Niðurstöður úttektar á aðildarviðræðum Íslands við ESB

Ný úttekt Alþjóðamálastofnunar á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið var birt í dag. Kynning á úttektinni fór fram á Grand Hótel Reykjavík í morgun, þar sem höfundar úttektarinnar kynntu niðurstöður helstu kafla hennar og sátu fyrir svörum að því loknu.

Að úttektinni standa, ásamt Viðskiptaráði Íslands, Alþýðusamband Íslands, Félag atvinnurekenda og Samtök atvinnulífsins. Ákveðið var að ráðast í gerð úttektarinnar á haustmánuðum síðasta árs vegna þeirrar óvissu sem uppi var um framhald aðildarviðræðna, enda um mikilvæg álitaefni að ræða fyrir efnahagslega framvindu þjóðarinnar.

Í úttektinni koma fram margvíslegar nýjar niðurstöður um aðildarviðræðurnar sem ekki hafa birst áður. Niðurstöðurnar endurspegla mat skýrsluhöfunda, enda komu þau aðildarsamtök sem að úttektinni stóðu ekki að efnisvinnu hennar. Hér að neðan má finna útdrátt úr niðurstöðum úttektarinnar.

Úttektina í heild sinni má nálgast hér.

Nánari upplýsingar veita Alþjóðamálstofnun Háskóla Íslands í síma 525 5841 og Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, í síma 822-8580.

Niðurstöður úttektarinnar:

Um gang aðildarviðræðnanna

 • Á þeim 18 mánuðum sem viðræður stóðu yfir, áður en hlé var gert á þeim snemma árs 2013, voru 27 af 33 samningsköflum opnaðir og Ísland afhenti samningsafstöðu sína í 29 köflum
 • Ýmsir þættir urðu þess valdandi að samningaferlið gekk hægar en væntingar höfðu staðið til. Aðildarviðræður eru þyngri í vöfum eftir mikla stækkun ESB undanfarinn áratug, alþjóðlega fjármálakrísan setti strik í reikninginn, skortur á samtöðu innan ríkisstjórnarinnar tafði fyrir, viðræður voru settar í “hægagang” í ársbyrjun 2013 og makríldeilan olli því að ekki tókst að opna sjávarútvegskaflann.
 • Ísland hafði þegar náð fram sérlausnum, undanþágum og/eða aðlögunarfrestum í mörgum málum. Þessar sérlausnir byggðu að mestu leyti á því sem áður hafði fengist í gegnum EES-samninginn.
 • Auðvelt myndi reynast að hefja viðræður að nýju, svo fremi sem aðildarumsóknin yrði ekki dregin til baka. Vari viðræðuhléið í mörg ár mun samningavinnan úreldast hægt og bítandi þar sem lagasafn ESB tekur ýmsum breytingum með tímanum. Því væri viðbúið að það þyrfti að opna suma kafla aftur eftir langt hlé.

Ef umsóknin yrði dregin til baka færi ferlið aftur á byrjunarreit. Nýjar aðildarviðræður myndu krefjast þess að leita þyrfti aftur samþykkis allra aðildarríkjanna, kalla þyrfti saman nýja ríkjaráðstefnu og veita framkvæmdastjórninni nýtt samningsumboð. Síðan þyrfti að endurtaka öll fyrri skref viðræðuferlisins.

Aðildarviðræður, sem og samningaviðræður almennt, byggja gjarnan á því verklagi að semja fyrst um þau mál sem samhljómur er um, en sérlausnir, eftirgjafir og málamiðlanir eiga sér stað á lokadögum samninganna. Af þessum sökum er erfitt að gera sér grein fyrir því hvaða niðurstaða hefði komið fram í helstu hagsmunamálum Íslendinga ef viðræðunum hefði verið lokið.

