Viðskiptaþing 2016 verður haldið fimmtudaginn 11. febrúar næstkomandi frá kl. 13 til 17. Yfirskrift þingsins er „Héraðsmót eða heimsleikar? Innlendur rekstur í alþjóðlegu samhengi.“
Tækniframfarir og ný þekking eru helstu drifkraftar aukinnar framleiðni. Í þeim felast bæði tækifæri og ógnanir fyrir þau fyrirtæki sem þegar starfa í dag. Upplýsingatækni, ný viðskiptalíkön, sjálfvirkni og breytt neytendahegðum eru allt viðfangsefni sem hafa áhrif bæði á frumkvöðla og fyrirtækjastjórnendur. Þessar breytingar verða í forgrunni hjá aðalræðumönnum Viðskiptaþings í ár.
Ajay Royan, framkvæmdastjóri nýsköpunarsjóðsins Mithril Capital Management, fjallar um áhrif tæknibreytinga og breyttra viðskiptahátta á rekstrarumhverfi fyrirtækja. Ajay Royan hefur starfað og fjárfest með frumkvöðlinum Peter Thiel frá árinu 2003 og þeir stofnuðu Mithril saman árið 2012. Mithril er meðal áhrifameiri nýsköpunarsjóða vestanhafs og fjárfestir einkum í atvinnugreinum sem standa frammi fyrir miklum breytingum. Ajay er menntaður frá Yale University og heldur reglulega erindi á fjárfesta- og tækniráðstefnum.
Amy Cosper, ritstjóri Entrepreneur Magazine, fjallar um þær hugarfarsbreytingar sem stjórnendur þurfa að tileinka sér til að mæta breyttum viðskiptaháttum. Entrepreneur Magazine er stærsta tímarit sinnar tegundar í heiminum og hefur verið gefið út í um 40 ár. Í gegnum störf sín hefur Amy kynnst miklum fjölda fyrirtækjastjórnenda og frumkvöðla og hefur því einstaka sýn á viðfangsefnið. Amy sótti menntun sína til University of Colorado og hefur miðlað þekkingu sinni í riti og ræðu víða um heim.
Viðskiptaþing er opið öllum og opnað hefur verið fyrir skráningar.
Nánari upplýsingar og skráningu má nálgast á eftirfarandi slóð.