Vilt þú efla samkeppnishæfni Íslands?

Nú er opið fyrir umsóknir um styrki úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands. Umsóknarfrestur er til og með 14. janúar 2024.

Framtíðarsjóður Viðskiptaráðs Íslands hefur opnað fyrir styrkumsóknir.  Meginhlutverk Framtíðarsjóðs er að veita styrki til einstaklinga vegna rannsókna og annarrar vinnu tengdum framþróun menntunar og eflingu íslensks atvinnulífs. Styrkjunum er ætlað að mæta útgjöldum sem tengjast rannsóknastarfsemi, t.a.m. vegna heimildaöflunar, greiningarvinnu, útgáfu og tækniþróun þar sem það á við. 

Styrkirnir eru bundnir við verkefni sem styðja við annað af eftirfarandi markmiðum:  

 1. Aukna skilvirkni og gæði íslensks menntakerfis  
 2. Eflingu þekkingar á forsendum til aukinnar verðmætasköpunar íslensks atvinnulífs  

Rétt er að vekja athygli á því að þáttur í því að auka verðmætasköpun atvinnulífs getur verið að létta á og bæta skilvirkni í starfsemi og þjónustu hins opinbera, til gagns fyrir fólk og fyrirtæki. 

Veittir verða styrkir að lágmarki 1 m.kr. og að hámarki 3 m.kr. en styrkþegarnir verða kynntir á Viðskiptaþingi 8. febrúar 2024. 

Senda skal umsókn um styrk í gegnum netfangið styrkir@vi.is og er umsóknarfrestur til 14. janúar 2024. 

 Óskað er eftir að í umsókn komi eftirfarandi fram: 

 1. Almennar upplýsingar um umsækjanda og samstarfsaðila, ef einhverjir eru. 
 2. Upplýsingar um menntun og fræðilegan bakgrunn umsækjanda og upplýsingar um fyrri verk ef við á. 
 3. Lýsing á verkefninu, markmiðum þess og þýðingu, ásamt tíma- og kostnaðaráætlun. 
 4. Upplýsingar um hvort sótt hafi verið um aðra styrki vegna verkefnisins.  

 Fyrirspurnum varðandi Framtíðarsjóð VÍ er svarað í gegnum netfangið styrkir@vi.is

Algengar spurningar 

Hverjir geta sótt um? 
Allir sem stunda eða áforma að stunda rannsóknir eða nýsköpun sem styðja við markmið sjóðsins geta sótt um styrk. 

Hvaða verkefni eru styrkhæf? 
Styrkjunum er ætlað að auka samkeppnishæfni Íslands með því að efla rannsóknir og nýsköpun sem nýtast íslensku menntakerfi eða atvinnulífi. Styrkirnir eru bundnir við verkefni sem styðja við eftirfarandi markmið: 

 • Auka skilvirkni og gæði íslensks menntakerfis 
 • Eflingu þekkingar á forsendum aukinnar verðmætasköpunar íslensks atvinnulífs 

Til hvers eru styrkirnir ætlaðir? 
Styrkjunum er ætlað að mæta útgjöldum sem tengjast rannsóknastarfsemi, t.a.m. vegna heimildaöflunar, greiningarvinnu, útgáfu og tækniþróunar þar sem það á við. Styrkina má bæði nota til að mæta launakostnaði og útgjöldum. 

Hver er fjöldi og upphæð styrkja? 
Valnefnd tekur ákvörðun um fjölda og upphæð styrkja. Í ár miðar nefndin við að lágmarksupphæð styrkja sé 1.000.000 kr. og hámarksupphæð 3.000.000 kr. Ákvörðun um fjölda styrkja er tekin með hliðsjón af þeim umsóknum sem berast.  

Hvað þarf að fylla út? 

 • Óskað er eftir að umsækjandi skili inn upplýsingum um verkefnið 
 • Skila má inn glærukynningu um verkefnið (ca. 10 glærur) 
 • Skila má inn myndbandi með hlekk t.d. á Youtube eða Vimeo 

Hvernig fer ákvörðun fram? 
Eftir að umsóknarfrestur rennur út fer valnefnd sjóðsins yfir allar umsóknir. Þeim umsækjendum sem koma til greina er boðið að mæta á fund nefndarinnar og kynna verkefnið stuttlega áður en lokaákvörðun er tekin. 

Hverjir skipa valnefnd sjóðsins? 
Valnefnd Framtíðarsjóðs skipa Andri Heiðar Kristinsson, Kolbrún Hrafnkelsdóttir og Þór Sigfússon. 

Fylgja einhverjar skyldur styrkjunum? 
Við óskum eftir því að styrkþegar kynni niðurstöður verkefnisins, eða þann hluta þeirra sem liggur fyrir, ári eftir að styrkveiting á sér stað. 

Hvað tekur ferlið langan tíma? 
Umsóknarfrestur rennur út þann 14. janúar 2024. Tilkynning um styrkþega fer fram eigi síðar en 8. febrúar 2024. 

Hvar fæ ég nánari upplýsingar? 
Allar nánari upplýsingar um Framtíðarsjóð VÍ og styrkveitingar eru veittar á netfanginu styrkir@vi.is 

 

Tengt efni

Úthlutað úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs 

Sex verkefni fengu styrk úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands
23. feb 2024

Eignarhald íslenska ríkisins á skjön við önnur vestræn ríki 

„Að mati Viðskiptaráðs á hið opinbera ekki að stunda atvinnurekstur sem aðrir ...
12. mar 2024

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til ...