Athyglisverður fundur um hlutverk lífeyrissjóða í endurreisninni

Ríflega 80 manns sóttu morgunverðarfund Viðskiptaráðs undir yfirskriftinni Hlutverk lífeyrissjóða í endurreisninni á Hilton Reykjavík Nordica núna í morgun. Markmið fundarins var að ræða opinskátt og fordómalaust hugmyndir sem fjöldi aðila hefur lagt fram á undanförnum vikum og mánuðum er varða aðkomu sjóðanna að endurreisnarstarfinu. Framsögumenn voru Benedikt Jóhannesson, ritstjóri Vísbendingar, Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða og Frosti Ólafsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, flutti opnunarávarp. Finnur Oddsson framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs fór með fundarstjórn. Viðskiptaráð þakkar öllum þessum aðilum fyrir þátttöku þeirra á fundinum.

Helstu punktar frá fundinum eru:

  • Fjármálaráðherra fagnaði því að athygli skyldi beint að þessu málefni og sagði mikilvægt að allar hugmyndir væru ræddar. Að hans mati þyrfti að umgangast styrk lífeyrissjóðanna með gát og að ekki mætti hrófla við grunntilgangi þeirra. Þá sagði ráðherra hugmyndir um aðkomu lífeyrissjóðanna að Icesave eiga rétt á sér, enda mætti lækka verulega vaxtauppsöfnun fyrir ríkissjóð og slík fjárfesting gæti verið á álitlegum kjörum fyrir lífeyrissjóðina.
  • Benedikt Jóhannesson fjallaði um kosti og galla skattlagningar iðgjalda, sem hann taldi álitlegan kost til að brúa hallann á tekjuhlið ríkissjóðs án þess að draga úr kaupgetu almennings. Þá lagði Benedikt fram frekari tillögur að því hvernig brúa mætti hallann með sem minnstri röskun fyrir heimili og atvinnulíf.
  • Hrafn Magnússon fagnaði umræðunni og sagði frumskyldu lífeyrissjóðanna, þ.e. að standa vörð um hag sjóðsfélaga sinna, alls ekki útiloka hlutverk sjóðanna í endurreisn atvinnulífsins. Í þeim efnum væru sjóðirnir einkum að horfa á atvinnuskapandi og helst sjálfbær verkefni á vegum hins opinbera. Hafa þyrfti hins vegar í huga að uppspretta fjármagns sjóðanna væri takmörkum háð.
  • Frosti Ólafsson sagði fulla þörf á opinni og málefnanlegri umræðu um þátttöku lífeyrissjóða í endurreisninni sem hann taldi geta verið umfangsmeiri en rætt hefur verið. Nefndi Frosti þar m.a. aðkomu sjóðanna að Icesave málinu t.a.m. með láni til ríkisins. Slík aðgerð myndi fela í sér mikinn ímyndarlegan ávinning, eyða óvissu og svo gæti hún reynst arðbær fjárfesting fyrir sjóðina. Þá sagði Frosti að lífeyrissjóðakerfið væri ekki afmarkaður þátttakandi í hagkerfinu, heldur réðist styrkur þess af undirliggjandi hagrænum þáttum. Hagsmunir þess, hins opinbera, atvinnulífs og einstaklinga væru þannig samofnir og því væri þörf á umræðu sem þessari, þar sem hagsmunir heildarinnar yrðu hafðir að leiðarljósi.

LífeyrissjóðirráðherraFjármálaráðherra kom víða við í opnunarávarpi sínu og fagnaði því m.a. að athygli skyldi beint að þessu málefni og mikilvægi þess að ýmsum hugmyndum sé velt upp og þær ræddar. Þá kom fram í ávarpi ráðherra að lífeyrissjóðirnir væru sterkt afl í íslensku samfélagi sem þyrfi að umgangast með gát. Í allri umræðu um mögulega aðkomu sjóðanna að endurreisninni þyrfti að huga að mörgu og skoða þyrfti hvernig best væri hægt að nýta styrk þeirra, án þess að hróflað yrði við grunntilgangi þeirra sem sjóðsmyndandi samtryggingarkerfi sem deilir kjörum með ríkissjóði og skattgreiðendum – lífeyrissjóðina þyrfti þannig að taka með inn í framtíðina. Að auki sagði ráðherra hugmyndir um aðkomu sjóðanna að Icesave alveg eiga rétt á sér, enda mætti lækka vaxtauppsöfnun fyrir ríkissjóð verulega og slík fjárfesting gæti verið á álitlegum kjörum fyrir sjóðina.

