Að kippa vísitölu úr (húsnæðis)lið

Þegar allt kemur til alls er varhugavert að breyta undirliggjandi þáttum vísitölu neysluverðs eftir hentisemi.

Að undanförnu hefur skapast talsverð umræða meðal stjórnmálamanna um að undanskilja húsnæðisliðinn frá þeirri vísitölu sem lögð er til grundvallar verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Röksemdir þeirra sem tala fyrir slíkri aðgerð eru margvíslegar en fyrst og fremst hafa stjórnmálamenn haft orð á því að fjarlægja ætti húsnæðisliðinn til að halda verðhækkunum í skefjum. Slík rök eru tæplega haldbær en hér virðast stjórnmálamenn misskilja orsök og afleiðingar verðbólgu. Það eru nefnilega verðhækkanir á markaði sem valda verðbólgu, en ekki öfugt. Með sömu rökum mætti segja að óveðrið að undanförnu sé tilkomið vegna mælinga Veðurstofunnar á vindhviðum, því jú mælingin ein og sér eykur rokið.

Þá hefur því verið haldið fram að húsnæðisliðurinn verði til þess að ýkja sveiflur í verðbólgunni og því sé ráð að undanskilja liðinn úr vísitölunni. Sú staðhæfing stenst ekki skoðun, en í sögulegu samhengi hefur vísitala neysluverðs án húsnæðisliðarins sveiflast talsvert meira en vísitalan með húsnæðisliðnum. Húsnæðisliðurinn hefur þannig dregið úr sveiflum en líkt og Ólafur Hjálmarsson, hagstofustjóri, benti réttilega á, þá hefur lækkun á gengi krónunnar og hærra vöruverð leitt til lægra húsnæðisverðs. Þrátt fyrir framangreindar staðreyndir hefur umtal um ýktar verðbólgusveiflur sökum húsnæðisliðarins vaxið ásmegin samhliða aukinni verðbólgu síðustu misseri. Af þeim sökum hafa verið uppi raddir um að undanskilja liðinn tímabundið frá vísitölunni á meðan núverandi ástand varir.

Þær hugmyndir kunna að hljóma ákjósanlegar þar sem verðbólga með húsnæðisliðnum mælist nú tveimur prósentustigum hærri en vísitalan án hans. Við nánari athugun er slíkt þó einkar óheppilegt fyrir framkvæmd peningastefnunnar en samkvæmt Seðlabankanum tekur það um 12-18 mánuði fyrir stýrivaxtabreytingar að hafa áhrif. Því er ljóst að svara þyrfti við hvað væri átt með tímabundnum aðgerðum. Ef ætlunin væri einungis að mæta skammvinnu verðbólguskoti er óvíst hvort áhrif peningastefnunnar næðu fram að ganga innan þess tímaramma sem slíkri aðgerð væri settur.

Vert er að nefna að umræðan í tengslum við verðtryggð lán er skiljanleg, enda horfir fólk á höfuðstól verðtryggðra lána vaxa í verðbólgu. Í þessu samhengi er þó rétt að taka fram að heimilin hafa í stórum stíl flutt sig yfir í óverðtryggð lán, en hlutfall verðtryggðra fasteignalána hefur lækkað úr 70% frá ársbyrjun 2020 í tæplega 50%. Enn fremur eru aðeins um 20% nýútgefinna fasteignalána verðtryggð og því er ljóst að áhrif verðtryggingarinnar fara dvínandi. Ef vandinn sem á að leysa snýr að fólki með verðtryggð lán, sem treystir sér illa til að standa undir greiðslubyrði af óverðtryggðum lánum, þarf að leita annarra leiða en að breyta tölum reglustikunnar sem lögð er til mælingar á hagkerfinu.

Á sama tíma og uppi eru háværar raddir þess efnis að fjarlægja húsnæðisliðinn úr vísitölunni samþykkti Evrópusambandið í desember síðastliðnum að taka tillit til húsnæðisverðs í neysluverðsvísitölunni. Reikniaðferð sambandsins er þó með öðrum hætti en hérlendis, en eingöngu verður tekið mið af breytingum á verði á nýjum fasteignum. Í þessu samhengi hafa verið upp efasemdir um ágæti aðferðafræðinnar hér heima fyrir en Hagstofa Íslands miðar við þriggja mánaða hlaupandi meðaltal fasteignaverðs og því augljóst að hreyfingar á eignaverði skila sér fljótt inn í verðbólguna. Mæliaðferðin er því mjög viðkvæm fyrir skammtímabreytingum á eignaverði sem getur leitt af sér erfiðleika við framfylgd verðbólgumarkmiðsins. Ekki er þó grundvöllur fyrir því að undanskilja húsnæðisliðinn frá verðbólgumarkmiðinu á þeim forsendum að hann sé sveiflukenndur. Þess í stað væri æskilegt að endurskoða aðferðafræðina sem notast er við hérlendis. Seðlabankinn hefur áréttað að kjósi stjórnvöld að breyta viðmiðunarvísitölu verðbólgumarkmiðsins sé því ekkert til fyrirstöðu, en líklega væri nærtækara að miða við samræmda vísitölu neysluverðs, sem myndi einnig auðvelda alþjóðlegan samanburð.

Þegar allt kemur til alls er varhugavert að breyta undirliggjandi þáttum vísitölu neysluverðs eftir hentisemi og í það minnsta þarf að vera skýrt á hvaða vanda er verið að vinna. Ef draga á úr verðbólgusveiflum er ljóst að sú leið að undanskilja húsnæðisliðinn er ekki endilega farsæl þegar kreppir að. Þannig má minna á að á síðasta háverðbólguskeiði, árin 2008-2011, var verðbólga án húsnæðisliðarins að jafnaði 1,4 prósentustigum hærri. Auk þess verður að segja að við þær aðstæður í heimsmálunum sem nú blasa við, með grimmilegri árás Rússa á Úkraínu, er veruleg hætta á að utanaðkomandi vandi sem mun leiða af sér hrávöruskort, hindranir í aðfangakeðjum og innflutta verðbólgu, geri vangaveltur um samsetningu vísitölu á Íslandi örlítið hjákátlegar.

Elísa Arna Hilmarsdóttir og Gunnar Úlfarsson, hagfræðingar hjá Viðskiptaráði

Greinin birtist fyrst í ViðskiptaMogganum, 9. mars 2022.

Tengt efni

Ný útgáfa um íslenskt efnahagslíf - H1 2024

Viðskiptaráð Íslands hefur birt nýja útgáfu af The Icelandic Economy. Skýrslan ...
30. apr 2024

Árangurslitlar aðgerðir á húsnæðismarkaði

„Stuðningsúrræði stjórnvalda hafa verið of almenn í gegnum tíðina og kostað háar ...
4. des 2023

Fleiri víti 

„Það þarf að fara varlega með vald, um það þurfa að vera skýrar reglur og ...
31. jan 2024