Réttarbót og staðfesting á túlkun EFTA dómstólsins

Að mati samtakanna er veruleg hætta á því að málsmeðferðartími stjórnvalda lengist umtalsvert með tilkomu þessarar heimildar.

Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Viðskiptaráð Íslands (samtökin) hafa tekið til umsagnar ofangreint mál sem birt var á samráðsgátt stjórnvalda 8. janúar. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á stjórnsýslulögum og lögum um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 21/1994. Athugasemdir samtakanna lúta að síðara atriðinu.

Með fyrirhuguðum breytingum bætist nýtt ákæði við lög nr. 21/1994 þar sem kveðið verður á um heimild sjálfstæðra stjórnsýslunefnda til að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Dæmi eru um að sjálfstæðar stjórnsýslunefndir hafi neytt þessa úrræðis en ekki er tekið af skarið um heimild þess efnis í lögum. EFTA-dómstóllinn hefur hins vegar túlkað 34. gr. samnings EFTA ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls þannig að sjálfstæðum stjórnsýslunefndum sé heimilt að leita ráðgefandi álits dómstólsins.

Að mati samtakanna felur breytingin í sér ákveðna réttarbót og staðfestingu á túlkun EFTAdómstólsins sem leysir þar með úr réttaróvissu sem hefur ríkt um þetta atriði. Hins vegar eru álitamál í frumvarpinu sem þarf að skýra áður en það getur orðið að lögum.

Í 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins segir að úrskurður um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins sé ekki kæranlegur til annars stjórnvalds. Samtökin telja óþarft og til þess fallið að valda misskilningi að taka þetta sérstaklega fram. Breytingin tekur eingöngu til sjálfstæðra stjórnsýslunefnda sem eðli máls samkvæmt eru hliðstæð stjórnvöld og verða úrskurðir þeirra almennt ekki bornir undir önnur stjórnvöld. Hins vegar þarf að vera ljóst að úrskurðir sjálfstæðra stjórnsýslunefnda um öflun ráðgefandi álits séu kæranlegir til dómstóla. Þannig þarf að vera mögulegt fyrir málsaðila að leita til dómstóla varðandi endurskoðun á þeim þætti stjórnsýslumálsins.

Að mati samtakanna er veruleg hætta á því að málsmeðferðartími stjórnvalda lengist umtalsvert með tilkomu þessarar heimildar. Gert er ráð fyrir því að við undirbúning úrskurðar gildi málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga þannig að málsaðilum er heimilt að tjá sig áður en úrskurður er kveðinn upp. Verði ákvörðun stjórnsýslunefndar kærð til dómstóla, sbr. það sem áður sagði, er fyrirsjáanlegt að enn tefjist málið. Brotalamir eru á málshraða stjórnvalda nú þegar og mikilvægt að gerðar séu úrbætur þannig að 7. gr. stjórnsýslulaga sé uppfyllt. Að því leyti hafa samtökin áhyggjur af fyrirhugaðri lagabreytingu. Málshraði er öllum málsaðilum mikilvægur en langur málsmeðferðartími hjá tilteknum úrskurðarnefndum getur beinlínis valdið tjóni aðila, sbr. t.d. hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í því ljósi þarf að vera tryggt að ríkar kröfur gildi um öflun ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins og að ekki sé farið í þá vegferð nema brýn ástæða þyki til. Kröfur um skipan nefndarmanna þurfa jafnframt að taka mið af þessu.

Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 21/1994 segir að hafi dómstóll ákveðið að leita álits EFTA-dómstólsins sé rétt að veita málsaðila, sem hefur ekki krafist að álitsins verði aflað, gjafsókn vegna þess þáttar málsins. Fyrirliggjandi frumvarp tekur ekki á kostnaði aðila vegna málsmeðferðar við öflun ráðgefandi álits. Meginreglan við meðferð stjórnsýslumála er sú að aðilar beri kostnað sinn sjálfir og einungis í undantekningartilvikum hefur stjórnsýslunefnd lagaheimild til þess að úrskurða um málskostnað. Fyrirséð er að aðilar geti borið umtalsverðan kostnað af því að leitað sé ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Því er nauðsynlegt að frumvarpið hafi að geyma sambærilegt ákvæði þegar sjálfstæð stjórnsýslunefnd aflar álits. Þannig þarf að bæta við 1. mgr. 4. gr. laganna orðunum „eða sjálfstæð stjórnsýslunefnd“ á eftir orðunum „Hafi dómstóll“. Ennfremur þyrfti sérstaklega að taka afstöðu til þeirrar takmörkunar sem er á þeim kostnaði sem heimilt er að fá endurgreiddan samkvæmt ákvæðinu, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. laganna. Tryggja þarf, í þeim tilvikum þegar sjálfstæðar stjórnsýslunefndir hafa ekki heimild til að úrskurða um málskostnað, að þóknun umboðsmanns fyrir flutning máls fyrir EFTA dómstólnum sé endurgreidd til jafns við annan útlagðan kostnað fyrir EFTA dómstólnum.

Tengt efni

Hvalir eru ekki blóm

„Ég skil að það sé freistandi að skrifa fréttir um innkaupakörfu áhrifavalds í ...
1. nóv 2023