Efnahags- og peningamál

 • Miðað við núverandi stöðu mála myndi afnám fjármagnshafta verða eitt helsta samningamálið í aðildarviðræðum. Nokkrir farvegir koma til greina fyrir ESB til þess að styðja við lausn hafta hérlendis. Sú aðstoð sem skiptir Íslendinga mestu felst í þeim trúverðugleika sem stuðningur frá ESB skapar og því fyrirheiti að íslenskar krónur breytist í evrur innan ákveðins tíma. Gjaldeyrismarkaðir eru framsýnir og myndu bregðast við um leið og aðildarsamningur yrði samþykktur.
 • Átta smáríki hafa tekið upp evru með aðild að ERM II og sex þeirra gerðu það á 2-3 árum. Heldur teygðist á reynslutíma tveggja ríkja, Eistlands og Lettlands, þar sem hin alþjóðalega fjármálakreppa tafði fyrir þeim. Af reynslu Íslands af fastgengi á árunum 1989 til 2001 og reynslu annarra ríkja verður ekki önnur ályktun dregin en að Ísland ætti að geta gengið í gegnum ERM II-ferlið til upptöku evru á lágmarkstíma – það er á 2-3 árum.
 • Með aðild Íslands að myntbandalagi Evrópu yrði Seðlabanki Íslands eitt af útibúum Evrópska seðlabankans og fengi þar með réttindi til prentunar á evrum. Með því fengi Seðlabankinn tæki til þess að varðveita fjármálastöðugleika og þjóna sem lánveitandi til þrautarvara. Aukinheldur myndi prentvald í evrum bæta efnahagslega stöðu heimila og rekstrarumhverfi atvinnulífs þar sem verðbólga, gengisóstöðugleiki og vaxtasveiflur myndu minnka verulega.
 • Innganga inn á sameiginlegt myntsvæði myndi leiða til aukinnar samkeppni á fjármálamarkaði og lægri vaxta. Eins og staðan er nú er vaxtamunur íslensku bankanna þriggja 100-200 punktum hærri en banka á öðrum Norðurlöndum.
 • Við inngöngu í Efnahags- og myntbandalag Evrópu myndu íslensk stjórnvöld ekki lengur hafa frelsi til þess að geta sjálf ákveðið eigin peningamálastefnu. Það er fórn að gefa eftir sjálfstæði í peningamálum og einhverju leyti sjálfstæði ríkisfjármála, jafnvel þó íslenskum stjórnvöldum hafi ekki tekist vel upp við beitingu þessara hagstjórnartækja. Líklegt er að í kjölfar aðildar að ESB myndi fylgja meiri breytileiki í atvinnuleysi samfara hagsveiflum þó langtíma atvinnustig ætti ekki að verða fyrir áhrifum.
 • Samhliða upptöku evru verða töluverðar stofnanabreytingar að eiga sér stað þar sem hærri nafnlaunahækkanir hérlendis en erlendis myndu draga verulegan dilk á eftir sér í formi verri samkeppnisstöðu og efnahagssamdráttar.

Sjávarútvegsmál

 • Aðildarviðræður Íslands við ESB um sjávarútvegsmál komust aldrei af stað vegna makríldeilunnar. Sú deila varð til þess að sjávarútvegsdeild framkvæmdastjórnar ESB, Frakkland, Írland, Portúgal og Spánn beittu sér fyrir því að opnunarviðmið yrðu sett fyrir Ísland. Stækkunardeild framkvæmdastjórnar ESB, Norðurlöndin og Bretland voru meðal þeirra sem beittu sér gegn opnunarviðmiðum.
 • Aldrei fyrr hefur ríki sem hefur sjávarútveg sem grundvallarhagsmuni sótt um aðild að ESB. Ísland yrði þar af leiðandi í aðstöðu til að hafa mótandi áhrif á þróun þessa málaflokks innan sambandsins.
 • Helstu samningsmarkmið Íslendinga á sviði sjávarútvegsmála lúta að þremur atriðum. Í fyrsta lagi að kröfum um sjálfstætt íslenskt fiskveiðistjórnunarsvæði. Í öðru lagi að aðgerðum til að viðhalda ströngum hömlum á fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi. Í þriðja lagi að komast hjá sameiginlegri stefnu og fyrirsvari ESB á alþjóðavettvangi varðandi fiskveiðar.
 • Sú staðreynd að íslenska fiskveiðilögsagan liggur hvergi að lögsögu núverandi ESB-ríkja, og að flestir fiskistofnar innan hennar eru staðbundnir, færir samningamönnum Íslands sterk rök fyrir því að lögsaga landsins verði skilgreind sem sérstakt fiskveiðistjórnunarsvæði. Þessar röksemdir eru einnig studdar með þeim breytingum sem gerðar hafa verið á sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB og hafa það markmið að minnka miðstýringu
 • Ef Ísland gengur í ESB ættu íslensk stjórnvöld að geta komið að miklu leyti í veg fyrir að þurfa úthluta afla til skipa í eigu erlendra aðila. Þetta er hægt án þess að undanþágur eða sérlausnir komi við sögu með því að setja svipuð skilyrði og gert er í löggjöf Breta og Dana til að koma í veg fyrir svokallað kvótahopp. Í Danmörku er til dæmis gerð krafa um að erlendir ríkisborgarar þurfi að hafa verið búsettir þar í a.m.k. tvö ár til að fá leyfi til veiða í danskri lögsögu.
 • Sjávarútvegsstefna ESB felur í sér sameiginlega stefnu varðandi fiskveiðar á alþjóðavettvangi. Í því felst að sambandið kemur fram fyrir hönd aðildarríkjanna innan alþjóðastofnana og í samningaviðræðum við ríki er standa utan ESB. Krafa Íslands um að komast hjá þessu fyrirsvari, hlýtur ávallt að verða ásteytingarsteinn í aðildarviðræðum.
 • Klæðskerasniðnar lausnir tíðkast innan sambandsins í sjávarútvegsmálum. Þannig muni ekkert beinlínis standa í vegi fyrir því að hægt sé að finna lausn sem taki mið af óskum Íslendinga. Útilokað er þó að spá fyrir um hvernig slíkar lausnir verði útfærðar. Ef ætlunin er að fá botn í það álitaefni er nauðsynlegt að ljúka aðildarviðræðum.

