Greiðslutryggingar: Opnað fyrir Ísland

Eitt stærsta greiðslutryggingarfélag heims, Coface, hefur nú staðfest skriflega að fyrirtækið sé tilbúið til að tryggja greiðslur íslenskra fyrirtækja á sama hátt og gildir með fyrirtæki í öðrum löndum. Þetta þýðir að innflytjendur hér á landi mega búast við því að uppbygging trausts í formi reikningsviðskipta á milli landa sé nú lengra á veg komið en áður. Greiðslutrygging getur þá orðið til þess að innflytjendur þurfi ekki að fyrirframgreiða eða staðgreiða pantanir í sama mæli og hefur tíðkast frá síðastliðnu hausti.

Innflytjendur, sem enn búa við ströng fyrirmæli um staðgreiðslur og innborganir pantana, geta því bent erlendum birgjum sínum á að óska eftir greiðslutryggingu vegna reikningsviðskipta við þau hjá Coface. Almennt gildir þá að erlendur aðili þarf að vera í einhverjum tryggingarviðskiptum hjá Coface og sé það svo mun Coface meta hvert íslenskt fyrirtæki fyrir sig á sama hátt og gildir um fyrirtæki frá öðrum löndum. Nánari upplýsingar um þetta geta innflytjendur fengið hjá Creditinfo.
Þessi yfirlýsing frá Coface og vilji til stuðnings íslenskum fyrirtækjum er afrakstur vinnu sem sett var á laggirnar í nóvember 2008, stuttu eftir að erlend greiðslutryggingarfélög lokuðu fyrir tryggingar á íslenskum fyrirtækjum.

Viðskiptaráð og Iðnaðarráðuneytið áttu þá frumkvæði að því að mynda samstarfshóp þeirra aðila sem liðkað gætu fyrir samskiptum við greiðslutryggingarfyrirtæki fyrir hönd íslenskra fyrirtækja. Í þessum hópi hafa starfað, auk Viðskiptaráðs og Iðnaðarráðuneytis, Creditinfo á Íslandi, TM, Sjóvá, Seðlabanki Íslands, Utanríkisráðuneyti, Viðskiptaráðuneyti og fulltrúar allra ríkisbankanna.

Tengt efni

At­vinnu­rekstur er allra hagur

„Það er mikið hagsmunamál fyrir launafólk að til séu þeir sem bæði geta stofnað ...
23. feb 2024

Ný útgáfa um íslenskt efnahagslíf - 4. ársfjórðungur

Viðskiptaráð Íslands hefur birt nýja ársfjórðungslega útgáfu af The Icelandic ...
2. nóv 2023

Óorð í ýmsum stærðum 

„Þegar íslensk stjórnvöld ákveða að innleiða EES-reglugerðir með íþyngjandi ...
4. okt 2023