Tímabærar breytingar á neyslusköttum

Viðskiptaráð fagnar áformum um endurskoðun neysluskatta í nýjum fjárlögum. Endurskoðun neysluskatta er löngu tímabær. Tollar og vörugjöld eru margfalt hærri hérlendis en í nágrannalöndunum og almennt þrep virðisaukaskatts er það næsthæsta í heimi. Á sama tíma eru umfangsmiklir hlutar einkaneyslu á Íslandi annað hvort í lægra þrepi virðisaukaskatts eða undanþegnir honum. Slíkt fyrirkomulag er óhagkvæmt og felur í sér neyslustýringu sem leiðir til lakari lífskjara. Hinar nýju tillögur um afnám almennra vörugjalda, breikkun skattstofns virðisaukaskatts og minna bil á milli þrepa hans eru því fagnaðarefni.

Í aðdraganda fjárlaganna hefur því verið haldið fram að hærri matarskattur komi sér illa fyrir þá tekjulægri og að tilteknar vörur og þjónusta ættu að vera undanþegnar virðisaukaskatti í stað þess að færast nær almenna þrepinu. Þessar fullyrðingar eru á misskilningi byggðar. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands eyða heimili á Íslandi hlutfallslega jafnmiklu í mat, óháð því hve miklar tekjurnar eru. Það þýðir að tekjuhærri einstaklingar eyða meiru í matvæli en aðrir og njóta þannig frekar ávinnings af lægri matarskatti, en ekki hinir tekjulægri.

Þá hafa kröfur um frekari undanþágur ákveðinna tegunda vara og þjónustu holan hljóm. Fjórðungur einkaneyslu er nú þegar með öllu undanþeginn virðisaukaskatti og veigamiklir vöru- og þjónustuflokkar falla auk þess undir lægra 7% skattþrepið. Þetta veldur því að skilvirkni VSK-kerfisins er 15% undir meðaltali OECD. Auknar undanþágur væru til þess fallnar að draga enn frekar úr skilvirkni kerfisins og auka þrýsting á hækkun almenna þrepsins, sem er nú þegar það næsthæsta í heimi. Slíkar kröfur eru því ekki gerðar með heildarhagsmuni að leiðarljósi.

Brýnt er að endurskoða fyrirkomulag neysluskatta á Íslandi. Það er fagnaðarefni að núverandi stjórnvöld hafi tekið þýðingarmikið skref í rétta átt.

Nánari umfjöllun um núverandi fyrirkomulag neysluskatta má finna í skoðun Viðskiptaráðs frá árinu 2012: „Neysluskattar komnir á síðasta söludag.“

Tengt efni

Öfugmælavísur gærdagsins

Leiguverð á Íslandi hefur hækkað hlutfallslega minna en húsnæðisverð samanborið ...
10. jún 2022

Skattadagurinn 2022: Ávarp fjármála- og efnahagsráðherra

Ávarp Bjarna Benediktssonar á Skattadegi Viðskiptaráðs, Deloitte og SA, 13. ...
13. jan 2022

Þetta er ekki búið fyrr en það er búið

Svanhildur Hólm gerir upp árið 2021 - sýninguna sem ekki hefði verið selt inn á.
29. des 2021