Raunveruleg þörf fyrir sóttvarnaaðgerðir er nauðsynleg forsenda útgjalda

Viðskiptaráð kallar eftir afléttingu takmarkana og að athafnafrelsi sé komið að á nýju. Þá telur ráðið þörf á aukna aðkomu Alþingis og langtímastefnumótun.

Mynd © Viðskiptaráð Íslands

Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn um frumvarp til laga um styrki til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma (232. mál).

Að mati Viðskiptaráðs er nauðsynlegt að stjórnvöld aflétti takmörkunum og komi á ný á almennu athafnafrelsi fólks og fyrirtækja til þess að koma í veg fyrir frekari samfélagsleg áhrif, óþarfa tjón í atvinnurekstri og aukin ríkisútgjöld. Vægara afbrigði veirunnar og víðtæk bólusetning hefur breytt eðli faraldursins. Sú eðlisbreyting ætti um leið að breyta nálgun stjórnvalda og draga úr þörf fyrir aðgerðir eins og þær sem þetta frumvarp boðar. Aðgerðirnar eru að hluta til til þess að mæta tapi sem hefur þegar orðið, en einnig væntu tjóni sem stjórnvöld hafa í hendi sér að ekki verði. Helstu áherslur Viðskiptaráðs eru eftirfarandi: 

  • Viðskiptaráð telur mikilvægt að umræða um stuðningsúrræði sé sett í samhengi við frelsisskerðingar og nauðsyn þeirra hverju sinni.  
  • Mikilvægt er að nefndin taki alvarlega til skoðunar réttlætingarástæður fyrir þeim sóttvarnaraðgerðum sem nú eru uppi og þá þörf sem þær skapa fyrir efnahagslegt inngrip.  
  • Viðskiptaráð bindur vonir við að nýkjörið þing skapi sér meira rými í umræðu og ákvarðanatöku um sóttvarnamál.  

Þörf á aðkomu Alþingis og langtímastefnumótun 

Þegar hefur skapast þörf fyrir þann stuðning sem frumvarpið boðar. Að mati Viðskiptaráðs er nauðsynlegt að setja alla umræðu um slík úrræði í skýrt samhengi við frelsisskerðingar í þágu sóttvarna. Umræða um þau mál hefur aðeins að litlu leyti ratað inn á Alþingi í þau tvö ár sem faraldurinn hefur geisað hér á landi.   

Í 49. gr. þingskaparlaga er fjallað um eftirlit Alþingis, þingnefnda og einstakra alþingismanna með störfum framkvæmdavaldsins sem færa má rök fyrir að verði veigameira eftir því sem ákvarðanir einstakra ráðherra eða stjórnvalda eru stærri og varða fleiri einstaklinga. Að mati Viðskiptaráðs hefur skort á eftirlit Alþingis með ákvörðunum um sóttvarnaráðstafanir. Alþingi hefur verið falið að fjalla um stuðning við fólk og fyrirtæki en ekki þær aðstæður og takmarkanir sem skapað hafa þörfina fyrir stuðning. Þannig hefur skort á mikilvægt samhengi í umfjöllun um hvaða efnahagslegu og samfélagslegu afleiðingar takmarkanir hafa. Viðskiptaráð bindur vonir við að nýkjörið þing skapi sér meira rými í umræðu og ákvarðanatöku um þessi mál.  

Þá hefur að mati Viðskiptaráðs skort langtímastefnumótun stjórnvalda. Framan af var eðlilegt að viðbrögð mótuðust af þeirri óvissu sem faraldurinn hafði í för með sér, en langt er síðan að stjórnvöld máttu gera sér grein fyrir að um langvinnt ástand væri að ræða sem kallaði á annars konar nálgun. Nýlegt dæmi um skort á fyrirsjáanleika er þegar gildandi reglugerð um sóttvarnatakmarkanir var framlengd óbreytt, en aðgerðir svo hertar, allt á tæpri vinnuviku. Síðastliðið sumar fjallaði ríkisstjórnin um langtímanálgun og boðaði stefnumótun um viðbrögð við faraldrinum sem þau þyrftu að byggjast á skýrri sýn um markmið og forsendur. Sú langtímastefna hefur ekki enn litið dagsins ljós og nú tveimur árum eftir að faraldurinn hófst eru markmið og forsendur stjórnvalda enn síbreytilegar.  

