Áherslur í viðskiptalífinu

Á undanförnum vikum og mánuðum hafa æ fleiri fyrirtæki færst undir forsjá ríkisins, með einum eða öðrum hætti. Það er að hluta eðlilegt, í kjölfar efnahagshruns eins og þess íslenska, að bregðast þurfi við rekstrarvanda fyrirtækja og því um stundarsakir ekki hægt að amast verulega við frekari aðkomu hins opinbera að fyrirtækjarekstri. Markmið hins opinbera ætti þó ávallt að vera að draga sig sem allra fyrst út úr rekstri fyrirtækja, enda sýnt að slíkt eignarhald er óskilvirkt og skapar iðulega fleiri vandamál en það leysir.

Í þeim tilvikum þar sem aðkoma ríkis að fyrirtækjum er nauðsynleg, er brýnt að hún valdi sem minnstri röskun í samkeppnisumhverfi viðkomandi atvinnugreinar. Slík röskun getur verið af margvíslegum toga. Til að mynda getur bætt fjárhagsstaða fyrirtækis í ríkiseigu, vegna eftirgjafar skulda eða sérstakrar fyrirgreiðslu sem samkeppnisaðilar njóta ekki (t.d. frá banka sem hefur yfirtekið viðkomandi fyrirtæki), gert því kleift að keppa um hylla viðskiptavina af meiri hörku en annars. Einnig er mögulegt að fyrirtækjum í ríkiseigu sé hyglt eða reglur sveigðar þegar kemur að samningum við opinbera aðila.

Því miður er það svo að á þeim fáu vikum sem liðnar eru síðan ríkisbankarnir hófu að taka yfir íslensk fyrirtæki, þá hafa komið upp of mörg dæmi um óheppileg vinnubrögð af þessu tagi. Það er ekki aðeins að viðkomandi atvinnugrein sem ber skaða af, heldur einnig almenningur, sem á endanum situr upp með augljósan kostnað af löskuðu samkeppnisumhverfi, bæði til skemmri og lengri tíma. Reynsla annarra ríkja af efnahagskreppnum og rannsóknir sýna að ráðstafanir sem takmarka samkeppni framlengja og auka á efnahagsörðugleika og vinna þar með gegn bata. Það er því mikið í húfi fyrir skattborgarana og atvinnulífið í heild að spyrnt verði við skaðlegum vinnubrögðum  ríkisfyrirtækja og stofnana. Á þetta hefur ítrekað verið bent frá haustmánuðum 2008, t.a.m. af Samkeppniseftirlitinu.

Í ljósi sögu af óheppilegum aðgerðum ríkis eða fyrirtækja í ríkiseigu er ekki nema von að mörgum hrjósi hugur við hugmyndum um stofnsetningu eignaumsýslufélags ríkisins sem ætlað er víðtækt hlutverk í íslensku atvinnulífi á komandi árum. Í frumvarpi um eignaumsýslufélagið er því ætlað að veita fjármálafyrirtækjum ráðgjöf, svo og taka yfir kröfur og eignir, endurskipuleggja rekstur og selja.

Fyrirtæki í eigu ríkisins eru nú verulegur hluti íslensks atvinnulífs. Það er því augljóst að opinberir aðilar eða fyrirtæki í ríkiseigu verða að ganga á undan með góðu fordæmi, sé ætlast til að uppbyggilegir viðskiptahætti festi almennilega rætur í íslensku atvinnulífi. Ein leið væri að þau myndu innleiða og tileinka sér Leiðbeiningar um stjórnarhætti opinberra fyrirtækja sem Viðskiptaráð, Samtök atvinnulífsins og Kauphöllin gáfu út á síðasta ári. Önnur væri að lögfesta ramma um úrlausn á skuldavanda fyrirtækja svo tryggt verði að sambærileg mál fái ekki ósambærilega meðferð innan ríkisbankanna. Með þessu væri dregið að einhverju leyti úr skaðlegum áhrifum vinnubragða á samkeppni, sem væri jákvætt fyrir skattborgara og atvinnulífið í heild. Að auki væri gagnsæi aukið til muna og jafnræði frekar tryggt við úrlausn skuldavanda fyrirtækja, sem skiptir sköpum við að draga úr viðhorfum vantrausts.

Til skemmri og lengri tíma er þó ljóst leiðin til endurreisnar verður því torfarnari eftir því sem stærri hluti atvinnulífsins er í opinberri eigu. Því ættu stjórnvöld að leggja áherslu á að sem flest fyrirtæki verði áfram í einkaeiga og að þeim fyrirtækjum sem nú starfa undir hatti hins opinbera verði sem fyrst komið í hendur einkaaðila.

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

Tengt efni

Ávarp Ara Fenger á Viðskiptaþingi

Ari Fenger flutti opnunarávarp á Viðskiptaþingi 2024. Þetta var hans síðasta ...
12. feb 2024

Jafna þarf stöðu innlendra og erlendra fjölmiðla

Skoðun Viðskiptaráðs á stuðningi við einkarekna fjölmiðla (mál nr. 543)
10. jan 2023

Ógnar nýsköpun þjóðaröryggi?

Hagsmunir af því að fæla ekki enn frekar burt erlenda fjárfestingu eru ...
21. nóv 2022