Villur hjá verðlagseftirliti ASÍ

Verðlagseftirlit ASÍ hefur birt úttekt um að verðlækkanir vegna afnáms vörugjalda og lækkun virðisaukaskatts hafi ekki verið í samræmi við væntingar. Nefnir eftirlitið sem dæmi að sjónvörp, útvörp og myndspilarar, sem áður báru 25% vörugjald, ættu að lækka í verði um 22,2%. Hins vegar er fullyrt að slík verðlækkun hafi ekki átt sér stað. Viðskiptaráð gerir athugasemdir við bæði aðferðafræði og niðurstöður verðlagseftirlitsins.

Í fyrsta lagi er notast við viðmiðunarverð frá því í október 2014 til að meta þá lækkun sem hefur átt sér stað. Í september 2014, mánuði áður en könnunin var gerð, höfðu margir söluaðilar hins vegar þegar lækkað verð sem nam afnámi vörugjalda. Þau fyrirtæki sem lækkuðu verð fyrst allra koma því verst út í niðurstöðum verðlagseftirlitsins.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir að engir aðrir þættir en álagning verslana hafi ráðið breytingum á vöruverði frá hausti 2014 fram í apríl 2015. Því fer hins vegar fjarri. Annars vegar styrktist bandaríkjadalur gagnvart krónu um 13% frá september 2014 til apríl 2015, sem gerir mörg raf- og heimilistæki kostnaðarsamari í innkaupum. Hins vegar hefur almenn verðlagshækkun á sama tímabili numið 1,0%, svo að óbreyttu hefði verð á vörum sem báru vörugjöld átt að hækka um 1% af þeim sökum.

Á meðfylgjandi mynd má sjá áætlun Viðskiptaráðs á breyttri álagningu verslana. Þar er leiðrétt fyrir þessum tveimur ágöllum í aðferðafræði verðlagseftirlits ASÍ; annars vegar með því að notast við upphaflegt verð í september 2014 og hins vegar með því að taka gengis- og verðlagsbreytingar með í reikninginn. Niðurstaðan er að álagning verslana hefur lækkað um 24% á tímabilinu, sem er umfram væntingar verðlagseftirlits ASÍ.

Viðskiptaráð vonast til þess að verðlagseftirlit ASÍ bregðist við þessum athugasemdum með efnislegum hætti. Það er jafnframt von ráðsins að eftirlitið taki aðferðafræði sína til endurskoðunar til að Alþýðusambandið sé betur til þess fallið að upplýsa neytendur um breytingar sem eiga sér stað þegar kemur að álagningu neysluvara.

Tengt efni

Ávarp Ara Fenger á Viðskiptaþingi

Ari Fenger flutti opnunarávarp á Viðskiptaþingi 2024. Þetta var hans síðasta ...
12. feb 2024

Eigum við að drepa fuglana?

Þegar við grípum inn í flókin kerfi getur það haft ófyrirséðar afleiðingar, ...
31. ágú 2022