggist gegn hugmyndum ráðherra um aukna samkeppni á bankamarkaði enda hefur ráðið verið helsti málsvari aukinnar samkeppni og samkeppnishæfni allra atvinnvega hér á landi.  Aukið frelsi í viðskiptum er til hagsbóta bæði fyrir neytendur og fyrirtæki og því er Viðskiptaráð almennt á móti lagasetningum eða regluverki sem dregur úr frelsi til samninga.

Ástæðan þess að ráðið leggst gegn lagasetningu um niðurfellingu uppgreiðslugjalda er sú að neytendur muni óhjákvæmilega koma til með að bera kostnað af því óhagræði sem hlýst af slíkri íthlutun yfirvalda. Það liggur fyrir að lánastofnanir hafa í gegnum tíðina boðið uppá lán með og án uppgreiðslugjalda í einhverri mynd. Hafa neytendur þannig haft möguleika á að vega og meta sína hagsmuni með tilliti til þessa. Að sama skapi liggur fyrir að vextir á lánum án uppgreiðslugjalda hafa verið umtalsvert hærri en vextir á lánum með uppgreiðslugjöldum. Þetta á sér eðlilegar skýringar.

Vaxtaáhætta hvers lánasafns lánastofnanna er m.a. rakið til hreyfanleika þess. Því meiri hreyfanleiki sem er á lánasafni því meiri vaxtaáhætta fyrir viðkomandi lánastofnun. Þetta er m.a. vegna þess að lánastofnanir gætu ekki, án vandkvæða, komið uppgreiddum fjármunum í farveg annarsstaðar kæmi til holfskeflu uppgreiðslna. Að sama skapi velta kjör fjármögnunar lánastofnanna m.a. á gæðum útlánasafns og því má gera ráð fyrir að þau kjör myndu rýrna. Þar sem lánakjör viðskiptavina endurspeglast af fjármögnunarkostnaði lánastofnanna gæfist viðkomandi stofnunum því ekki kostur á að bjóða jafn hagstæða vexti.

Þetta myndi eðli málsins samkvæmt leiða til hærri vaxta. Lítill hreyfanleiki á húsnæðislánum hefur gert lánastofnunum kleift að bjóða neytendum lægri vexti. Með því að banna uppgreiðslugjöldin má leiða að því líkur að lán, sem áður voru með uppgreiðslugjaldi og þar með lægra vaxtastigi, verði tekin til endurskoðunar með tilliti til aukinnar vaxtaáhættu og vextir hækkaðir. Það er því spurning hvort neytendur séu tilbúnir að verða af þeim möguleika að fá lægri vexti gegn því að festa lánið til lengri tíma. Valkostur um þessa lægri vexti er að mati Viðskiptaráðs Íslands mikið hagsmunamál fyrir íslenska neytendur.

Frekari upplýsingar veita:
Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri
Frosti Ólafsson, hagfræðingur
Haraldur I. Birgisson, lögfræðingur

Tengt efni

Árangurslitlar aðgerðir á húsnæðismarkaði

„Stuðningsúrræði stjórnvalda hafa verið of almenn í gegnum tíðina og kostað háar ...
4. des 2023

Greiðslumiðlun Schrödingers

„Með frumvarpinu er ekki einungis verið að veita Seðlabankanum heimild til að ...
4. mar 2024

Um annarra manna fé

Fyrir hverja krónu sem heimili og fyrirtæki verja samanlagt, eyðir hið opinbera ...
14. apr 2024