Afléttingar tímabærar 

Ekki verður dregið úr mikilvægi þeirra efnahagslegu mótvægisaðgerða sem gripið hefur verið til í þeim tilgangi að draga úr langtímaáhrifum á hagkerfið. Erfitt er að henda reiður á allan þann kostnað sem fallið hefur til, bæði samfélagslegan og fjárhagslegan, en ljóst er að sérstaklega í ákveðnum geirum hafa fyrirtæki orðið fyrir miklu tjóni vegna faraldursins og aðgerða stjórnvalda. Þá hafa mikilvægir samfélagslegir hagsmunir þurft undan að láta, s.s. geðheilsa, líðan og menntun barna, en ungt fólk hefur þurft að þola miklar takmarkanir í þágu annarra hópa.  

Raunveruleg þörf fyrir sóttvarnaaðgerðir er nauðsynleg forsenda útgjalda úr ríkissjóði vegna slíkra aðgerða. Ekki verður litið framhjá því að breytt staða faraldursins gefur ekki tilefni til að beita jafnhörðum aðgerðum og gert hefur verið undanfarið hér á landi. Þrátt fyrir að fleiri lýðræðislega kjörnir fulltrúar ljái nú máls á afléttingum, hafa þeir sem bera pólitíska ábyrgð á takmörkunum ekki enn tekið af skarið. Samkvæmt yfirlýsingum sóttvarnalæknis virðast yfirvöld ákveðin í að viðhalda takmörkunum út gildistíma gildandi reglugerðar þrátt fyrir að gögn bendi til þess að afléttingar séu tímabærar. Nærtækt er að horfa til viðbragða nágrannaþjóða, eins og Dana og Færeyinga, þar sem nýgengi smita er hærra en hér á landi, en í báðum löndum hafa þó skref verið stigin skref í átt til afléttingar.  

Að mati Viðskiptaráðs er mikilvægt að nefndin taki alvarlega til skoðunar réttlætingarástæður fyrir þeim sóttvarnaraðgerðum sem nú eru uppi og þá þörf sem þær skapa fyrir efnahagslegt inngrip.  

Athugasemdir við einstök atriði frumvarpsins 


5. gr. – Fjárhæð styrkja
 

Í 5. gr. frumvarpsins er fjallað um að fjárhæðarmörk. Styrkir til fyrirtækja eru að öðrum skilyrðum uppfylltum takmarkaðir við 2,5 milljónir kr. á mánuði, sé tekjufall á bilinu 20-60%, og 3 milljónir kr. á mánuði, sé tekjufall meira en 60%. Þá er auk þess kveðið á um að styrkurinn geti aldrei orðið hærri en 500 þúsund kr. fyrir hvert stöðugildi í fyrra tilvikinu og 600 þúsund krónur í því síðara. Að mati Viðskiptaráðs koma þessar aðgerðir vel til móts við smærri rekstraraðila en ljóst er að stærri aðilar munu ekki eiga möguleika á rekstrarstyrk í sambærilegu hlutfalli við tap vegna takmarkana á starfsemi þeirra. Þó ber að líta til markmiðsákvæðis frumvarpsins, sem gefur til kynna að stjórnvöld líti ekki á þessa aðgerð sem bætur vegna tjóns, heldur að hún eigi að stuðla að því að rekstraraðilar geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa takmarkananna gætir, varðveitt viðskiptasambönd og tryggt viðbúnað þegar úr rætist.  

7. gr. – Ákvörðun  

Ákvörðun um styrk skal tekin svo fljótt sem auðið er, samkvæmt 7. gr. frumvarpsins, en eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að fullnægjandi umsókn berst. Hafa þarf í huga að fyrirtæki í veitingageiranum sitja fæst á sjóðum, og þrátt fyrir aðrar ívilnanir eins og frestun á opinberum gjöldum,  þurfa þau eftir sem áður að standa skil á öðrum skuldbindingum sínum, gagnvart launafólki, lánardrottnum, birgjum o.fl. Mikilvægt er því að afgreiðslu umsókna sé hraðað eins og kostur er.  

Með tilliti til þess sem að framan greinir, um það samhengi sem vera þarf milli sóttvarnaaðgerða og þeirrar þarfar sem þær eiga að svara, telur VÍ að sóttvarnaaðgerðir gangi lengra en nauðsyn er til sem um leið veldur rekstraraðilum óþarfa tjóni sem einungis hluti þeirra mun fá bætt svo einhverju nemi. 

Tengt efni

Umsögn um frumvarp til breytinga á lögum um virðisaukaskatt og lögum um kílómetragjald

Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn um frumvarpið og telur fyrirhugaðar ...

Ávarp Ara Fenger á Viðskiptaþingi

Ari Fenger flutti opnunarávarp á Viðskiptaþingi 2024. Þetta var hans síðasta ...
12. feb 2024

Vel sóttur Peningamálafundur Viðskiptaráðs

Peningamálafundur Viðskiptaráðs fór fram í morgun, 23. nóvember. Yfirskrift ...
23. nóv 2023