Hausnum stungið í gagnasandinn

Á undanförnum vikum hefur Viðskiptaráð Íslands deilt við BSRB um þróun í fjölda opinberra starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði. Þær deilur hófust í kjölfar fundar Viðskiptaráðs um ríkisfjármál þar sem fram kom að opinberum störfum hefði fjölgað hraðar en störfum á almennum vinnumarkaði á undanförnum árum. Sú þróun er varhugaverð af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi eru opinber störf fjármögnuð í gegnum skattkerfið og því mikilvægt að fjöldi þeirra haldist í hendur við þróun starfa í einkageiranum. Að öðrum kosti er fjármögnun þeirra ekki sjálfbær. Í öðru lagi dregur mikill fjöldi starfsmanna úr getu hins opinbera til að bjóða samkeppnishæf launakjör. Afleiðingin verður minni framleiðni og aukin starfsmannavelta.

Í stað þess að taka þátt í umræðu um lausnir á þessum vanda kaus BSRB að fara í hártoganir um hvort fjölgunin hafi átt sér stað hjá ríki eða sveitarfélögum og á hvaða árabili fjölgunin átti sér stað. Þetta skýtur skökku við, enda hlýtur það að vera meginmarkmið samtakanna að tryggja samkeppnishæf starfskjör félagsmanna sinna en ekki fjölgun opinberra starfa. Þannig er hausnum stungið í sandinn fremur en að ræða breytingar sem geta snúið þessari þróun við.

Aðgengi og áreiðanleika gagna er ábótavant
Upplýsingar og gagnsæi knýja fram breytingar. Gott dæmi um þetta er virkni fjármálamarkaða. Fyrirtæki keppa um fjármagn og gefa út ítarlegar upplýsingar um rekstur sinn svo fjárfestar geti tekið ákvarðanir um mögulegar fjárfestingar. Liggi þær upplýsingar ekki fyrir munu fáir vilja fjárfesta í viðkomandi félagi. Þetta upplýsingaaðhald hvetur fyrirtækin enn fremur til að taka til í rekstri sínum og gera hann samkeppnishæfan við önnur félög.

Hið opinbera þarf ekki að keppa um fjármagn og því eiga sömu samkeppnislögmál ekki við í rekstri þess. Rekstrarumbætur eiga sér því ekki stað nema einstaklingar beiti sér fyrir því. Virk miðlun áreiðanlegra gagna gegnir þar lykilhlutverki. Deilur Viðskiptaráðs og BSRB eru birtingarmynd þess vanda sem fylgir skorti á upplýsingamiðlun. Fullnægjandi gögn um fjölda opinberra starfa eru ekki aðgengileg og því hefur umræðan snúist um áreiðanleika gagnanna í stað þeirra umbóta sem ráðast mætti í. Afleiðing þessa er að umræðu um aukna hagkvæmni í opinberum rekstri hefur verið drepið á dreif.

Eitt dæmi af mörgum
Þetta er fjarri því að vera eina dæmið um skort á fullnægjandi gögnum fyrir upplýsta umræðu. Á fundi Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins í síðustu viku sagði menntamálaráðherra að sér liði eins og hann sé að stýra farþegaþotu með afar fáum mælum. Gögn um íslenska skólakerfið séu svo fátækleg að það standi breytingum fyrir þrifum. Þá hefur umræða um landbúnaðarmál liðið fyrir sama gagnaskort. Í báðum tilfellum er um að ræða málaflokka þar sem tækifæri til umbóta eru veruleg.

Viðnám við breytingum er undantekningarlítið til staðar þar sem miklir hagsmunir eru í húfi. Ef þær upplýsingar sem skipta máli fyrir ákvarðanatöku liggja fyrir er hins vegar hægt að beina umræðunni í markvissari farveg. Í öllum ofangreindum dæmum er hægt að framkvæma breytingar sem koma sér betur fyrir alla hagsmunaaðila innan kerfisins en núverandi fyrirkomulag. Til að svo megi verða þarf að gera sömu aðilum kleift að sjá skóginn fyrir trjánum.

Án breytinga ríkir stöðnun
Það er hluti af mannlegu eðli að vera illa við breytingar. Á sama tíma eru breytingar grunnforsenda efnahagslegra og samfélagslegra framfara. Með þetta í huga er opin og málefnaleg umræða um þau tækifæri sem við höfum til að gera betur einn helsti drifkraftur bættra lífskjara. Til að virkja slíka umræðu þarf bæði áreiðanlegar upplýsingar og lausnamiðuð viðhorf. Hvort tveggja skortir í dag. Þessu þarf að breyta nema svo ólíklega vilji til að sátt ríki um stöðnun.

Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist í Markaðnum, aukablaði Fréttablaðsins, miðvikudaginn 15. október 2014, bls. 10.

Tengt efni

Úthlutað úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs 

Sex verkefni fengu styrk úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands
23. feb 2024

Góðir stjórnar­hættir - hvernig og hvers vegna?

Tilnefningarnefndir er dæmi um viðfangsefni sem halda þarf áfram að móta til ...
8. mar 2023

Hæpnar forsendur og ósjálfbær útgjaldavöxtur

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023
12. okt 2022