Beina brautin: Eyðum óvissu vegna gengistryggðra lána

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, ræddi í morgun um gengistryggð lán á sameiginlegum fundi um Beinu brautina á Grand hótel. Að fundinum stóðu Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins, Samtök fjármálafyrirtækja, Félag atvinnurekenda, efnahags- og viðskiptaráðuneytið og fjármálaráðuneytið, en markmiðið var að ræða framvindu Beinu brautarinnar og stöðu fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrirtækja innan bankakerfisins.

Fjármálafyrirtæki útvegi fyrirtækjum endurútreikning
Almar rifjaði það upp að FA hafi fyrir sléttum níu mánuðum lagt til að flýtt yrði meðferð mála er varða gengistryggð lán í dómskerfinu. Því miður hafi lítið áunnist frá þeim tíma, sem hefur tafið ferli endurskipulagningar fyrirtækja og heimila um of. Nokkrir Hæstaréttardómar hafa þó fallið síðustu vikurnar sem skýri myndina talsvert og þar sé að meginstefnu til fylgt þeim fordæmum sem gefin voru síðastliðið haust í tengslum við einstaklingslán. Lagði Almar á það áherslu að fjármálafyrirtækin útveguðu fyrirtækjum endurútreikning á sínum lánum m.v. niðurstöður Hæstaréttar og nýlegar breytingar á lögum. Hann telur vanhöld vera á því þrátt fyrir að Beinu brautar samkomulagið kveði skýrt á um slíkan útreikning.

Í erindi sínu fór Almar jafnframt yfir það hvernig unnt verði að eyða eða lágmarka óvissu tengda gengislánum. Sagði hann opinbera aðila þurfa annars vegar að flýta meðferð slíkra mála í dómskerfinu og hins vegar að upplýsa um flokkun gengistryggðra lána m.t.t. ólögmætis. Fjármálafyrirtækin ættu að leggja fram skriflega endurútreikninga og fyrirtækin ættu að fara strax í ferli gagnvart sínum banka með aðstoð ráðgjafa. Betri réttur væri ávallt tryggður og fyrirtækin því að skapa sér valkost með að fara strax í Beinu brautina.

Pallborðsumræður um Beinu brautina
Auk Almars tóku til máls Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra og Finnur Oddsson framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Í pallborðsumræðum tóku þátt þeir Piero Segatta framkvæmdastjóri Pústþjónustu BJB, Pétur Sigurðsson framkvæmdastjóri Sólrúnar á Árskógssandi í Eyjafirði og Helgi Sigurðsson framkvæmdastjóri Bílaþvottastöðvarinnar Löðurs, en fyrirtæki þeirra hafa öll farið í gegnum Beinu brautina. Í pallborði fjármálafyrirtækja sátu Hjördís Dröfn Vilhjálmsdóttir framkvæmdastjóri Endurskipulagningar eigna hjá Landsbankanum, Halldór Bjarkar Lúðvígsson framkvæmdastjóri fyrirtækjaþjónustu hjá Arion og Una Steinsdóttir framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Íslandsbanka.

Tengt efni:

Tengt efni

Betra er brjóstvit en bókvit

Eru bækur dýrar?
28. okt 2022

Einföldun á fjárhagslegri endurskipulagningu til bóta

Þörf er á nýju úrræði, ólíku því sem tekið var upp í lok fjármálahrunsins, ...
27. maí 2020

Dómskerfið: Annar möguleiki í stöðunni

Haraldur I. Birgisson, lögfræðingur Viðskiptaráðs, ritaði eftirfarandi grein um ...
3. des 2009