Skattadagurinn: fjölbreytt erindi

Árlegur Skattadagur Deloitte, Viðskiptaráðs Íslands og Samtaka atvinnulífsins fór fram fyrir fullu húsi á Grand Hóteli Reykjavík í dag.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fór í opnunarerindi sínu yfir þær breytingar sem hafa orðið í tíð núverandi ríkisstjórnar. Hann benti á að lækkun tekjuskatts og tryggingagjalds hafi átt sér stað í upphafi kjörtímabils. Þá sagði Bjarni að til viðbótar við þær aðgerðir sem nú þegar hefur verið gripið til og áætlaðar séu í nánustu framtíð þá þurfi að fara yfir tollakerfið enda líði íslensk verslun fyrir núverandi fyrirkomulag.

Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, ræddi um skattstofna sveitarfélaga og sagði hlutdeild og umfang sveitastjórnarstigsins í skattheimtu hafa aukist á undanförnum árum. Hækkun útsvars, fasteignagjalda og framlags til jöfnunarsjóðs sagði hann skýra stærstan hluta þessarar aukningar. Vaxandi skattheimtu sveitarfélaga mætti rekja til skorts á gagnsæi, aðhaldi og ábyrgð. Leiðir til umbóta fælust í auknu gagnsæi, eflingu sveitarfélaga og sveigjanlegri skattstefnu. Kynningu Frosta má nálgast hér.

Vala Valtýsdóttir, sviðsstjóri skatta- og lögfræðisviðs Deloitte, fjallaði í erindi sínu um skattabreytingar á árinu 2014 og nefndi sérstaklega breytingar á virðisaukaskatti, tekjuskatti, tryggingagjaldi og framlengingu laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Vala greindi frá málum sem ekki tókst að ljúka og lagði áherslu á að afgreiða þyrfti þingmál um ívilnanir vegna nýfjárfestinga.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, fjallaði í erindi sínu um skatta út frá sjónarhóli atvinnulífsins. Þorsteinn sagði tryggingagjaldið skila ríkissjóði 30 milljörðum meira en það ætti að gera. Það hafi verið 5,2% af VLF árið 2008 og væri í dag 7,4% af VLF. Þorsteinn talaði einnig um að tekjuþak fæðingarorlofs hafi lækkað of mikið og að fæðingarorlofskerfið hafi þannig verið eyðilagt.

Haraldur Ingi Birgisson, lögfræðingur á skatta- og lögfræðisviði Deloitte, fjallaði um nýjar reglur um milliverðlagningu og reglubyrði tengda henni. Haraldur talaði um mikilvægi þess að bæta ferli við lagasetningu og upptöku reglna sem væru jafn viðamiklar og þessar. Hann hvatti fyrirtæki einnig til að byrja að skoða nýjar milliverðlagsreglur sem fyrst en skv. alþjóðlegri könnun Deloitte telji 46% stjórnenda rekstraráhættu tengda milliverðlagningu vera miðlungs eða mikla.

Glærukynningar allra ræðumanna má nálgast á vefsíðu Deloitte.

Tengt efni

Samkeppnishæfni Íslands 2024

Morgunfundur um niðurstöður nýrrar úttektar IMD á samkeppnishæfni Íslands í ...
20. jún 2024

Samkeppnishæfni Íslands 2024

Morgunfundur um niðurstöður nýrrar úttektar IMD á samkeppnishæfni Íslands í ...
14. jún 2024

Færri ríkisstofnanir - stærri og betri

Leiðarljósið við mótun stofnanaumgjarðar hins opinbera á að vera aukin gæði og ...
10. mar 2021