Hver er þín verðbólga?

Viðskiptaráð hefur sett upp reiknivél sem gerir hverjum og einum kleift að reikna sína verðbólgu.

Tenglar

    Verðbólga, sem hefur aukist hröðum skrefum að undanförnu, mælist nú 9,9% og hefur ekki verið meiri í tæp þrettán ár, eða síðan í september árið 2009. Verðþróun á ýmsum vörum og þjónustu er margbreytileg og hefur misjöfn áhrif á fólk. Hún er til að mynda háð því hversu oft viðkomandi fer út að borða og til útlanda svo fátt eitt sé nefnt. Sökum þessa hefur Viðskiptaráð hefur sett upp reiknivél sem gerir hverjum og einum kleift að reikna sína verðbólgu. Svaraðu eftirfarandi 4 spurningum til að komast að því hver þín verðbólga er.

    Vinsamlegast athugið að reiknivélin hefur verið uppfærð miðað við nýjar verðbólgutölur í febrúar 2023

    Útreikningarnir í reiknivélinni hér að ofan eru byggðir á vísitölu neysluverðs, sem er jafnframt algengasti mælikvarðinn á verðbólgu. Vísitalan mælir mánaðarlegar verðbreytingar á „vörukörfu“ sem endurspeglar þær vörur og þá þjónustu sem dæmigerð íslensk fjölskylda kaupir á tilteknu tímabili. Þessi dæmigerða fjölskylda er hin fræga vísitölufjölskylda. Vísitalan er samsett af ýmsum vöruflokkum sem hafa ólíkar vogir eftir því hversu stórum hluta mánaðarlegra útgjalda er varið í hvern flokk. Þannig getur mismunandi neyslumynstur leitt til þess að verðlagsbreytingar verði mismiklar hjá hverju heimili.

    Til dæmis ver meðalfjölskyldan u.þ.b. 5% mánaðarlegra útgjalda á hótelum og veitingastöðum, og hefur sá flokkur því þá vigt í vísitölu neysluverðs. Þetta á við um meðalfjölskylduna og því gæti verðbólgan þín verið ólík ef þú  eyðir hærra hlutfalli á hótelum og veitingastöðum.

    Reiknivélin aðlagar þína verðbólgu eftir því hvort þú eyðir meira eða minna í tilteknar vörur og þjónustu en vísitölufjölskyldan. Hún tekur þó ekki sérstakt tillit til þess hvort þú sért líklegri til að nýta frekar útsölur eða tilboð. Þar að auki tekur hún ekki tillit til þess hvernig vörur þú kaupir í hverjum vöruflokki, t.d. hvort þú kaupir dýrari eða ódýrari matvörur. Þrátt fyrir það sýnir reiknivélin hvernig einstaklingar geta upplifað verðbólgu á ólíkan máta. Þín eigin verðbólga getur verið á bilinu 7,3% til 11,5% eftir því hvernig þú svaraðir spurningunum hér að ofan.

    Reiknivélin leiðir m.a. í ljós að verðbólga hjá grænmetisætum er 0,34 prósentustigum lægri  en hjá þeim sem borða einnig fisk og kjöt. Þó svo að matvörur grænmetisætunnar  hafi hækkað í verði frá því í fyrra hafa kjöt- og fiskvörur hækkað hlutfallslega meira yfir sama tímabil. Að þessu leyti hefur mataræði áhrif á verðbólgu einstaklinga.

    Verðbólga á milli mánaða

    Hækkun á vísitölu neysluverðs í júlímánuði mældist 1,17% á milli mánaða og var nokkuð meiri en birtar spár gerðu ráð fyrir. Þannig spáðu Íslandsbanki og Arion t.d. 9,3% ársverðbólgu og Landsbankinn 9,2% ársverðbólgu. Skýringuna á misræminu má helst rekja til villu í mælingum Hagstofunnar á flugfargjöldum í júní en þá nam hækkunin um 20,4% á milli mánaða en ekki 4,4%, líkt og birtist í Hagstofugögnum fyrir rúmum mánuði síðan. Því var raunveruleg hækkun á flugfargjöldum í júlí 19,9% en ekki 38% líkt og birtar hagtölur gefa til kynna.

    Líkt og síðustu mánuði skýrir hækkandi íbúðarverð talsverðan hluta verðbólgunnar þótt merkja megi verðbólguþrýsting víðar, en án húsnæðisliðarins mælist ársverðbólgan 7,5%. Lítið lát virðist vera á hækkunum íbúðaverðs en hækkunin nam um 2,6% á milli mánaða í júlí og mælist árshækkunin um 25% á landinu öllu. Húsnæðisliðurinn skýrir þannig 4% af 9,9% verðbólgu í júlí, en innfluttar vörur skýra 2,2%, innlendar vörur 1,3% og þjónusta 2,4%.

    Mest áhrif til lækkunar höfðu útsölur á fötum og skóm sem lækkuðu um 6,8% milli mánaða og húsgögnum og heimilisbúnaði, sem lækkaði um 2,6% á milli mánaða. Þá vekur sérstaka athygli að hækkun á matvælum og drykkjarvörum hefur ekki verið jafn hófleg  í heilt ár  en sá liður hækkaði um 0,15%. Samkvæmt spám viðskiptabankanna vænta þeir þess að verðbólgan nái toppi sínum í ágústmánuði og  taki þá að hjaðna, þó ekki með hraði.

    Skýringar:

    Reiknivélin er byggð á vísitölu neysluverðs og þeim 268 undirliðum og vogum sem vísitalan samanstendur af. Reiknivélin endurmetur undirvogir vísitölunnar eftir ólíkum svörum og reiknar verðbólguna í samræmi við þau. Þegar svör breytast eru aðrar vogir endurmetnar þannig að samtala undirvoga sé ávallt 100%. Vogum ákveðinna nauðsynjavara er haldið óbreyttum, líkt og húsnæði og heilbrigðisþjónustu, þar sem gert er ráð fyrir því að neysla þeirra haldist óbreytt þegar svör eru ólík. Í tilfelli aksturs er miðað við meðalakstur á viku samkvæmt Hagstofu Íslands og meðalkostnaður flugfargjalda er fenginn úr Mælaborði ferðaþjónustunnar. Í spurningunni sem snýr að mataræði er hlutfall grænkera á Íslandi byggt á könnuninni „Hvað borða Íslendingar?“.

    Tengt efni

    Um annarra manna fé

    Fyrir hverja krónu sem heimili og fyrirtæki verja samanlagt, eyðir hið opinbera ...
    14. apr 2024

    Erfið samkeppnisstaða einkarekinna fjölmiðla

    Umsögn um tillögu til þingsályktunar um ráðstöfun útvarpsgjalds (mál nr. 129)
    15. mar 2023

    Hver er þín verðbólga?

    Reiknivél Viðskiptaráðs sem gerir hverjum og einum kleift að reikna sína ...
    13. mar 2023