Nauðsynlegt að skapa rétta hvata

Umsögn Viðskiptaráðs og SA um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga (mál nr. 64/2023)

Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands (hér eftir samtökin) hafa tekið til umsagnar endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Samtökin fagna því að loks hafi verið ráðist í endurskoðunina. Í drögum að frumvarpi sem hér er til umsagnar er að finna margar jákvæðar og tímabærar breytingar á jöfnunarfyrirkomulagi sveitarfélaga. Samtökin taka undir þau sjónarmið að mikilvægt sé að fjárhagslegt jöfnunarkerfi sé hlutlægt og byggi á traustum mælikvörðum og forsendum, ef ætlunin er yfirhöfuð að starfrækja Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Þá sé ávallt haft að leiðarljósi að jöfnunarkerfið rýri ekki athafnafrelsi eða dragi úr hvötum til umbóta og framfara. Með það í huga telja samtökin að enn sé þörf á frekari breytingum á jöfnunarfyrirkomulaginu og að betur hefði farið á því að leggja niður Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og endurhugsa kerfið í heild.

Nauðsynlegt að skapa rétta hvata

Líkt og komið er inn á í frumvarpsdrögunum þá hvíla ríkar skyldur á herðum íslenskra sveitarfélaga, lögum samkvæmt, en aðstæður þeirra til að standa undir þeim verkefnum eru æði ólíkar, og fyrir því geti verið ýmsar ástæður.

Ef horft er til tekjustofna Jöfnunarsjóðsins, ætti það, að mati samtakanna, að vera meginhlutverk hans að aðstoða sveitarfélög við að takast á við þau verkefni sem færð hafa verið frá ríki til sveitarfélaga og auðvelda aðlögun að þeim breytingum. Í dag eru það rekstur grunnskóla og málefni fatlaðra sem um ræðir.  Þau sveitarfélög sem búa við aðrar, sérstakar, áskoranir í rekstri þarf e.t.v. að styðja en slíkt á ekki að standa öllum sveitarfélögum til boða, né á slíkur stuðningur að vera sjálfgefinn.

Samtökin telja það því fagnaðarefni að fallið sé frá ákveðnum framlögum eins og t.d. fasteignaskattsframlagi og mætti jafnvel ganga enn lengra í þeim efnum. Almennt telja samtökin að rökstuðning fyrir þeim framlögum sem veitt eru úr Jöfnunarsjóði skorti. Til að mynda er óljóst hvers vegna Samband íslenskra sveitarfélaga og Landshlutasamtök sveitarfélaga hljóta bundin framlög úr Jöfnunarsjóði, þ.e. framlög sem ákvörðuð eru með lögum. Eðlilegt væri að sveitarfélögin sjálf stæðu straum af starfsemi þessara sambanda, þ.e. í það minnsta án fjárframlaga úr ríkissjóði. 

Í dag er staðan sú að rekstur sumra sveitarfélaga væri ósjálfbær ef ekki kæmi til verulegrar aðstoðar í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Auk þess þiggja mörg sveitarfélög gjaldfrjálsa sérfræðiráðgjöf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og reiða sig á samstarf við nágrannasveitarfélög við veitingu lögbundinnar þjónustu. Það skýtur sannarlega skökku við að lögð sé áhersla á fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaga í opinberri umræðu á sama tíma og hlutur Jöfnunarsjóðs er jafn stór og raun ber vitni. Vandséð er annað en að tilvist Jöfnunarsjóðs dragi úr hvata til sameiningar og hagræðingar í rekstri sveitarstjórnarstigsins.

