​Hraðatakmörkun íslenskra fyrirtækja

Það væri snúið fyrir ökumenn að fara eftir umferðarreglum ef þær væru byggðar upp á almennum tilmælum og matskenndum fyrirmælum. Ef það væri til dæmis lagt bann við hraðakstri á stórum bílum, en ekki skilgreint nákvæmlega hvað stór bíll sé, eða hvaða hraði sé of mikill, þá þyrftu ökumenn ekki bara að kunna reglurnar, heldur líka að reyna að skilja hvernig lögreglan og dómstólar skilja sömu reglur.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, velti þessari spurningu upp á fundi Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins í vikunni. Umfjöllunarefni hennar var framkvæmd samkeppnislöggjafar á Íslandi, en það er útbreidd skoðun meðal forsvarsfólks íslenskra fyrirtækja að það sé oft sett í ómögulega stöðu gagnvart Samkeppniseftirlitinu.

Sem betur fer þurfa ökumenn ekki að lesa í hugsanir lögreglunnar til þess að vita hvort þeir eigi á hættu að vera teknir fyrir hraðakstur. Það dugir einfaldlega að líta á mælaborðið og bera saman við merkingar um hámarkshraða í kílómetrum á klukkustund.

Í tilfelli forsvarsfólks fyrirtækja sem standa frammi fyrir því að meta hvort þau séu nálægt því að ganga að mörkum samkeppnislaga er þetta ekki alveg jafn auðvelt. Eins og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, benti á í grein á vefsíðu samtakanna, þá er „beiting samkeppnislaga [...] matskennd og getur ráðist af ytri aðstæðum. Forsendur sem lagðar eru til grundvallar í samkeppnismálum eru oft ekki ljósar fyrirfram og óvissa getur ríkt um réttindi og skyldur einstakra fyrirtækja.“

Vitaskuld eru til dæmi þar sem bersýnilega hefur verið tilefni til bæði rannsóknar og dóma vegna hegðunar fyrirtækja á markaði. Það er heldur engin krafa frá atvinnulífinu um sérstaka samúð eða að fá að starfa án eftirlits eða utan ramma laga. Þvert á móti snúast athugasemdirnar að því að styrkja regluverkið þannig að það feli í sér þann fyrirsjáanleika og réttarvissu sem almennt er talin mikilvægur hornsteinn í heilbrigðu viðskiptalífi. Því miður getur reynst erfitt að koma þessum sjónarmiðum á framfæri, eða eiga i uppbyggilegu samtali um úrbætur, ef viðhorfið í garð viðskiptalífsins einkennist af óhóflegri tortryggni.

Það var til að mynda umhugsunarvert að heyra alþingismanninn Ágúst Ólaf Ágústsson staðhæfa í umræðuþætti Viðskiptaráðs og Íslandsbanka* að nánast öll þau fyrirtæki sem keppa á fákeppnismarkaði hafi með einum eða öðrum hætti brotið samkeppnislög. Svona staðhæfingar eru í raun yfirlýsing um að fjöldinn allur af fyrirtækjum sem starfa á hinum litla íslenska markaði liggi undir grun um alvarleg lögbrot. Þetta eru ekki léttvægar ásakanir. Og það hjálpar heldur ekki uppbyggilegu samtali þegar opinberir aðilar, eins og Samkeppniseftirlitið, eyða skattpeningum í Facebook auglýsingar til að koma málflutningi sínum á framfæri.

Hingað til hafa yfirvöld sýnt þessum sjónarmiðum um réttaróvissu og hægagang takmarkaðan skilning. En hvernig er hægt að halda því fram að framkvæmd laganna sé einföld og eigi ekki að dyljast fyrirtækjum þegar úrskurðir Samkeppniseftirlitsins telja gjarnan mörg hundruð blaðsíður eftir rannsókn á meintu broti og málsmeðferðartíma sem í sumum tilfellum er mörg ár. Sum mál fá reyndar aldrei endanlegan úrskurð og önnur felld niður án nokkurra skýringa. Íslensk fyrirtæki búa þannig við verulega réttaróvissu og geta legið undir grun í lengri tíma með tilheyrandi tjóni fyrir alla sem að rekstri þess koma.

Þótt starfsemi opinberra eftirlitsaðila sé nauðsynleg þá verður sú staðreynd ekki umflúin að sköpun verðmæta á sér stað í fyrirtækjum landsins. Það er þess vegna ekki kostnaðarlaust fyrir samfélagið ef óljósar og ófyrirsjáanlegar leikreglur geta hamlað eðlilegri starfsemi og vexti fyrirtækja. Forsvarsmenn atvinnulífsins hafa ekki beðið um að reglur séu afmáðar eða eftirlit sé afnumið. Krafan er einfaldlega sú að gefinn verði upp hámarkshraði og þeir sem haldi sig undir honum fái að vera í friði.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

Greinin birtist fyrst í Viðskiptamogga Morgunblaðsins þann 15. júní 2018.

*Þáttur Viðskiptaráðs og Íslandsbanka

Tengt efni

Gullhúðun og refsigleði í nýjum markaðssetningarlögum

Þingið hefur til umfjöllunar frumvarp til nýrra markaðssetningarlaga sem er ...
5. jún 2024

Fimm staðreyndir inn í kjaraviðræður

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, skrifar um fimm staðreyndir ...
24. jan 2024

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til ...