Keynes á líka við á uppgangstímum

Hagfræðingurinn John Maynard Keynes lagði helstu kenningar sínar fram fyrir tæpri öld síðan. Þrátt fyrir að mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan þá eru áhrif Keynes mikil enn þann dag í dag. Það má ekki síst rekja til kenninga hans um hagsveiflur og viðbrögð við þeim sem hafa sannað gildi sitt í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar árið 2008.

Þrátt fyrir sterkar vísbendingar um áreiðanleika þeirra er þó enn talsvert um efasemdarmenn. Stjórnvöld víða í Evrópu hafa fylgt öfugri stefnu og ýmsir álitsgjafar hérlendis virðast telja að einungis eigi að fylgja kenningum hans á niðursveiflutímum.

Stjórnvöld vinni gegn hagsveiflum
Hugmyndafræði Keynes byggir í grófum dráttum á því að stjórnvöld eigi að vinna með virkum hætti gegn hagsveiflum. Þannig sé æskilegt að reka hið opinbera með halla í djúpri kreppu. Með því geta stjórnvöld aukið virkni í efnahagslífinu og dregið þar með úr dýpt og lengd niðursveiflunnar.

Fæst ríki Evrópu fylgdu þessari hugmyndafræði í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar - með slæmum afleiðingum. Skýrasta dæmi þess er líklega Grikkland. Skuldir gríska ríkisins námu um 130% af landsframleiðslu árið 2009. Á þeim tíma var ráðist í umfangsmiklar skattahækkanir og niðurskurðaraðgerðir til að ná jöfnuði í ríkisfjármálunum. Fimm árum síðar höfðu skuldirnar hækkað í um 180% af landsframleiðslu. Ástæðuna má rekja til þess að aðgerðirnar skiluðu Grikklandi enn dýpri kreppu sem dró úr landsframleiðslu um ríflega 20% á tímabilinu. Dæmið um Grikkland er nú öðrum víti til varnaðar um æskileg viðbrögð þegar harðnar á dalnum.

Ekki verður bæði haldið og sleppt
Hugmyndafræði Keynes einskorðast ekki við krepputíma. Líkt og hallarekstur er æskilegur í efnahagsþrengingum er jafnframt æskilegt að hið opinbera sýni aðhald á uppgangstímum. Það geta stjórnvöld gert með því að skila rekstrarafgangi sem nýta má til niðurgreiðslu opinberra skulda.

Þessi staða er nú komin upp á Íslandi. Eftir fimm ára tímabil niðursveiflu áætlar Seðlabankinn að þriggja ára uppsveiflutímabil sé hafið. Lykilverkefni stjórnvalda á þeim tíma er því að skila rekstrarafgangi og greiða niður opinberar skuldir. Þannig má draga úr hættu á ofþenslu og hið opinbera verður jafnframt betur í stakk búið til að takast á við næstu niðursveiflu.


Sumir virðast hins vegar einungis vilja fylgja kenningum Keynes á tímum niðursveiflu. Þannig hafa nokkrir álitsgjafar gagnrýnt ummæli formanns fjárlaganefndar um að ekki verði slakað á aðhaldskröfu í ríkisfjármálum á næstunni. Þvert á móti þurfi að auka opinber útgjöld stórlega á næstu árum.

Hér verður ekki bæði haldið og sleppt. Vaxtabyrði íslenska ríkisins er nú sú hæsta í Evrópu vegna hallarekstrar undanfarinna ára. Til að geta farið eftir kenningum Keynes um hallarekstur á krepputímum þurfa stjórnvöld að safna fyrir því með því að greiða niður opinberar skuldir á uppgangstímum. Það verður ekki gert með því að auka útgjöld nú þegar uppsveiflutímabil er hafið á ný.

Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands
Greinin birtist í Kjarnanum, miðvikudaginn 26. ágúst 2015

Tengt efni

Ekkert sérstakur vaxtastuðningur 

„Þótt margir gleðjist eflaust yfir því að fá millifært úr ríkissjóði er hér um ...
13. jún 2024

Vel heppnað Viðskiptaþing

Viðskiptaþing fór fram fimmtudaginn 8. febrúar síðastliðinn. Yfirskrift þingsins ...
14. feb 2024

Fimm skattahækkanir á móti hverri lækkun

Frá áramótum 2022 hafa verið gerðar 46 breytingar á skattkerfinu, þar af hafa ...
31. maí 2023