Horfast verður í augu við þá staðreynd að í dag er öllum sveitarfélögum gert að greiða hlutfall útsvarstekna sinna í Jöfnunarsjóð. Einhver sveitarfélög fá minna úr sjóðnum en þau greiða í hann. Tilvist sjóðsins og núverandi fyrirkomulag gerir þannig vel reknum sveitarfélögum erfiðara fyrir að skila góðum rekstri til íbúa í formi lægri skattheimtu. Sveitarfélög í góðum rekstri hafa burði til að innheimta lægri skatta en önnur og hafa enga þörf á fjárhagslegum stuðningi sem önnur sveitarfélög og ríkissjóður standa straum af. Ætti það að vera öllum sveitarfélögum kappsmál, sérílagi ef raunveruleg innistæða á að vera fyrir fjárhagslegu sjálfstæði þeirra. Ljóst er að tilvist Jöfnunarsjóðs skapar ýmsa óæskilega hvata í rekstri sveitarfélaga og ærið tilefni er til þess að taka jöfnunarfyrirkomulagið til gagngerrar endurskoðunar.

Flest íslensk sveitarfélög undir hagkvæmri stærð

Þegar málefni sveitarfélaga eru rædd er ekki hægt að horfa framhjá nauðsyn þess að ráðast í frekari sameiningar á sveitarstjórnarstiginu.

Ein forsenda þess að mögulegt sé að færa verkefni á sveitarstjórnarstig er að sveitarfélög séu í stakk búin að veita umrædda þjónustu þannig að henni sé vel sinnt og ávinningur af tilfærslu verkefna verði tryggður. Fámenni í íslenskum sveitarfélögum dregur almennt úr getu til þess að takast á við fleiri verkefni, en vísbendingar eru um að sum sveitarfélög hafi ekki bolmagn til að sinna skyldum sínum nú þegar. Þrátt fyrir að tekjur sveitarfélaga hafi vaxið mikið á undanförnum árum hefur afkoma þeirra versnað til muna. Þessi erfiða staða kallar á breytingar. Að óbreyttu hafa sveitarfélögin hvorki burði né getu til að taka við fleiri verkefnum frá ríkinu.

Samtökin telja rök standa til frekari sameiningar sveitarfélaga. Forsendur til sameininga hafa batnað síðustu ár, til dæmis með ljósleiðaravæðingu og framförum í starfrænni stjórnsýslu sem stutt geta við veitingu þjónustu á dreifbýlum svæðum. Að mati samtakanna er frekari sameining sveitarfélaga almennt til þess fallin að jafna sveiflur og styrkja stoðir velferðarþjónustu á sveitarstjórnarstiginu. Þá er mikilvægt að mati samtakanna að í öllum landshlutum sé stuðlað að umhverfi þar sem verðmætasköpun geti blómstrað.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga vinnur gegn sameiningum

Það skiptir miklu máli að fyrirkomulag úthlutana úr Jöfnunarsjóðnum skapi ekki neikvæðan hvata til rekstrarlegs aðhalds og sameininga hjá sveitarfélögum. Óhætt er að fullyrða að umgjörð sjóðsins sé einkar ógagnsæ og flókin en umfang hans hefur aukist til muna í áranna rás í samræmi við auknar tekjur ríkissjóðs.

Smærri sveitarfélög fá hlutfallslega mun hærri framlög úr Jöfnunarsjóði en þau stærri og er þannig tilvist óhagkvæmra, smærri sveitarfélaga viðhaldið á kostnað þeirra sem hagkvæm eru. Framlög úr sjóðnum eru þannig til þess fallin að tefja fyrir hagræðingu á sveitarstjórnarstiginu og draga úr hvötum fyrir sveitarfélög til að leita leiða til að nýta skattfé sem best. Breytingar á þessu fyrirkomulagi eru því nauðsynlegar og til góðs. Nánast allir núverandi útgjaldaliðir Jöfnunarsjóðsins miða að því að draga úr afleiðingum af óhagkvæmni lítilla sveitarfélaga og lakri fjármálastjórn. Hvort tveggja er til þess fallið að auka útgjöld sveitarfélaga og þar með skattbyrði og er því hvati til sameininga lítill sem enginn.

Tengt efni

Ávarp Ara Fenger á Viðskiptaþingi

Ari Fenger flutti opnunarávarp á Viðskiptaþingi 2024. Þetta var hans síðasta ...
12. feb 2024