Samkeppnishæfni Íslands eykst á árinu 2022

Ísland bætir samkeppnishæfni sína og færist upp í 16. sæti samkvæmt greiningu IMD

Niðurstöður úttektar IMD viðskiptaháskólans í Sviss á samkeppnishæfni ríkja liggja nú fyrir og voru kynntar á fundi Viðskiptaráðs og Arion banka í morgun. Niðurstaða úttektarinnar er sú að Ísland bætir stöðu sína og færist upp um fimm sæti, úr 21. í 16. sæti. Íslendingar reka þó enn lestina í samanburði við Norðurlöndin, þar sem Danmörk er fremst meðal þjóða.

Síðasta áratug hefur samkeppnisstaða Íslands batnað hægt og bítandi, en fyrir áratug síðan raðaði Ísland sér í 26. sæti. Mestar framfarir hafa orðið í skilvirkni atvinnulífs og samfélagslegum innviðum. Þá hefur skilvirkni hins opinbera batnað lítillega.

  • Kynningu Viðskiptaráðs á niðurstöðum ársins má sjá hér
  • Skýrslu IMD um Ísland má sjá hér

Veruleg afturför í alþjóðaviðskiptum

Ísland er hins vegar enn eftirbátur annarra þróaðra ríkja þegar kemur að efnahagslegri frammistöðu. Þótt staða þjóðarinnar sé góð hvað landsframleiðslu og atvinnustig varðar stöndum við mjög illa þegar kemur að erlendri fjárfestingu og alþjóðaviðskiptum, þar sem við erum 28 og 30 sætum neðar en meðaltal Norðurlandanna.

Bæði síðastnefndu atriðin hafa þróast til verri vegar undanfarinn áratug sem bendir til þess að tiltrú umheimsins á íslenska hagkerfinu fari dvínandi. Þannig mælist bein erlend fjárfesting til landsins sem hlutfall af landsframleiðslu svo lág að Ísland skipar 61. sæti af 63 í úttektinni. Heilt yfir færist Ísland úr 55. sæti í það 58. hvað alþjóðaviðskipti snertir en fer úr 52. í 49. sæti varðandi alþjóðlega fjárfestingu á milli ára.

Hið opinbera mælist skilvirkara en fjármál og skattastefna reynast dragbítur

Það eru jákvæðar fréttir að skilvirkni hins opinbera batnar á milli ára og dregur ekki úr samkeppnishæfni neins undirflokks. Helstu framfarirnar eru meðal regluverks atvinnulífs og færumst við úr 21. sæti í það 14. Ísland er í 3. sæti yfir samkeppnishæfustu samfélagslegu umgjörðina og bætum við okkur um sex sæti á milli ára. Opinber fjármál og skattastefna hins opinbera draga þó verulega úr samkeppnishæfni og haldast sætin þar óbreytt á milli ára, eða 24. og 35. sæti.

Jákvæð teikn í atvinnulífinu

Góðu fréttirnar eru þær að skilvirkni atvinnulífsins hefur tekið framförum. Þannig telst viðhorf og gildismat framúrskarandi, þar sem við mælumst í 1. sæti. Þar telur undirflokkurinn sveigjanleiki og gildismat helst til þar sem við erum fremst meðal þjóða. Þar að auki er Ísland í 2. sæti yfir stjórnarhætti fyrirtækja. Þá hefur fjármögnunarumhverfi batnað og Ísland færist þar upp um 8 sæti, upp í það 19. Aftur á móti er viðskiptaumhverfið aðeins í meðallagi aðlaðandi fyrir erlent starfsfólk, þar sem Ísland skipar 34. sæti.

Rannsóknir og þróun skila framförum

Samfélagslegir innviðir styrkjast á milli ára, þar sem við færumst úr 9. sæti upp í það 8. Þar vegur þyngst vöxtur í rannsóknum og þróun, tæknilegum innviðum og aukin sjálfbærni í atvinnulífinu. Hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa mælist mest á byggðu bóli, þar sem Ísland skipar efsta sætið. Tækifæri til framfara felast meðal annars í námsvali þar sem hlutfallslega fáir útskrifast úr raunvísindagreinum hérlendis. Í þeim samanburði er Ísland í 46. sæti.

Danmörk tekur forystuna

Breytingar í toppsætunum eru fyrst og fremst innbyrðis. Þannig hafa Danir bætt samkeppnisstöðu sína og velt Sviss úr toppsætinu. Danir skipuðu áður 3. sæti en framfarir á milli ára eru fyrst og fremst á sviði alþjóðlegra fjárfestinga og skilvirkni hins opinbera, en þeir skipa að auki 1. sæti í skilvirkni atvinnulífs. Samdráttur í alþjóðafjárfestingu dregur á sama tíma úr samkeppnishæfni Sviss.

Á eftir Danmörku og Sviss eru Singapúr, Svíþjóð, Hong Kong og Holland í 3.-6. sæti listans.

Norðurlöndin, að Íslandi undanskildu sem er í 16. sæti, raða sér meðal tíu efstu sæta en ljósi punkturinn er þó sá að Ísland bætir sig mest á milli ára.

Ísland er einu sæti neðar en Þýskaland og einu fyrir ofan Kína.

Tengt efni

Samkeppnishæfni Íslands minnkar á milli ára

Ísland fellur um eitt sæti milli ára í samkeppnishæfni og situr í 17. sæti af 67 ...
20. jún 2024

Samkeppnishæfni Íslands stendur í stað

Niðurstöður úttektar IMD háskóla á samkeppnishæfni ríkja voru kynntar á fundi ...
20. jún 2023

Ógnar nýsköpun þjóðaröryggi?

Hagsmunir af því að fæla ekki enn frekar burt erlenda fjárfestingu eru ...
21. nóv 2022