Peningasendingar frá hálaunalandinu

Ein afleiðingin af fjölgun innflytjenda er stökkbreyting peningasendinga milli einstaklinga yfir landamæri

Hér var nýlega fjallað um þá jákvæðu þróun sem hefur orðið með mikilli fjölgun innflytjenda síðustu ár. Slíkar samfélagsbreytingar hafa ýmsar stórar sem smáar afleiðingar.

Ein afleiðingin er stökkbreyting peningasendinga milli einstaklinga yfir landamæri (e. remittances). Á alþjóðavísu eru þær að mestu raktar til peningasendinga innflytjenda í hátekjuríkjum, líkt og Íslandi, til milli- og lágtekjuríkja og nema um 0,8% af heimsframleiðslu.

Á Íslandi hafa þessar greiðslur 9-faldast á tæpum áratug og námu rétt tæpum 33 milljörðum króna í fyrra, sem jafngildir rúmlega 800 þúsund krónum á hvern erlendan ríkisborgara á vinnumarkaði. Aukninguna virðist annarsvegar mega rekja til losunar fjármagnshafta árin 2016 og 2017 en hinsvegar 83% hækkunar launa og þreföldun á fjölda erlendra ríkisborgara á vinnumarkaði frá árinu 2010.

Áréttað skal að enginn þarf að óttast að þessar peningasendingar setji krónuna á hliðina. Í fyrsta lagi eru þessar fjárhæðir ekki ráðandi afl í nærri 3.000 milljarða króna hagkerfi (VLF). Í öðru lagi er þessi sami hópur beint og óbeint mikilvægur hlekkur í útflutningsgreinum sem stuðla að viðskiptaafgangi við útlönd.

Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í „Ráðdeildinni“ í Markaðnum 4. mars 2020.

Tengt efni

Ný útgáfa um íslenskt efnahagslíf - 4. ársfjórðungur

Viðskiptaráð Íslands hefur birt nýja ársfjórðungslega útgáfu af The Icelandic ...
2. nóv 2023

Bæta þarf úr annmörkum og leggja mat á áhrif

Umsögn Viðskiptaráðs, SA og SI um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum ...
24. mar 2022

Stjórnvöld efni loforð sín og setji aukinn kraft í einföldun regluverks

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um tímasetta aðgerðaáætlun um ...
3. feb 2022