Nýsköpunarheit afhent ráðherra

Katrín Olga Jóhannesdóttir, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Sigríður Margrét Oddsdóttir, og Ísak Einar Rúnarsson, sérfræðingur á hagfræðisviði Viðskiptaráðs og starfsmaður nýsköpunarhópsins.

Sigríður Margrét Oddsdóttir, formaður nýsköpunarhóps Viðskiptaráðs, afhenti í gær Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra nýtt rit Viðskiptaráðs Nýsköpunarheit. Á fundinum kynnti Sigríður Margrét jafnframt helstu efnisatriði skýrslunnar fyrir ráðherra.

Nýsköpunarheit voru unnin á vettvangi nýsköpunarhópsins en þau innihalda 10 aðgerðartillögur um það hvernig megi efla umhverfi nýsköpunar í íslensku samfélagi. Fimm tillaganna eru áskoranir til ríkisins en fimm þeirra snúa að viðskiptalífinu.

„Við erum virkilega stolt af þessari vinnu okkar. Það er ánægjulegt að heyra að ráðherra tekur vel í framtakið og tillögurnar sem koma fram í Nýsköpunarheitum. Fyrir hönd hópsins vil ég þakka ráðherra kærlega fyrir. Það er okkar von að þær nýtist í vinnu við mótun nýsköpunarstefnu til ársins 2030. Okkar verkefni verður nú að halda áfram að fylgja tillögunum eftir,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, formaður nýsköpunarhóps Viðskiptaráðs, um fundinn.

„Til að nýsköpun geti orðið nauðsynlegur máttarstólpi samfélagsins er áhugi og hugmyndir atvinnulífsins lykilatriði. Ég fagna mjög þessu flotta frumkvæði Viðskiptaráðs og þess öfluga hóps sem vann þetta verkefni. Tillögurnar eru metnaðarfullar og verða nú til skoðunar í ráðuneyti mínu og hafðar til hliðsjónar í vinnu við að móta stefnu nýsköpunar fyrir Ísland,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra.

Hér má sjá Nýsköpunarheit í heild sinni.

Tengt efni

Vel heppnað Viðskiptaþing

Viðskiptaþing fór fram fimmtudaginn 8. febrúar síðastliðinn. Yfirskrift þingsins ...
14. feb 2024

Vel sóttur Peningamálafundur Viðskiptaráðs

Peningamálafundur Viðskiptaráðs fór fram í morgun, 23. nóvember. Yfirskrift ...
23. nóv 2023