Fjárhagslegt tjón takmarkana er á við heila loðnuvertíð

Sætanýting flugfélaga sem fljúga til Íslands er um 20% minni en til annarra sambærilegra áfangastaða. Leiða má líkur að því að harðari takmarkanir á landamærum Íslands en annars staðar á EES-svæðinu sér orsök þess.

Þetta er meðal þess sem fram kom í máli Orra Haukssonar, forstjóra Símans og stjórnarformanns Isavia, í Föstudagskaffi Viðskiptaráðs nú í morgun. Þar var Orri gestur Svanhildar Hólm, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, og ræddu þau meðal annars um söluna á Mílu, góða rekstrarafkomu Símans og áhrif landamæratakmarkana á rekstur Isavia.

„Mjög mörg flugfélög eru að taka ákvarðanir kannski ár fram í tímann. Flugfélag sem er að ákveða að koma ekki í nóvember, það er eiginlega búið að taka út næsta sumar. Þetta eru langir ferlar sem við verðum allavega að bera virðingu fyrir og skilja hvað við erum að gera nákvæmlega.“

Orri sagði meðal annars að flugfélög sæju um 20% minni sætanýtingu í ferðum hingað til lands samanborið við aðra sambærilega áfangastaði. Þetta mætti líklega rekja til þess að takmarkanir á landamærum hér væru meiri en víðast hvar annars staðar. Það valdi því að ferðafólk velji frekar aðra áfangastaði sem aftur leiði til þess að flugfélög kjósi að draga úr – eða jafnvel falla alveg frá – flugferðum hingað til lands.

„Þetta safnast saman, þetta eru alvöru tölur. Þetta slagar upp í heila loðnuvertíð í útflutningsverðmætum yfir veturinn sem við erum að verða af,“ segir Orri og bendir á að ef halda eigi áfram á sömu braut þá verði að vera ansi góðar ástæður fyrir því. Þá staðfesti Orri að með heilli loðnuvertíð sé hann að tala um hátt í 50 milljarða.

Þá spurði Svanhildur einnig út í þær áherslur sem Orri vildi sjá hjá nýrri ríkisstjórn. „Ég auðvitað vona, af því maður er eitthvað svona í kringum þessa innviði, að það verði fókus á þá og á fyrirkomulag í kringum innviði,“ sagði Orri.  Benti Orri á að einkaaðilar hafi komið að mikilvægri innviðauppbyggingu í gegnum árin, bæði hér heima og erlendis. Því til stuðnings nefndi hann bæði Hvalfjarðargöng og Kaupmannahafnarflugvöll sem verið hefur í einkaeigu lengi. „Þú ert með þessa risavöxnu lífeyrissjóði okkar sem vilja komst í langtímaverkefni og eru með langtímaskuldbindingar, ég held það sé hægt að koma þeim í vinnu í svona verkefnum,“ útskýrði Orri og bætti við að í bland væri svo gott að fá erlenda fjárfestingu.

Föstudagskaffi Viðskiptaráðs er ný röð morgunfunda sem sendir eru út annan hvern föstudag og var fundurinn í morgun sá fyrsti í röðinni. Föstudagskaffið er opið aðildarfélögum Viðskiptaráðs en þangað munu koma fjölbreyttir gestir, héðan og þaðan úr viðskiptalífinu, til að ræða málefni líðandi stundar.

Tengt efni

Um annarra manna fé

Fyrir hverja krónu sem heimili og fyrirtæki verja samanlagt, eyðir hið opinbera ...
14. apr 2024

Frumvarp til breytingar á raforkulögum þarfnast talsverðar endurskoðunar

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum nr. ...
15. mar 2023

Bæta þarf úr annmörkum og leggja mat á áhrif

Umsögn Viðskiptaráðs, SA og SI um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum ...
24. mar 2022