Afstaða greiðslutryggingarfélaga til íslensks atvinnulífs

Eins og fjallað hefur verið um í fréttabréfi Viðskiptaráðs að undanförnu hafa erlend greiðslutryggingarfélög dregið sig markvisst út úr greiðslufallstryggingum sem tengjast rekstri íslenskra fyrirtækja.  Þetta á sérstaklega við um greiðslufallstryggingar á íslenska innflytjendur, en að auki eru félög Íslendinga sem skráð eru erlendis undir smásjá og sum hver ekki tryggð. Hér eru um verulegt hagsmunamál að ræða og nauðsynlegt að þessari þróun verði snúið við.

Vegna þessa heimsótti fulltrúi Viðskiptaráðs, ásamt fulltrúum iðnaðaráðuneytis, íslenskra banka, tryggingarfélaga og CreditInfo, þrjú stærstu félögin á þessum markaði, þ.e. Atradius, Euler Hermes og Coface.  Fulltrúar í sendinefnd þessari eru hluti af stærri vinnuhópi sem tekur til banka, íslenskra tryggingarfélaga og Seðlabanka Íslands.  Markmið heimsóknarinnar var fjórþætt:

  • Að gera grein fyrir almennri stöðu efnahagsmála á Íslandi.
  • Skýra stöðu íslenskra fyrirtækja.
  • Fá upplýsingar um afstöðu greiðslutryggingarfélaganna til Íslands og íslenskra fyrirtækja.
  • Hefja viðræður um með hvaða hætti hægt verður að færa þjónustu greiðslutryggingarfélaganna gagnvart íslenskum hagsmunum í fyrra horf.

Heimsóknin mæltist afar vel fyrir og þökkuðu stjórnendur erlendu greiðslutryggingarfélaganna sérstaklega frumkvæðið og vilja íslenskra stjórnvalda og viðskiptalífs til upplýsingar og útskýringar þeim til handa.  Fulltrúar allra félaganna lögðu áherslu á að þeim þætti miður að koma hafi þurft til niðurfellingar tryggingar á íslenskri áhættu, en lögðu áherslu á að þetta væri hluti af þróun víða um heim í dag og að Ísland væri ekki eina landið í þessari stöðu.  Greiðslutryggingarfélögin væru markvisst að draga úr áhættu sinni í ljósi ótryggs efnahagsástands. 

Það kom berlega í ljós hjá fulltrúum tryggingarfélaganna að það er einkum tvennt sem þeir horfa til þegar afstaða til íslenskra fyrirtækja verður endurmetin:

  1. Kerfislæg áhætta (þ.e. staða efnahagslífs) sem fyrirtæki búa við á Íslandi.
  2. Upplýsingar um raunstöðu þeirra íslensku fyrirtækja sem tryggingar ná til (eiginfjár- og lausafjárstöðu).

Það er því ljóst að ekki er hægt að búast við að miklar breytingar verði á afstöðu erlendu tryggingarfélaganna fyrr en efnhagspakki IMF liggur fyrir og er farinn að hafa áhrif.  Forsenda endurmats er afnám gjaldeyrishafta og hnökralaus greiðslumiðlun við önnur lönd.  Í ljósi erlendrar skuldsetningar íslenskra fyrirtækja ræður gengi krónunnar miklu um eiginfjárstöðu þeirra.  Vegna þess horfa tryggingarfélögin einnig mjög til gengis krónunnar, sem verður að ná stöðugleika og styrkjast. 

Eftir að stöðugleika hefur verið náð og meiri vissa verður um framtíðarumhverfi rekstrar íslenskra fyrirtækja munu tryggingarfélögin horfa á hvert fyrirtæki fyrir sig.  Þá er forsenda þess að áhætta sé borin að góðar upplýsingar liggi fyrir um rekstur viðkomandi fyrirtækis.  Nauðsynlegt er að snarlega verði brugðist við og fyrirtæki skili þegar útistandandi árskýrslum og helst árshlutauppgjörum þar sem það á við. 

Á næstu dögum og vikum mun Viðskiptaráð, í samstarfi við fyrrnefndan vinnuhóp,  tryggja að nauðsynlegar upplýsingar um framgang mála á Íslandi berist Atradius, Euler Hermes og Coface (og mögulega öðrum félögum).  Í því sambandi er nauðsynlegt að sem fyrst skýrist með hvaða hætti IMF komi að stuðningi við íslenskt efnahagslíf.

Tengt efni

Ný útgáfa um íslenskt efnahagslíf - 4. ársfjórðungur

Viðskiptaráð Íslands hefur birt nýja ársfjórðungslega útgáfu af The Icelandic ...
2. nóv 2023

Innflytjendur – drifkraftur hagvaxtar framtíðarinnar?

Er þróun síðustu ára bara byrjunin og fjölgunin komin til að vera?
25. feb 2020

Atradius opnar á greiðslutryggingar

Frá hausti 2008 hafa íslensk fyrirtæki, inn- og útflytjendur, lent í allnokkrum ...
27. sep 2011