Skattalegar brotalamir: afnema þarf reglur um jöfnun yfirfæranlegs taps

Það er almennt álit innan atvinnulífsins að á Íslandi hafi skattlagning rekstrar verið hagkvæm með tiltölulega lágum og breiðum skattstofni, með fáum frádráttarliðum. Með breytingum á skattkerfinu sem draga úr samkeppnishæfi m.v. það sem tíðkast erlendis er í raun verið að stíga skref í þá átt að hrekja fyrirtæki úr landi. Meðal breytinga í íslensku skattkerfi sem ráðast þyrfti í hvað þetta varðar er afnám skilyrða um jöfnun yfirfæranlegs taps þegar um er að ræða arðstekjur íslenskra móðurfélaga frá erlendum dótturfélögum.

Skapar óhagræði
Líkt og gildir um söluhagnað þá er arður móðurfélags frá dótturfélagi almennt undanþeginn skatti. Nú er löggjöfinni hins vegar þannig háttað að færa þarf slíkan arð á móti uppsöfnuðu og yfirfæranlegu tapi fyrri ára. Í raun er arðurinn því tvískattlagður þar sem búið er að skattleggja hagnað dótturfélagsins í heimaríki þess. Ef arðurinn gengur auk þess á milli nokkurra félaga áður en hann fer til endanlegs móttakanda þá verður hann við það margskattaður. Vegna þess kemur ekki á óvart að innan ESB sé í gildi tilskipun (móður- og dótturfélagatilskipunin) sem gerir ríkjum óheimilt að takmarka frádrátt með þessum hætti.

Hér eru fyrirtæki að auki að glata þeim möguleika að færa tapið á móti hefðbundnum rekstrartekjum sínum. Það er því líklegt að fyrirtæki sem eiga uppsafnað tap flytji arð ekki heim þar sem það vinnur gegn þeim skattafrádrætti sem fyrirtækið hefur á móti öðrum tekjum. Þetta leiðir því til þess að arðgreiðslur koma ekki til landsins og fjármununum er haldið eftir í erlendum dótturfélögum. Óháð því óhagræði sem reglan skapar má velta upp sanngirni hennar þar sem fyrirtæki sem standa betur og eiga ekki uppsafnað tap njóta þess að tekjurnar eru skattfrjálsar.

Brotalamir sem brýnt er að færa til betri vegar
Fjallað er um málið í nýrri skoðun Viðskiptaráðs, Skattalegar brotalamir - hindra atvinnuuppbyggingu, sem út kom í síðustu viku. Skoðunina í heild sinni má nálgast hér, en í henni er einnig er farið yfir aðrar brotalamir í skattkerfinu sem brýnt er að færa til betri vegar.

Nánar um málið hér.

Tengt efni

Jón er hálfviti

Það er þetta með fólkið í opinberri umræðu sem elskar afgerandi lýsingarorð og ...
24. feb 2023

Erfið samkeppnisstaða einkarekinna fjölmiðla

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um ráðstöfun útvarpsgjalds (mál nr. 129)
15. mar 2023

Jafna þarf stöðu innlendra og erlendra fjölmiðla

Skoðun Viðskiptaráðs á stuðningi við einkarekna fjölmiðla (mál nr. 543)
10. jan 2023