Af hverju eru Íslendingar svona bjartsýnir?

Þannig hljómaði fyrsta spurning slóvensks fréttamanns sem staddur var hér í síðustu viku til að fylgjast með sjónarspili hamfara í íslensku hagkerfi.  Vikunni hafði hann varið í að tala við Íslendinga.  Viðmælendur hans komu úr stjórnsýslu, viðskiptalífi, heilsugæslu, menntakerfinu og víðar.  Venjulegir Íslendingar.  Það kom honum spánskt fyrir sjónir að þrátt fyrir atburði síðustu vikna og augljóst áfall fyrir íslenskt efnahagslíf, þá virtist honum lífið ganga sinn vanagang.  Bankar eru opnir, búðir afgreiða vörur, bílar keyra á götum, fólk fer til vinnu og börn í skóla.  Með öðrum orðum, þá hefur að einhverju marki tekist að halda lágmarks virkni í gangverki hagkerfisins.

Það er þó ástæðulaust að draga dul á alvarleika þeirra áhrifa sem fall fjármálakerfisins hefur á íslenskt efnahagslíf.  Ímynd Íslands hefur berið verulegan hnekki, hérlendis sem erlendis, og íslensk fyrirtæki finna áþreifanlega fyrir þeim vandkvæðum (og kostnaði) sem laskað orðspor hefur í för með sér. Krónan hefur veikst enn frekar, aðgengi að gjaldeyri er „temprað“, utanríkisviðskipti ganga illa eða ekki og viðskiptasambönd trosna eða eyðast.  Að auki er búist við almennri niðursveiflu hagkerfisins með umtalsverðri aukningu atvinnuleysis, minnkandi eftirspurn, samdrætti kaupmáttar og þjóðartekna.

Þrátt fyrir ofangreind vandkvæði og þá óvissu um framtíð sem eflaust hrjáir marga, eru Íslendingar upp til hópa bjartsýnir um að betri tíð sé í vændum. Það má auðvitað velta upp margskonar svörum við spurningu fréttamannsins.  Sú nærtækasta er að það kemur ekkert annað til greina en bjartsýni.  Þó október 2008 verði eflaust lengi í minnum hafður sem svartur mánuðir í íslenskri viðskiptasögu, þá er uppgjöf ómöguleg.  Síðan sögur hófust hefur Ísland verið harðbýlt land, í mörgum skilningi.  Þetta hefur eflaust haft áhrif á þjóðarsálina, til herðingar.  Við höfum margsinnis lent í áföllum, oft mun alvarlegri en þeim sem nú ríða yfir.  Við höfum líka jafn oft náð okkur af þeim og það mun einnig takast nú.

Það sem er jákvætt við núverandi stöðu er að viðfangsefnin liggja fyrir og þau má leysa með þeim krafti, áhuga og bjartsýni sem Íslendingum er í blóð borin.  En svo ofangreind viðfangsefni megi leysa á farsælan hátt er nauðsynlegt að virkja sem flestar hendur.  Í dag vantar upp á að það hafi verið gert.  Ástæðan er sú að óvissa ríkir um nauðsynlegar aðgerðir í efnahagsmálum sem rétt geta af slagsíðuna á þjóðarskútunni.  Undir slíkum kringumstæðum er erfitt fyrir þá fjölmörgu aðila sem vilja leggja hönd á plóg að forgangsraða vinnu og verkefnum svo þau skili okkur að réttu marki.  Vinnu þeirra fjölmörgu aðila sem nú leggja sig alla fram má í raun líkja við fjörlegan fiðluleik í brennandi húsi.

Hér þarf að koma til kasta stjórnvalda sem verða nú sem aldrei fyrr að sýna forystu og fyrirhyggju.  Það er algerlega nauðsynlegt að sem fyrst liggi fyrir heilsteypt og trúverðug áætlun stjórnvalda til endurreisnar íslensku efnahagslífi.  Án slíkrar áætlunar verða aðgerðir einstaklinga og fyrirtækja til að bæta úr núverandi ástandi í besta falli tilviljunarkenndar og árangurslitlar.  Það má einu gilda hvort um ræðir tilraunir til að liðka fyrir greiðsluflæði á milli landa eða efla traust erlendra aðila á íslenskum fyrirtækjum.  Snarkið í óvissueldinum sem nú logar yfirgnæfir annars fallega tóna fiðluleikaranna og framtakið verður alls ekki að því gagni sem annars mætti vera.

Það ber að viðurkenna að forystumenn þjóðarinnar standa nú frammi fyrir fjölmörgum vandasömum ákvörðunum sem skipta munu sköpum fyrir framtíð hagkerfisins og þar með velsæld íslenskra heimila og fyrirtækja.  Þessar ákvarðanir verður að taka og sú nærtækasta lítur að því hvort og þá með hvaða hætti leitað verður eftir stuðning Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) við endurreisn íslensks efnahagslífs.  Það er von mín að þegar þessi greinarstúfur birtist hafi stjórnvöld formlega sóst eftir slíkum stuðning, enda virðast kostir samstarfs við IMF veigameiri en gallarnir.  Til að mynda er líklegt að þannig náist efnahagslegur stöðugleiki fyrr en ella.  Þetta er grunn forsenda starfhæfs atvinnulífs, sem nú höktir verulega.

En til að áætlun um endurreisn sér trúverðug og þess megn að blása Íslendingum frekari kraft í brjóst þarf hún að ná lengra.  Taka þarf ákvarðanir um fyrirkomulag gjaldeyrismála, bæði til skemmri tíma (fast eða fljótandi gengi) og lengri (mögulegrar aðildar að ESB).  Gera þarf áætlun um hvernig stemmt verður stigu við verðbólgu, t.a.m. með samstarfi aðila vinnumarkaðar, sértækum aðgerðum á borð við niðurfellingu innflutningstolla og vörugjalda og almennu aðhaldi í ríkisfjármálum.   Bráðnauðsynlegt er að tryggja að kröftum þess öfluga fólks sem nú streymir verkefnalítið út á vinnumarkaðinn verði fundin uppbyggilegur farvegur.  Þetta má gera með átaki í menntun, eflingu umhverfis nýsköpunar með aðgangi að fjármagni, þjálfun og skattaívilnunum. Allt myndi þetta gera fólki auðveldara um vik að búa til störf og skapa sína eigin framtíð.
 
Hverjar sem ákvarðanirnar verða, er meginskylda forystumanna þjóðarinnar að skapa áætlun um endurreisn og teikna framtíðarsýn sem Íslendingar geta fylkt sér um.  Þegar sú sýn liggur fyrir vinna margar hendur létt verk.  Þrátt fyrir brotlendingu íslenska hagkerfisins eru langtímahorfur bjartar og með tímanum mun okkur takast að byggja hér enn öflugra samfélag.  Trúverðug áætlun stjórnvalda og bjartsýni Íslendinga eru þar ágætt veganesti.

Finnur Oddsson, Framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

Tengt efni

At­vinnu­rekstur er allra hagur

„Það er mikið hagsmunamál fyrir launafólk að til séu þeir sem bæði geta stofnað ...
23. feb 2024

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023

Vel sóttur Peningamálafundur Viðskiptaráðs

Peningamálafundur Viðskiptaráðs fór fram í morgun, 23. nóvember. Yfirskrift ...
23. nóv 2023