Viðskiptaráð fagnar nýsköpunarfrumvarpi

Frumkvöðla- og nýsköpunarstarfsemi getur gegnt lykilhlutverki í viðsnúningi efnahagslífsins og til lengri tíma. Af þeim sökum er mikilvægt að hlúð verði að slíku starfi og því sköpuð hagfelld skilyrði.

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar breytingar á opinberu stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi. Markmið frumvarpsins er að efla stuðning við nýsköpun í landinu með einföldu verklagi, skýrri ábyrgð og sterkum tengslum við háskólasamfélag, atvinnulíf og hagaðila. Þannig er verið að forgangsraða verkefnum á betri hátt, draga úr yfirbyggingu og tryggja betri nýtingu opinbers fjár í nýsköpunarmálum. Viðskiptaráð fagnar allri slíkri viðleitni og aðgerðum sem vinna að þessum markmiðum. 

Frumkvöðla- og nýsköpunarstarfsemi getur gegnt lykilhlutverki  í viðsnúningi efnahagslífsins og til lengri tíma. Af þeim sökum er mikilvægt að hlúð verði að slíku starfi og því sköpuð hagfelld skilyrði. Frumvarpið felur í sér breytingar sem eru til þess fallnar að efla enn frekar umhverfi nýsköpunar á Íslandi og er það fagnaðarefni.  

Breyttir tímar kalla á breytta nálgun 

Viðskiptaráð hefur lengi talað fyrir að hlutverk og starfsemi opinberra stofnana sé í sífelldri endurskoðun svo þær geti sem best þjónað hlutverki sínu og tryggð sé hagkvæm nýting opinbers fés. Í tilfelli Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands (NMÍ) var slík endurskoðun vel tímabær, en þegar hún var stofnuð árið 2007 var gert ráð fyrir því í lögum að stofnunin yrði endurskoðuð tveimur árum síðar en slík endurskoðun átti sér ekki stað, ekki fyrr en nú, 11 árum á eftir áætlun.  

Síðan NMÍ var stofnuð hefur nýsköpunar- og frumkvöðlaumhverfið hérlendis tekið stakkaskiptum. Þannig hefur stuðningsumhverfið stækkað og nýsköpun almennt öðlast meira vægi hjá stjórnvöldum, m.a. með setningu metnaðarfullrar nýsköpunarstefnu, sem er fagnaðarefni. Breyttir tímar kalla á breytta nálgun og eðlilegt er þá að stuðningsumhverfið sé tekið til endurskoðunar með það að markmiði að forgangsraða mikilvægustu verkefnunum. Þá er jákvætt að rannsóknarverkefnum á sviði líf-, efna- og orkutækni sé gert hærra undir höfði á sama tíma og mótuð verði áætlun um fyrirkomulag rannsókna og þróunar í byggingariðnaði.  

Viðskiptaráð hefur áður talað um þau tækifæri sem eru til staðar í hagræðingu í rekstri NMÍ.1 Ljóst er að hluti af starfsemi NMÍ sinnir sömu verkefnum og einkaaðilar í vistkerfi nýsköpunar hér á landi, t.a.m. á sviði stoðþjónustu og fræðslu. Viðskiptaráð telur mikilvægt að þegar einkaaðilar hafa skapað sér sess á markaði við að sinna tiltekinni þjónustu sé ákjósanlegt að hið opinbera stígi til hliðar og hætti slíkri starfsemi. Þar að auki var sérstaklega tekið fram við stofnun NMÍ að henni var ekki ætlað að vera í samkeppnisrekstri á markaði. Rétt er því að leggja af þau verkefni Nýsköpunarmiðstöðvarinnar sem einkaaðilar eru nú að sinna með góðu móti.  

Þá telur Viðskiptaráð eðlilegt að finna þeim verkefnum sem áfram skal sinnt nýjan farveg og telur Viðskiptaráð framfaraskerf að sá farvegur sé innan nýrra nýsköpunargarða í samstarfi ráðuneytis, háskólasamfélagsins og atvinnulífs. Þannig mun sú starfsemi njóta sín mun betur í meiri nálægð og samstarfi við háskólasamfélagið.  

Viðskiptaráð leggur til að frumvarpið nái fram að ganga.  

Tengt efni

Vel heppnað Viðskiptaþing

Viðskiptaþing fór fram fimmtudaginn 8. febrúar síðastliðinn. Yfirskrift þingsins ...
14. feb 2024

Hæpnar forsendur og ósjálfbær útgjaldavöxtur

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023
12. okt 2022

Er stórtækur atvinnurekstur hins opinbera náttúrulögmál?

Að viðskiptabönkunum undanskildum hefur stöðugildum hins opinbera í ...
26. nóv 2021