Atvinnusköpun, á forgangslista stjórnvalda?

Úrskurður umhverfisráðuneytisins á mánudaginn síðasta tók að mati margra steininn úr hvað varðar vinnubrögð stjórnvalda á sviði atvinnusköpunar að undanförnu. Með úrskurðinum setja stjórnvöld framkvæmdir við álver í Helguvík og við uppbyggingu gagnavers í Reykjanesbæ í skaðlega óvissu, sem er því miður í samræmi við önnur vinnubrögð í málefnum erlendrar fjárfestingar og uppbyggingu orkufreks iðnaðar fram til þessa. Auk þess er ljóst að neikvæð afleidd áhrif á hina ýmsu atvinnuvegi og smærri fyrirtæki verða augsýnilega umtalsverð.

Í stað þess að ræða málefnanlega möguleg áhrif úrskurðarins á umrædd fyrirtæki, umsvif í hagkerfinu, atvinnustig og þar með lífskjör hérlendis hafa viðbrögð stjórnvalda við gagnrýninni verið á þá leið að mikilvægt hafi verið að virða lög og stjórnsýsluhætti. Slík markmið eru án efa réttmæt, en þessi viðbrögð skjóta skökku við þar sem sjálfur úrskurðurinn gengur þvert gegn lögum um umhverfismat. Stafar þetta af því að ráðuneytið stóð ekki við lögbundinn tveggja mánaða frest til að úrskurða í málinu. Umboðsmaður Alþingis, sem hefur það hlutverk að gæta þess að stjórnsýslan fari fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti, gerði athugasemdir við sambærileg vinnubrögð af hálfu ráðuneytisins í áliti frá árinu 2002. Í álitinu ítrekaði umboðsmaður að stjórnvöldum bæri að haga meðferð mála þannig að lögbundnir frestir til afgreiðslu væru haldnir.

Auk ólögmætis úrskurðarins og ofangreindra áhrifa hans þá er ósamræmið gagnvart markmiðum stöðugleikasáttmálans augljóst. Í 4. kafla sáttmálans skuldbindur ríkisstjórnin sig beinlínis til að greiða götu ákveðinna framkvæmda, s.s. vegna álvers í Helguvík og kveðst ætla að ryðja úr vegi hindrunum vegna slíkra framkvæmda fyrir 1. nóvember næstkomandi. Sáttmálinn gerir vissulega ekki ráð fyrir að gengið sé gegn lögum og eðlilegri stjórnsýslu í þessum efnum. Sáttmálinn gerir hins vegar ráð fyrir fumlausum vinnubrögðum af hálfu stjórnvalda til uppbyggingar og atvinnusköpunar – sem skort hafa hingað til. Því miður gefur úrskurðinn til kynna að áframhald verði þar á. Viðskiptaráð fordæmir þau forkastanlegu vinnubrögð sem stjórnvöld hafa sýnt í þessu máli.

Úrskurð ráðuneytisins má nálgast hér.
Stöðugleikasáttmálann má nálgast hér.
Lög um mat á umhverfisáhrifum má finna hér.
Álit umboðsmanns Alþingis frá árinu 2002 má nálgast hér

Tengt efni

Réttarbót og staðfesting á túlkun EFTA dómstólsins

Að mati samtakanna er veruleg hætta á því að málsmeðferðartími stjórnvalda ...
31. jan 2021

Ótímabærar launahækkanir

Að ráðast í launahækkanir á tímum þegar fjölmörg fyrirtæki eiga á hættu að fara ...
25. mar 2020

Ferð aðildarfélaga VÍ á Kárahnjúka & Alcoa Fjarðaál

Á vordögum á síðasta ári efndi Verslunarráð til hópferðar austur á firði (flogið ...
20. sep 2005