Samkeppnishæfni Íslands - Afturför milli ára

Samkeppnishæfni Íslands dalar milli ára en landið er nú í 31. sæti á lista Alþjóða efnahagsráðsins (e. World Economic Forum) yfir samkeppnishæfni landa. Fyrir ári síðan var Ísland í 26. sæti og því ljóst að mikil afturför hefur átt sér stað upp á síðkastið. Stærstu vandamálin hér á landi sem rætt er um í skýrslunni eru aðgengi að fjármagni, gjaldeyrishöft, verðbólga og skattkerfið. Þessi fjögur atriði eru stærstu áhrifavaldar þess hversu illa landið stendur í samanburði við aðrar þjóðir.

Í máli Dr. Seiichiro Yonekura, á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs í síðustu viku, var sýnt fram á nauðsyn samstarfs milli atvinnulífs og stjórnvalda við að marka framtíðarstefnu fyrir efnahagslífið. Með samstilltu átaki hlutaðeigandi aðila skapast grundvöllur til að yfirstíga þann vanda sem íslenskt efnahagslíf er í um þessar mundir.

Vafalaust má rekja hluta af slakri samkeppnishæfni Íslands til þeirrar einhliða stefnu sem hefur einkennt ákvarðanatöku stjórnvalda upp á síðkastið. Stjórnvöld þurfa því, eins og kom fram í máli Dr. Yonekura, að leggja meiri áherslu á að skapa umræðuvettvang milli aðila í atvinnulífinu þegar ný stefnumörkun fer af stað. Raunverulegt samráð um væntanlegar tillögur stjórnvalda um frekari skattlagningu atvinnulífs og heimila væri upphaf á slíku ferli. Eingöngu þannig tekst að skapa umhverfi sem getur talist samkeppnishæft við samanburðarlönd okkar.

Sjá nánar um skýrsluna hér.

Tengt efni

Úthlutað úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs 

Sex verkefni fengu styrk úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands
23. feb 2024

Nauðsynlegt er að tryggja samkeppnishæfan vinnumarkað

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ...
15. mar 2023

Samkeppnishæfni Íslands eykst á árinu 2022

Ísland bætir samkeppnishæfni sína og færist upp í 16. sæti samkvæmt greiningu IMD
15. jún 2022