Mikilvægt að taka tillit til fleiri þátta við mat á sóttvarnaaðgerðum

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til sóttvarnalaga (mál nr. 498)

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar drög að frumvarpi til sóttvarnalaga. 

Í 5. kafla greinargerðar með frumvarpinu er fjallað um umsögn ráðsins dags. 15. febrúar 2022 og annarra sem bárust í gegnum Samráðsgátt stjórnvalda.

Viðskiptaráð telur ástæðu til að staldra sérstaklega við ákvæði frumvarpsins og umfjöllun um farsóttanefnd, aðkomu Alþingis að ákvarðanatöku um sóttvarnaaðgerðir og til hvaða sjónarmiða beri að líta við beitingu sóttvarnalaga. Ráðið ítrekar fram komnar athugasemdir og færir hér nánari rökstuðning fyrir sjónarmiðum sínum. 

Í fyrstu skal tekið fram að faglegt mat á því hvernig skuli hefta útbreiðslu smitsjúkdóma hlýtur fyrst og fremst að byggja á faraldurs- og læknisfræðilegum grunni. Það eru harla fáir sem efast um nauðsyn þess, þegar svo ber undir, að koma þurfi í veg fyrir og hefta dreifingu hættulegra sjúkdóma. Það þarf þó að gera með skynsamlegum hætti. Til þess kann að vera nauðsynlegt, um stundarsakir, að takmarka mikilsverð réttindi sem mönnum eru áskilin með lögum og stjórnarskrá.

Billjón króna halli 

Í frumvarpinu er fjallað sérstaklega um samfélagslega hættulega sjúkdóma, þ.e. þegar um er að ræða alvarlegan sjúkdóm sem getur m.a. leitt til verulega aukins álags á heilbrigðiskerfið verði hann útbreiddur í samfélaginu. Í greinargerð segir að um sé að ræða alvarlegustu smitsjúkdóma sem geti herjað á samfélög og tekið fram að sú skilgreining eigi við um COVID-19 sjúkdóminn.

Kórónuveiran olli verulegum skakkaföllum í íslensku samfélagi, eins og annars staðar. Aftur á móti hafa verið mjög skiptar skoðanir um aðgerðir stjórnvalda í tengslum við faraldurinn. Það gildir jafnt um sóttvarnaaðgerðir og viðbrögð stjórnvalda í kjölfar þeirra, þ.m.t. efnahagsaðgerðir. Fjölmörg fyrirtæki og hagsmunasamtök, þ.m.t. Viðskiptaráð, vöktu máls á því þegar faraldurinn stóð sem hæst að allar hamlandi aðgerðir þyrftu að vera vel ígrundaðar. Sú gagnrýni stendur. Rökin voru þau að þrátt allt mætti ekki slátra mjólkurkúnni. 

Ekki skal fullyrt hér hvort of mikið eða of lítið hafi verið að gert, en staðreyndin er því miður sú að þrátt fyrir batnandi horfur er uppsafnaður halli hins opinbera 2020-2027 rúmlega billjón krónur, ef áætlanir ganga eftir. Það eru þúsund milljarðar. Þessi halli er meðal annars kominn til vegna þeirra efnahagslegu afleiðinga sem orsökuðust af faraldrinum, þ.m.t. sóttvarnaaðgerða. Vegurinn til glötunar er varðarður góðum ásetningi. 

Í upphafi skyldi endinn skoða 

Þegar öllu er á botninn hvolft þá er það atvinnulífið; fyrirtækin, frumkvöðlarnir og einstaklingarnir sem skapa verðmætin. Þessi verðmæti eru skattlögð og þeim síðan ráðstafað í mörg brýn, og önnur ekki eins brýn, opinber verkefni. Meðal þeirra mikilvægu er rekstur heilbrigðiskerfisins. Almenn afkastageta þess og möguleg meðferðarúrræði hverju sinni eru í beinu samhengi við það hvort nægt fjármagn sé fyrir hendi. Að svo stöddu látum við umfjöllun um bætta nýtingu fjármagns í heilbrigðiskerfinu og samspil þess og atvinnulífs að öðru leyti liggja á milli hluta. 

Það blasir hins vegar við að fjárþörf heilbrigðiskerfisins fer ekki minnkandi, nema eitthvað annað komi til. Með því að draga blóðið úr atvinnulífinu, er jafnframt dregið úr þrótti heilbrigðiskerfisins. Besta leiðin til að tryggja fullnægjandi getu heilbrigðiskerfisins til skemmri og lengri tíma er að gæta að því að atvinnulífið blómstri. Þannig verður meira til skiptanna. 

Horfum á heildarsamhengið 

Það er vegna þessa sem Viðskiptaráð ítrekar athugasemdir sínar um mikilvægi þess að taka beri tillit til fleiri en faraldurs- og læknisfræðilegra þátta við mat á sóttvarnaaðgerðum. Afleiðingar af ákvörðunum sem eru teknar í dag verður að skoða í samhengi morgundagsins. Sóttvarnaaðgerðir, þótt nauðsynlegar séu, hafa efnahagslegar afleiðingar sem geta varað í ár og áratugi, með tilheyrandi áhrifum á lífskjör almennings.

Nánar tiltekið ítrekar ráðið þá afstöðu að nauðsynlegt sé að hafa þann varnagla að sóttvarnayfirvöld ein geti ekki tekið ákvarðanir sem hafa víðtækar og langvarandi afleiðingar nema Alþingi eigi aðkomu að þeim. Í þágu þessa ítrekar Viðskiptaráð að velferðarnefnd þingsins verði ekki einungis upplýst, heldur geti íþyngjandi ákvarðanir sóttvarnayfirvalda ekki tekið gildi ef velferðarnefnd er mótfallin þeim.

Af sömu ástæðum er brýnt að tryggja með lögum aðkomu fulltrúa að farsóttanefnd sem hafi efnahagslega skírskotun. Viðkomandi þarf að hafa atkvæðisrétt fyrir nefndinni. Gæta þarf að allir mikilvægir hagsmunir séu skoðaðir þegar teknar eru er ákvarðanir sem hafa afleiðingar til langrar framtíðar.

Viðskiptaráð leggur til að frumvarpið nái ekki fram að ganga öðruvísi en að teknu tilliti til þeirra athugasemda sem getur að ofan og í fyrri athugasemdum ráðsins.

Tengt efni

Umsögn um drög að frumvarpi um loftslags- og orkusjóð

Viðskiptaráð skilaði á dögunum inn umsögn um drög að frumvarpi til laga um ...
21. mar 2024

Viðskiptaráð styður hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsfólks

Umsögn um frumvarp til laga um um breytingu á lögum um heilbrigðisstarfsmenn, ...
8. maí 2023

Já, ég er óþolandi

Svanhildur Hólm er komin með nýtt áhugamál sem vonandi léttir eitthvað álaginu ...
12. apr 2023