Regluverk á að vera einfalt og skilvirkt

Umsögn um breytingar á reglugerð um löggiltar iðngreinar nr. 940/1999, með áorðnum breytingum (mál nr. 107/2022)

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar drög að breytingu á reglugerð um löggiltar iðngreinar nr. 940/1999, með áorðnum breytingum. Ráðið bendir einnig á umsögn í máli nr. 444 frá 11. febrúar 2021, þar sem fjallað var um einföldun regluverks, þ.m.t lögverndun starfsgreina. Sjónarmið sem reifuð eru í tilvitnaðri umsögn eiga við í málinu.

Samantekt

Í umsögn þessari kemur fram:

  • Viðskiptaráð telur að regluverk eigi að vera einfalt og skilvirkt nema rök standi til annars.
  • Almenningur hefur hag af virkri samkeppni.
  • Viðskiptaráð fær ekki séð að mikilvægir almannahagsmunir standi til þess að þær iðngreinar sem um ræðir njóti lögverndunar.
  • Viðskiptaráð mælist til þess að áformin nái fram að ganga. 

Almennt um lögverndun

Árið 2020 gaf Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) út samkeppnismat á lögum og reglum sem gilda um byggingariðnað og ferðaþjónustu samkvæmt samningi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Þar kom fram að reglubyrði atvinnustarfsemi hér á landi er töluvert meiri en í þeim löndum sem við berum okkur alla jafna saman við og aðgangshindranir á markaði víða.

Það er til þess fallið að draga úr skilyrðum fyrir virkri samkeppni, auka kostnað í rekstri fyrirtækja og draga úr samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs í alþjóðlegum samanburði. Það er mikilvægt að stjórnvöld gæti þess að lög og reglur sem gilda um atvinnustarfsemi í landinu styðji við framþróun og hamli henni ekki óþarflega umfram það sem nauðsynlegt er með tilliti til mikilvægra almannahagsmuna hverju sinni. Hagsmunir alls almennings standa til þess að samkeppni sé sem virkust og að reglur hamli henni ekki að óþörfu.

Viðskiptaráð telur hagsmuni þeirra sem starfa í umræddum iðngreinum annars vegar og neytenda hins vegar samofna. Hagur beggja liggur í því að áfram sé veitt góð og fagmannleg þjónusta. Veiti einhver slæma þjónustu eða framleiði lélega vöru hefur það vitanlega áhrif á orðspor viðkomandi og þannig eftirspurn eftir þjónustunni. Neytendur láta ekki bjóða sér slíkt til lengdar. Gildir þá einu hvort starfsheiti viðkomandi sé lögverndað eða ekki.

Niðurstaða 

Viðskiptaráð fær ekki séð að mikilvægir almannahagsmunir standi til þess að þær iðngreinar sem um ræðir njóti lögverndunar. Ráðið hvetur stjórnvöld til dáða við frekari einföldun regluverks og vísar í því samhengi til skýrslu Viðskiptaráðs, Hið opinbera – meira fyrir minna, sem kom út árið 2020.

Í ljósi alls framangreinds mælist Viðskiptaráð til þess að áformin nái fram að ganga.

Að lokum áskilur Viðskiptaráð sér rétt til að koma frekari athugasemdum á framfæri á síðari stigum og er reiðubúið að skýra umsagnir sínar sé þess óskað.

Tengt efni

Endurskoða þarf lögverndun starfa

Fjöldi lögverndaðra starfsgreina og starfa á Íslandi er umtalsvert hærri en í ...
31. maí 2024

Umsögn um áform um breytingu á lögum um umhverfis- og auðlindaskatta

Hinn 3. nóvember sl. birti fjármála- og efnahagsráðuneytið áform um breytingu á ...

Hið opinbera: Get ég aðstoðað?

Viðskiptaþing 2024 fer fram 8. febrúar á Hilton Reykjavík Nordica og hefst kl. ...
16. jan 2024