Fyrirtækjaflótti framundan?

Nýlega bárust þær fréttir að samheitalyfjafyrirtækið Actavis leiti nú að hentugri staðsetningu fyrir höfuðstöðvar sínar. Erfitt er að skilja þessa yfirlýsingu með öðrum hætti en að líklegt megi teljast að höfuðstöðvar fyrirtækisins flytji af landi brott.

Sú staðreynd að fyrirtæki þurfi að hefja þá leit gefur vísbendingar um að of margar brotalamir séu í rekstarumhverfi fyrirtækja hérlendis auk þess að vekja upp spurningar um hvort fleiri fyrirtæki fylgi í kjölfarið. Sérstaklega á þetta við um tækni- og hugverkafyrirtæki sem hafa starfsemi og markaði utan Íslands, enda eru landfestar þeirra mun veikari en framleiðslu- og þjónustufyrirtækja. Margar ástæður liggja eflaust að baki því að fyrirtæki horfi út fyrir landsteinana en ljóst er að þáttur í þeirri ákvörðun er þó skattastefna stjórnvalda.

Skattastefna stjórnvalda á villigötum
Undanfarin misseri hafa margvíslegar skattabreytingar verið innleiddar hérlendis. Eftir bankahrunið blasti við hundruð milljarða fjárlagagat og frá þeim tíma hefur meginþungi aðgerða stjórnvalda, til að loka fjárlagagatinu, verið lagður á skattahækkanir.

Nýlegar skattabreytingar eru margar óskilvirkar og í raun óhagkvæm leið að settu marki. Fyrirtæki sem starfa á alþjóðlegum mörkuðum þurfa að búa við stöðugleika í skattkerfinu og vissu um að ekki sé vegið að rekstarumhverfi þeirra með skattlagningu sem skekkir samkeppnisstöðu þeirra á markaði. Í of mörgum tilvikum hefur umhverfi fyrirtækja nú verið breytt til hins verra með nýjum afmörkuðum sköttum eða tæknilegum breytingum á skattkerfinu. Slíkar breytingar geta haft og virðast vera að hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir uppbyggingu atvinnustarfsemi á Íslandi.

„Það skattaumhverfi sem fyrirtækjum er búið í dag er óstöðugt, ófyrirsjáanlegt og flókið og því ekki óeðlilegt að forsvarsmenn fyrirtækjanna sem eiga þess kost kanni hvort hag þeirra sé betur borgið annarstaðar. Að þessu þurfa stjórnvöld að huga, laga það sem misfarist hefur að undanförnu og draga þannig úr hvata til landflótta fyrirtækja svo að störf og verðmætasköpun haldist innan landsteinanna.“ segir Finnur Oddsson framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

Finnur bendir þó á að eflaust hefðu einhver af þeim tækni- og hugverkafyrirtækjum sem hafa vaxið og dafnað hérlendis undanfarin ár farið af landi brott óháð núverandi ástandi. Hinsvegar sé brýnt að tryggja að umhverfi reksturs sé með þeim hætti að næsta kynslóð slíkra fyrirtækja verði til og festi rætur hérlendis. Til að svo megi verða þarf skattkerfið að hvetja til uppbyggingar á atvinnustarfsemi.

Einleikur í skattamálum
Í apríl s.l. tilnefndi fjármálaráðherra starfshóp sem ætlað var að móta og setja fram heildstæðar tillögur um breytingar og umbætur á skattkerfinu. Samhliða starfshópnum var sett á laggirnar samráðsnefnd sem hugsuð var sem vettvangur upplýsingamiðlunar og skoðanaskipta fyrir starfshópinn. Þar áttu sæti ýmsir aðilar vinnumarkaðarins, en hópnum var ætlað að skila áfangaskýrslu til fjármálaráðherra fyrir 15. júlí n.k.

Enn sem komið er hefur samráðshópurinn ekki komið saman, þrátt fyrir að einungis séu um þrjár vikur í að skila eigi áfangaskýrslu. Því er ljóst að ekki hefur verið nægilega hugað  að sjónarmiðum og þörfum atvinnulífisins í fyrirhuguðum skattabreytingum. Einleikur stjórnvalda og ofangreindur skortur á samráði dregur enn frekar úr tiltrú atvinnulífisins á að raunverulegur samstarfsvilji sé fyrir hendi hjá stjórnvöldum.

Nánari upplýsingar veita Finnur Oddsson framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs og Björn Þór Arnarson hagfræðingur Viðskiptaráðs í síma 510-7100.

Tengt efni

Lægri skattar og sjálfbær ríkisfjármál bæta samkeppnishæfni Íslands 

Undanfarinn áratug hefur samkeppnishæfni Íslands smám saman batnað, en fyrir tíu ...
21. jún 2024

Umsögn um valkosti og greiningu á vindorku

Umsögn Viðskiptaráðs um valkosti og greiningu á vindorku - skýrslu starfshóps, ...

Samkeppnishæfni Íslands eykst á árinu 2022

Ísland bætir samkeppnishæfni sína og færist upp í 16. sæti samkvæmt greiningu IMD
15. jún 2022