Skemmtileg kvöldstund full af nýjum hugmyndum

Í gærkvöldi var haldinn í annað sinn kvöldverðarfundur Viðskiptaráðs og Innovit undir yfirskriftinni Ný-sköpun-Ný-tengsl.  Markmið fundarins var að búa til vettvang skoðanaskipta og tengslamyndunar fyrir hugmyndaríkt fólk sem nýlega hefur hafið rekstur og fólk með reynslu og þekkingu á rekstri og framkvæmd hugmynda.

 

Til fundarins, sem haldinn var í framleiðslurými Marels, var boðið fulltrúum ellefu nýrra og ferskra fyrirtækja sem kynntu viðskiptalíkön og áætlanir til framtíðar og var kvöldið í boði jafn margra reynslubolta úr atvinnulífinu. Fyrirtækin sem kynnt voru í gær eru: Amivox, Bungaló, Golf80, Gyðja collection, Hagsýn, Handlers, Icelandic Cinema Online, Nude magazine, Remake electric, T1 hugbúnaðarhús og Transmit.  Nánari upplýsingar um þessi fyrirtæki verður að finna á vefsíðum Viðskiptaráðs og Innovit innan tíðar.

„Það var virkilega gaman að sjá eldmóðinn og ástríðuna sem einkenndi frumkvöðlana og er það til vitnis um þann kraft sem býr í íslensku athafnafólki.  Svo er einnig augljóst að reynsluboltarnir, sem voru þarna í hlutverki „mentora“ höfðu mikla ánægju af þátttöku í kvöldverðinum.  Það blasir við að hóparnir eiga fullt erindi við hver annan og ég veit til þess að við kvöldverðarborðið í gær mynduðust tengsl sem munu leiða til betri árangurs og nýrra tækifæra.“ sagði Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

„Allir þeir sem staðið hafa í eigin atvinnurekstri kannast við þær hindranir og áskoranir sem sérhver stjórnandi þarf að yfirstíga. Til að stytta skrefin frá nýstofnuðu fyrirtæki til stöndugs rekstrar er því ómetanlegt fyrir ung og vaxandi fyrirtæki að læra af reynslu þeirra sem búa að áratugareynslu af uppbyggingu og rekstri fyrirtækja. Það er okkur hjá Innovit því afar mikilvægt að standa að þessum skemmtilega og jákvæða tengslanetsviðburði.“ sagði Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Innovit.

Ráðgert er að halda slíka fundi reglulega í framtíðinni og er þeim sem vilja kynna sér málið frekar bent á að hafa samband við Þórdísi Bjarnadóttur, hjá Viðskiptaráði eða Andra Heiðar Kristinsson hjá Innovit.

Smellið á myndirnar til að stækka þær

Tengt efni

Ógnar nýsköpun þjóðaröryggi?

Hagsmunir af því að fæla ekki enn frekar burt erlenda fjárfestingu eru ...
21. nóv 2022

Hlutverk Viðskiptaráðs kynnt á borgarafundi

Fulltrúar Viðskiptaráðs sátu í pallborði á fjölmennum borgarafundi í Háskólabíó ...
13. jan 2009

Ný-sköpun-ný-tengsl - 7. maí hjá HB Granda

Síðustu fjögur ár hefur Viðskiptaráð, í samstarfi við Klak Innovit, reglulega ...
7. maí 2013