Endurskoða þarf ákvæði um kyrrsetningu loftfars

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um loftferðir.

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar frumvarp til laga um loftferðir. Ráðið telur heildarendurskoðun á löggjöf um loftferðir mikilvæga, með tilliti til þjóðréttarlegra skuldbindinga þar sem lagaumgjörð og regluverki er snýr að flugsamgöngum eru gerð skýr skil. Flugsamgöngur hafa skipt, og munu skipta okkur, miklu máli þegar kemur að ferðaþjónustunni, atvinnugrein sem stóð undir um 10% af landsframleiðslu og meira en þriðjungi af gjaldeyristekjum á árunum fyrir COVID-19, að farþegaflugi meðtöldu. Í því samhengi er mikilvægt að vel sé staðið að lagasetningu sem snýr að flugsamgöngum þannig að ekki séu settar meira íþyngjandi reglur en nauðsynlegt er, sem annars gætu haft skaðleg áhrif á samkeppnishæfni greinarinnar. Slík skaðleg áhrif geta falist í miklum kostnaði fyrirtækja og einstaklinga sem getur hamlað samkeppni og skapað aðgangshindranir á markaði.

Endurskoða þarf ákvæði um kyrrsetningu loftfars

Núgildandi lög um loftferðir fela í sér heimild fyrir Samgöngustofu og aðila sem starfrækir flugvöll til að aftra för loftfars af flugvelli uns gjöld eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu vegna þess loftfars sem í hlut á eða annarrar starfsemi hlutaðeigandi eiganda eða umráðanda loftfarsins. Með 198. gr. frumvarpsins er lagt til að útvíkka þetta ákvæði á þann hátt að beiting heimildarinnar til kyrrsetningar verði tengd við málsmeðferð sem kveðið er á um í lögum um kyrrsetningu, lögbann og ef við á lögum um nauðungarsölu. Umrætt ákvæði er þvingunarúrræði til að knýja fram greiðslu notendagjalda af loftförum sem fljúga um íslenska flugvelli. Ákvæðið felur ekki aðeins í sér aðgerðir vegna gjalda er tengjast einstöku loftfari, líkt og í núgildandi lögum, heldur felur það í sér möguleika á að innheimta gjöld hjá eiganda loftfars vegna annarra loftfara, ótengdum viðkomandi eiganda, í notkun hjá flugrekanda.

Þrátt fyrir að ákvæðið hafi tekið breytingum frá því að það var lagt fram á 151. löggjafarþingi, hefur þetta tiltekna atriði ekki tekið breytingum, og skiptir miklu máli að því verði breytt. Umrætt ákvæði er mjög íþyngjandi og er nokkuð ljóst að íslensk flugfélög munu ekki njóta sömu kjara og flugfélög erlendis þar sem leigutakar munu standa frammi fyrir hærra verði vegna áhættuálags. Þetta veikir samkeppnisstöðu íslenskra flugrekenda verulega. Þá felur ákvæðið einnig í sér réttaróvissu hvað varðar framtíðarsamningsstöðu íslenskra flugrekenda. Þannig er samkeppnishæfni atvinnugreinarinnar skert þar sem íslensk flugfélög þurfa að lúta strangari kröfum en tíðkast í lögsögu erlendra ríkja. Um þetta er fjallað í 6. kafla greinargerðarinnar, þar sem segir: „...brottfall lögveðs vegna ógreiddra flugtengdra gjalda og setning frekari skilyrða um beitingu og málsmeðferð vegna stöðvunar loftfars vegna slíkra gjalda kunna einnig að hafa áhrif á flugrekendur og rekstraraðila flugvalla. Á það bæði við um getu fjárveikari flugrekenda til að viðhalda rekstri og nýliða til að hefja rekstur, svo sem vegna hugsanlega aukinna krafna um tryggingar fyrir greiðslufresti gjalda [...]. Ekki hefur reynst unnt að kostnaðarmeta áhrif þeirra breytinga sem hér er getið.“ Ekki kemur fram í greinargerð hvort vægari úrræði hafi verið könnuð eða hvernig þessum úrræðum er almennt háttað í nágrannalöndum okkar eða annars staðar í erlendri lögsögu. Viðskiptaráð telur að við setningu íþyngjandi þvingunarúrræða eigi ávallt að tryggja að meðalhófs sé gætt og minnst íþyngjandi úrræðið verði fyrir valinu. Af lestri greinargerðarinnar er ekki ljóst hvort slík úrræði hafi verið könnuð yfir höfuð.

Sá vandi sem sem flugrekstur á Íslandi stendur frammi fyrir dylst engum. Þá er ekki eingöngu átt við þann vanda sem kórónuveiran hefur skapað, heldur lagðist sú staða ofan á þegar erfitt ástand sem rekstrarumhverfið á Íslandi á vissan þátt í. Ferðaþjónustan sem atvinnugrein skiptir okkur Íslendinga miklu máli þar sem greinin hefur staðið undir meira en þriðjungi af gjaldeyristekjum í eðlilegu árferði, að farþegaflugi meðtöldu. Íslendingar reiða sig einfaldlega meira á flugrekstur en aðrar þjóðir Evrópu í ljósi landfræðilegrar legu Íslands. Nauðsynlegt er að flugrekstri séu búin samkeppnishæf rekstrarskilyrði svo unnt sé að tryggja viðspyrnu atvinnugreinarinnar, sköpun nýrra starfa og samkeppnishæfni til lengri tíma. Þannig þarf að tryggja að flugrekendur búi ekki við óþarflega íþyngjandi regluverk líkt og umrætt ákvæði felur í sér.

Viðskiptaráð telur nauðsynlegt að ákvæðið verði endurskoðað. Í öllu falli væri eðlilegt að heimildin myndi einungis ná til vangreiddra gjalda sem stafa beint af tilteknu loftfari en ekki vegna annarra loftfara í notkun hjá flugrekenda. Í óbreyttri mynd er enn og aftur valin óþarflega íþyngjandi leið við innleiðingu EES gerða, og mun það hafa verulega neikvæð áhrif á flugrekendur sem starfa hér á landi. Þá skapar það einnig hindranir á markaði fyrir þá aðila sem hyggjast hefja flugrekstur á Íslandi, og telur Viðskiptaráð mikilvægt að löggjafinn forðist slíkar aðgangshindranir.

Viðskiptaráð hvetur til þess að 198. gr. verði breytt á þann veg að heimildin nái einungis til vangreiddra gjalda sem stafa beint af tilteknu loftfari en ekki vegna annarra loftfara í notkun hjá flugrekanda.

Tengt efni

Stjórnvöld búa ekki til samkeppni

Stjórnvöld búa ekki til samkeppni. Þau hafa aftur á móti mikil áhrif á ...
26. jún 2023