lífeyrissjóðirBenediktBenedikt Jóhanneson fjallaði m.a. skattlagningu iðgjalda, sem hann sagði alls ekki gallalausa leið. Helstu kostir hennar væru að um væri að ræða stóran skattstofn sem gæti minnkað fjárlagahallan stórlega án þess að draga úr kaupgetu almennings. Stærstu gallarnir væru að peningar eru færðir milli kynslóða og fjármagn lífeyrissjóða er minnkað. Þá fjallaði Benedikt jafnframt um hvernig mætti brúa hallan á tekjuhlið ríkissjóðs þannig að sem minnstri röskun er valdið fyrir heimili og atvinnulíf. Nefndi hann þar skattlagningu iðgjalda í samfloti með hækkun tekjuskattsprósentu og virðisaukaskatts. Að lokum fjallaði Benedikt um endurreisn íslensks atvinnulífs þar sem hann taldi lífeyrissjóðina, ásamt bönkunum, erlendum fjárfestingum og almenningi, geta spilað stórt hlutverk.

lífeyrissjóðirHrafnHrafn Magnússon ræddi um stöðu lífeyrissjóðanna og hlutverk þeirra á komandi misserum. Hrafn þakkaði fyrir að hugmyndir um hugsanlega aðkomu sjóðanna væru ræddar. Í máli Hrafns kom fram að lífeyrissjóðirnir væru einkum að horfa á atvinnuskapandi og helst sjálfbær verkefni á vegum hins opinbera og vísaði þar til stöðugleikasáttmálans. Að auki væru sjóðirnir að horfa á fjárfestingar í atvinnulífinu. Þá nefndi Hrafn að uppspretta fjármagns sjóðanna væri takmörkum háð og því af og frá að þeir gætu komið að mörgum fjárfrekum verkefnum. Ráðstöfunarfé sjóðanna hefur snarminnkað og mun minnkað hraðar ef t.d. eigi að skattleggja iðgjöld, sem Hrafn taldi afar óákjósanlegan kost af mörgum ástæðum. Að áliti Hrafns væri aðkoma sjóðanna að Icesave málinu jafnframt varhugaverð enda væru þær erlendu eignir sjóðanna, sem kæmu þar til kastana, þeim afar mikilvæg uppspretta ávöxtunar. Þá sagði Hrafn að mikilvægt væri að standa vörð um núverandi sjóðsmyndunarkerfi sem kæmi sér til góðs við núverandi aðstæður og að frumskylda sjóðanna væri að hugsa um sjóðsfélaga sína.

LífeyrissjóðirFrostiÍ erindi sínu fjallaði Frosti Ólafsson um hugmyndir Viðskiptaráðs sem ráðið lagði fram í nýlegri skoðun um efnið. Þá sagði Frosti lífeyrissjóðakerfi sterkt og það veita mikilvæga viðspyrnu við núverandi efnahagsaðstæður. Hins vegar væri kerfið ekki afmarkaður þátttakandi í hagkerfinu, heldur réðist styrkur þess af undirliggjandi hagrænum þáttum. Vegna þess mætti segja að meðal hlutverka kerfisins væri að stuðla að samkeppnishæfni hagkerfisins í heild. Hagsmunir þess, hins opinbera, atvinnulífs og einstaklinga væru samofnir og því væri þörf á opinni og málefnanlegri umræðu um þátttöku þeirra í endurreisninni, þar sem hagsmunir heildarinnar yrðu hafðir að leiðarljósi. Slík þátttaka gæti falið í sér aðgerðir til að mýkja högg á tekjuhlið ríkissjóðs, t.a.m. með skattlagningu inngreiðslna. Þá gætu lífeyrissjóðir haldið uppi framkvæmdarstigi til að vega upp á móti samdrætti í ríkisframkvæmdum. Lífeyrissjóðir gætu komið að eignaskiptasamningum til að losa óþolinmótt fjármagn úr kerfinu og létt þannig á gengi krónunnar og auðveldað vaxtalækkun. Að auki væri full ástæða til að skoða mögulega aðkomu sjóðanna að Icesave, t.a.m. með láni til ríkissjóðs.

Í kjölfar framsöguerinda spunnust umræður um hlutverk lífeyrissjóðanna og var því m.a. velt upp hvort sjóðirnir gætu komið að eignarhaldi á Landsvirkjun í stað ríkisins. Framsögumenn tóku vel í þá hugmynd og töldu hana skoðunarverða.

Glærur Benedikts má nálgast hér.
Glærur Hrafns má nálgast hér.
Glærur Frosta má nálgast hér.
Skoðun Viðskiptaráðs má nálgast hér.

Tengt efni

Árangurslitlar aðgerðir á húsnæðismarkaði

„Stuðningsúrræði stjórnvalda hafa verið of almenn í gegnum tíðina og kostað háar ...
4. des 2023

Lífstílsverðbólga stjórnvalda

Lækning lífstílsvanda stjórnvalda er tiltekt og forgangsröðun í útgjöldum ...
23. okt 2023