Opinber inngrip í frjálsa samninga á fjölmiðlamarkaði

Í vikunni hefur verið fjallað um samning fjölmiðlafyrirtækisins 365 miðla um sýningarétt á næstu tveimur heimsmeistaramótum í handbolta. Mótin hafa hingað til verið sýnd í opinni dagskrá á RÚV. Líklegt þykir að 365 miðlar sýni leiki mótsins í áskriftarsjónvarpi og hefur komið fram í umfjöllun um málið að lagt verði út í þáttagerð gagngert í tengslum við mótið. Jafnframt verða allir leikir mótsins sýndir í beinni útsendingu á íþróttastöð fyrirtækisins og hliðarrásum hennar.

Nú berast hins vegar fregnir þess efnis að vinna sé hafin í mennta- og menningarmálaráðuneytinu við að þvinga hluta af þessu dagskrárefni, og jafnvel fjöldann allan af sambærilegu efni, í opna dagskrá með vísan í 23. grein útvarpslaga. Með því gerir ráðuneytið tilraun til að gera sýningarrétt mótsins verðlausan, sem fyrirtækið hefur þó nú þegar tryggt sér.

Í útvarpslögunum er skýrt tekið fram að heimilt sé að ákveða reglugerð sem lúti að aðgangi almennings að þýðingarmiklum viðburðum, einungis ef hún innihaldi tæmandi og nákvæma skrá yfir viðburði sem henni er ætlað að taka til. Einnig er tekið skýrt fram að ákvörðun þessi skuli tekin með góðum fyrirvara, en ljóst er að svo er ekki í tilfelli sem þessu. Hér hyggst ráðuneytið beita lögunum gegn sýningarrétti  á tveimur afmörkuðum viðburðum sem einkafyrirtæki hefur nú þegar tryggt sér með frjálsum samningum við alþjóðlegan söluaðila efnisins.

Viðskiptaráð telur slík viðbrögð stjórnvalda í hæsta máta óeðlileg og hvetur þau til að láta af ofangreindum fyrirætlunum.

Tengt efni

Má aðstoða hið opinbera? 

„Á meðan einkageirinn leiðir framleiðniaukninguna bendir ýmislegt til þess að ...
4. mar 2024

Ógnar nýsköpun þjóðaröryggi?

Hagsmunir af því að fæla ekki enn frekar burt erlenda fjárfestingu eru ...
21. nóv 2022

Eigum við að drepa fuglana?

Þegar við grípum inn í flókin kerfi getur það haft ófyrirséðar afleiðingar, ...
31. ágú 2022