Veikindi tvöfalt algengari hjá hinu opinbera

Áætluð fjarvera starfsfólks vegna veikinda er tvöfalt meiri á opinberum vinnustöðum en á almennum vinnustöðum. Þetta er ein af niðurstöðum þróunarverkefnisins Virkur vinnustaður sem kynntar voru í síðasta mánuði.1 Niðurstöðurnar byggja á skráningu veikindadaga yfir þriggja ára tímabil á 25 vinnustöðum með um 1.400 starfsmenn. Mismunur af þessari stærðargráðu veldur um 11 ma. kr. árlegum kostnaðarauka fyrir hið opinbera og því er brýnt að kanna nánar ástæður hans. 

Mánuður á ári í veikindafjarveru

Fjöldi fjarverudaga á hvern starfsmann í úrtakinu var að meðaltali 20 dagar hjá hinu opinbera samanborið við 10 daga í einkageiranum árið 2014. Starfsmenn hins opinbera eru samkvæmt þessu frá vinnu í um einn mánuð á ári. Þá voru starfsmenn á opinberum vinnustöðum veikir rúmlega 5 sinnum yfir árið samanborið við rúmlega 3 sinnum á einkareknu vinnustöðunum og langtímafjarvera ríflega þrefalt algengari hjá hinu opinbera.

Þessi mismunur í fjarvistum vegna veikinda veldur umtalsverðum kostnaðarauka fyrir hið opinbera. Heildarlaunaútgjöld ríkis og sveitarfélaga námu 276 ma. kr. árið 2014. 2 Út frá því má áætla að kostnaður vegna umframveikinda opinberra starfsmanna nemi um 11 ma. kr. á ári.3 Þessi kostnaður veldur hærri sköttum eða minni gæðum opinberrar þjónustu en ella.

Ástæða til að samræma veikindarétt

Viðskiptaráð birti í síðustu viku skoðun sem fjallar um réttindi opinberra starfsmanna. 4 Þar kemur meðal annars fram að veikindaréttur er mun ríflegri hjá hinu opinbera en á almennum vinnumarkaði (mynd 1). Munurinn er allt að tífaldur í þeim tilfellum sem starfsmaður hefur verið í sex mánuði í starfi.

Ætla má að þetta mikla svigrúm sé veigamikill áhrifaþáttur þegar horft er til fjarveru opinberra starfsmanna vegna veikinda. Það undirstrikar jafnframt mikilvægi þess að meta einnig starfsréttindi – líkt og veikindarétt – þegar launakjör á opinberum og almennum vinnumarkaði eru borin saman.

Yfirstandandi kjaraviðræður við Bandalag háskólamanna (BHM) skapa tækifæri til að samræma starfsréttindi á almennum og opinberum vinnumarkaði. Með afnámi umframréttinda opinberra starfsmanna væri unnt auka svigrúm til hækkunar grunnlauna opinberra starfsmann líkt og forsvarsmenn bandalagsins hafa barist fyrir.

Fyrirvari
Þar sem fjöldi vinnustaða í þróunarverkefninu var takmarkaður gefur þróunarverkefnið ekki endanlega niðurstöðu um tíðni veikinda á opinberum og almennum vinnumörkuðum. Þá þarf að athuga að í upphafi verkefnisins, árið 2011, fóru þeir vinnustaðir sem tóku þátt í greiningu á fjarveru og útbjuggu fjarverustefnu með þátttöku starfsmanna sem samþykkt var af stjórnendum og innleidd í kjölfarið. Það gefur vísbendingu um að veikindafjarvera gæti verið meiri á opinberum og almennum vinnumarkaði í heild.

Heimildir
1 Jónína Waagfjörð (2015), „Virkur vinnustaður: þróunarverkefni VIRK“, Ársrit um starfsendurhæfingu (bls. 38-44), VIRK.
2 Fjármála- og efnahagsráðuneytið og Samband Íslenskra sveitarfélaga
3 Tíu veikindadagar eru 3,85% af 260 virkum vinnudögum á ári. 3,85% af 276 ma. kr. launaútgjöldum á ári eru 11 ma. kr.
4 Viðskiptaráð Íslands (júní 2015), „Að eiga kökuna og borða hana: kröfur og réttindi opinberra starfsmanna.“ Slóð: http://vi.is/malefnastarf/utgafa/skodanir/ad-eiga-kokuna-og-borda-hana/

Tengt efni

Gullhúðun og refsigleði í nýjum markaðssetningarlögum

Þingið hefur til umfjöllunar frumvarp til nýrra markaðssetningarlaga sem er ...
5. jún 2024

Umsögn breytingar á lögum um endurskoðun og ársreikninga

Umsögn Viðskiptaráðs, SA og SFF um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ...

Viðskiptaráð leitar að lögfræðingi

Starf lögfræðings Viðskiptaráðs er laust til umsóknar
4. mar 2023