Nýtum krafta einkaaðila

Í kjölfar fjármálakreppunnar hefur farið fram mikil umræða um hvaða stefnu sé skynsamlegt að fylgja til eflingar og endurreisnar á hagkerfinu. Þeir aðilar sem telja markaðsbúskap óæskilegra fyrirkomulag en miðstýringu og ríkisbúskap hafa haldið því fram að hrun íslenska bankakerfisins megi fyrst og fremst rekja til áherslna á markaðslausnir. Undir sama hatt hafa einstaklingsframtak og viðskiptafrelsi verið sett. Þrátt fyrir að margt megi læra af hremmingum vetrarins og færa til betri vegar er málflutningur af þessu tagi byggður á röngum forsendum og getur reynst afar skaðlegur verði honum fylgt eftir. Það myndi reynast óheillavæn þróun að snúa baki við þeim almennu viðhorfum sem hafa leitt til hagsældar vestrænna ríkja síðustu aldirnar.

Hugmyndafræði markaðshagkerfis byggir ekki á því að hið opinbera sé ekki til staðar, heldur að verkefni þess snúi fyrst og fremst að því að skapa einkaaðilum þá umgjörð sem nýtist hagkerfinu best. Hluti af því verkefni felur í sér að verja þriðja aðila gegn skaðlegum áhrifum af viðskiptum annarra. Ef því er ekki sinnt getur of mikið athafnafrelsi ákveðinna þátttakenda hagkerfisins komi niður á frelsi annarra.

Afleiðingar hruns bankakerfisins eru mjög skýrt dæmi um vandamál af þessu tagi. Þær miklu skuldbindingar sem erlendir innlánsreikningar bankanna hafa skapað þegnum landsins ganga þvert á hugmyndafræði um frelsi og markaðslausnir. Hið sama má segja um afskriftir veðlána Seðlabanka Íslands sem notuð voru í endurhverfum viðskiptum við bankakerfið. Í þeim tilfellum hafa stjórnvöld sofið á verðinum og ekki sinnt því hlutverki að verja þegna samfélagsins gegn skaðlegum áhrifum af starfsemi viðkomandi fyrirtækja. Ríkisvæðing á fjárhagslegu tapi fyrirtækja á mun meira skylt við áætlunarbúskap en markaðsbúskap.

Framundan eru mikilvægar ákvarðanir um framtíðarverkaskipan á milli almenns vinnumarkaðar og ríkisins. Fall íslensku bankanna hefur leitt til þess að stærstur hluti fjármálakerfisins er nú aftur kominn í eigu ríkisins. Í ljósi mikilla skulda íslenskra fyrirtækja við bankakerfið stýrir hið opinbera miklu um þróun mála í viðskiptalífinu á næstu misserum. Framvinda í rekstri fyrirtækja kemur til með að vera ráðandi þáttur í þróun atvinnumála og því er ekki eingöngu um hagsmunamál eigenda fyrirtækjanna að ræða heldur allra heimila í landinu. Það er mikilvægt að stjórnvöld geri sér grein fyrir þeirri eðlilegu hringrás sem almennur vinnumarkaður og rekstur hins opinbera mynda og rói öllum árum að því marki að lágmarka þann fjölda fyrirtækja sem lenda í eigu ríkisbankanna vegna yfirstandandi erfiðleika. Stefna stjórnvalda í þessum efnum mun hafa afgerandi áhrif á þróun atvinnuleysis, dýpt efnahagslægðarinnar og svigrúm í fjármálum hins opinbera á komandi misserum.

Frosti Ólafsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Grein birtist í Viðskiptablaðinu 20. maí sl.

Tengt efni

Fimm staðreyndir inn í kjaraviðræður

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, skrifar um fimm staðreyndir ...
24. jan 2024

Lykillinn að bættum lífsgæðum og auknum tækifærum í atvinnulífi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til ...
21. mar 2023