Ástæðulaust að óttast erlenda fjárfestingu

Ísland er í öðru sæti á lista yfir þau aðildarríki OECD sem hafa hvað mestar takmarkanir á beinni fjárfestingu erlendra aðila. Í fyrsta sæti er Kína, en á eftir Íslandi koma Rússland og Sádí-Arabía. Mikil umræða hefur upp á síðkastið skapast um erlenda fjárfestingu, en Finnur Oddsson framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs ræddi nýverið um málið í Morgunútvarpi Rásar 2: „Það er einhver ástæða fyrir því að flestar þjóðir heims keppast um og leggja verulega mikið í að laða til sín erlenda fjárfestingu því hún knýr áfram nýsköpun, hagvöxt, atvinnusköpun og verðmætasköpun.“ sagði Finnur.

„Það væri ráð að við yrðum svolítið stolt af því að erlendir aðilar sjái sér hag af því að byggja hér upp atvinnustarfsemi, frekar en annars staðar.“ Ennfremur benti hann á mikilvægi þess að horfa á málið út frá grundvallaratriðum. Hér er þörf á fjárfestingu, en hún er ein megin forsenda hagvaxtar. Með aukinni fjárfestingu í vinnsluferlum, þekkingu, framleiðslubúnaði og húsnæði þá erum við að stuðla að auknum hagvexti og bættum lífskjörum til framtíðar.

Erlend fjárfesting er ennfremur ekki einungis ávísun á fjármagn, heldur líka á markaðsþekkingu, viðskiptatengsl og fleira. Í staðin fá fjárfestar aðgang að landi með vel menntuðu fólki sem er hugmyndaríkt og tilbúið að láta til sín taka. Finnur minnti á að í þessu ferli „verða til verðmæti sem annars hefðu ekki orðið til. Þetta er því mjög eftirsóknarverð fjárfesting.“

Hér þarf að skapa þannig umgjörð að hér geti starfað fjárfestar, bæði innlendir og erlendir, og að hagur lands og þjóðar sé tryggður með þeirri fjárfestingu. „Pólitísk afskipti draga úr tiltrú erlendra fjárfesta á Íslandi. Fjárfestum er illa við óvissu þar sem þeir vilja geta planað fram í tímann og séð mögulega ávöxtun á sinni fjárfestingu.“

Umfangsmiklar breytingar stjórnvalda á skattkerfinu hafa ekki bætt ástandið, en eins og Finnur bendir á þá eru það  „100 breytingar á skattkerfinu á síðustu þremur árum sem hafa farið í gegn, en það eitt og sér veldur því að menn hafa það á bak við eyrað hvort mögulegt sé að hér verði leikreglum breytt yfir nótt.“ Hér á landi er mikilvægt að fara að huga að löggjöf og innviðum um erlenda fjárfestingu, en í því samhengi minnti Finnur á að tilviljanakennd aðkoma stjórnmálamanna og einstakra ráðherra að slíku ferli væri ekki heppileg.

Tengt efni:

Tengt efni

Samkeppnishæfni Íslands stendur í stað

Niðurstöður úttektar IMD háskóla á samkeppnishæfni ríkja voru kynntar á fundi ...
20. jún 2023

Nágrannalöndin nýta oftar en ekki undanþágur sem Ísland nýtir ekki

Umsögn SA og Viðskiptaráðs um breytingu á lögum um endurskoðendur og endurskoðun ...
29. mar 2023