Landbúnaðar- og byggðamál

 • Mikill undirbúningur fór fram af hálfu Íslands á sviði landbúnaðarmála vegna aðildarumsóknarinnar og umtalsverð þekkingaruppbygging átti sér stað á flestum stigum stjórnsýslunnar. Samningsafstaða var á lokastigum í janúar 2013, þegar ákveðið var að setja aðildarviðræðurnar í „hægagang“ framyfir alþingiskosningar.
 • Viðræður hefðu að miklu leyti snúist um hversu rausnarlegan stuðning Ísland gæti fengið úr sjóðum ESB; hversu mikinn innlendan stuðning Ísland fengi heimild til að veita íslenskum landbúnaði og hversu mikinn framleiðslutengdan stuðning hefði mátt veita. Fordæmi hefðu að líkindum verið sótt í norðurslóðaákvæði aðildarsamnings Finnlands.
 • Líklegt að krafa Íslands um takmarkanir á innflutningi lifandi dýra hefði fengið efnislega meðferð og ef Ísland hefði getað sýnt fram á að hún væri byggð á vísindalegum grunni þá hefði verið fundin leið til að mæta kröfunni. Þannig undanþága myndi þó verða endurskoðuð með reglulegu millibili með hliðsjón af mögulegum breytingum á hinu vísindalega mati.
 • Í byggðamálum var fátt sem virtist standa í vegi fyrir því að samningar gætu náðst. Kröfugerð Íslands snýr fyrst og fremst að því að tryggja stöðu ríkisins innan ESB og hámarka framlög úr byggðaþróunarsjóðum sambandsins. Þessar kröfur eru rökstuddar með tilvísun í einangrun landsins, einhæft atvinnulíf, mikið dreifbýli og harðbýli.

Valkosturinn EES

 • Í rýnivinnu aðildarumsóknarferlisins var staðfest að Ísland hefur nú þegar innleitt um tvo þriðju af öllu lagasafni ESB.
 • Þegar staða og horfur EES-samningsins eru skoðaðar er hægt að fullyrða að þótt samningurinn virki allvel og skili aðilum samningsins áþreifanlegum ávinningi, þá hafi hann eftir sem áður sína galla. Þá blasa einnig við nýjar áskoranir sem finna verður lausnir á.
 • Þeir embættismenn Íslands, EFTA og ESB sem rætt var við í tengslum við vinnslu úttektarinnar voru sammála um að nær engar líkur væru á því að EES-samningurinn yrði uppfærður í fyrirsjáanlegri framtíð – en að sama skapi væri ekkert sem benti til að nokkur samningsaðilanna sæi ástæðu til að hafa frumkvæði að því að segja samningnum upp.
 • EES-aðildin lýtur forystu Norðmanna í núverandi mynd, enda ber Noregur höfuð og herðar yfir Ísland og Liechtenstein bæði að efnahagslegum og stjórnsýslulegum burðum og greiðir auk þess bróðurpartinn af „aðgangseyrinum“ að innri markaðnum, sem er í formi framlaga í Þróunarsjóð EFTA.
 • Lýðræðishallinn í EES-samningnum fer versnandi, sem endurspeglast í því að kjörnir fulltrúar EFTA-ríkjanna í EES hafa minni möguleika en áður á að hafa áhrif á þá löggjöf og stefnumótun sem EES-samningurinn skuldbindur þessi ríki til að innleiða í landslög. Þessir möguleikar voru reyndar aldrei miklir, enda er það gjaldið sem EFTA-ríkin í EES greiða fyrir aðganginn að innri markaðnum án þess að eiga aðild að samtökunum sem stjórna leikreglum hans.
 • Innleiðingarhallinn svokallaði hefur einnig versnað. Slóðinn af EES-gerðum sem Ísland hefur ekki innleitt á réttum tíma eða með réttum hætti hefur vaxið stórum skrefum á síðustu árum. Ísland er nú það ríki af 31 á EES-svæðinu sem stendur sig verst í að innleiða EES-gerðir.
 • Spurningin um hugsanlega ESB-aðild Íslands snýst ekki um að velja milli þess að standa alveg utan við sambandið eða taka 100 prósent þátt í starfi þess, heldur milli þess að viðhalda þeirri stöðu að taka þátt í um tveimur þriðju hlutum samstarfsins – án aðkomu að ákvarðanatöku – og fullrar þátttöku, með þeim réttindum og skyldum sem því fylgir.

Tengt efni

Fimm staðreyndir inn í kjaraviðræður

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, skrifar um fimm staðreyndir ...
24. jan 2024

Engan ærsladraug í Karphúsið

Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs, fer yfir stöðu mála í kjaraviðræðum aðila ...
29. jan 2024