Hvers virði er erlendur ferðamaður?

2011.05.12 vþ skýrsla forsíðaÞessi grein birtist í skýrslu Viðskiptaráðs Íslands til árlegs Viðskiptaþings. Skýrslan í ár ber heitið Hvers virði er atvinnulíf?, en pdf útgáfu hennar má nálgast hér.


Eiga ferðamenn frá Kyrgystan, Malaví og Madagaskar eitthvað sameiginlegt? Já, þeir eru í hópi ferðamanna frá yfir 175 mismunandi þjóðríkjum sem fengu endurgreiddan virðisaukaskatt af vörukaupum (keyptu Tax-Free) hér á landi árið 2010.

Samtals kom um hálf milljón ferðamanna til landsins árið 2010. Hver þessara ferðamanna keypti að meðaltali vörur fyrir kr. 16.500. Rétt tæplega 300 þúsund þeirra fengu endurgreiddan virðisaukaskatt af vörukaupum sínum við brottför og keyptu þannig Tax-Free fyrir rúma 5 milljarða. Hér er einungis miðað við Tax-Free sölu, en hún afmarkast við kaup yfir kr. 4.000, og aðra þætti, svo sem skilahlutfall, beinan útflutningi, o.fl. Þannig má áætla að ferðamenn hafi í raun keypt vörur fyrir rúmlega 10 milljarða, en þá eru ótalin viðskipti með vörur og þjónustu sem virðisaukaskattur fæst ekki endurgreiddur af.

Fáar atvinnugreinar hafa vaxið jafn ört og verslun og þjónusta og þá sérstaklega vegna erlendra ferðamanna. Á árinu 2001 var Tax-Free verslun rétt tæplega 1,5 milljarður en þá komu um 208 þúsund ferðamenn til landsins. Árið 2010 var Tax-Free verslun erlendra ferðamanna hins vegar tæplega 5 milljarðar, en þá komu hingað til lands 495 þúsund ferðamenn. Fjölgun ferðamanna var því 78% á meðan verslun þeirra jókst um 233%.

Atvinnusköpun byggð á hugviti
Þessa viðbót má fyrst og fremst þakka aukinni tækni, markaðssetningu, þjálfun og almennri hugarfarsbreytingu. Í dag eru mun fleiri verslanir sem beinlínis gera út á þennan tiltekna hóp kaupenda. Umfang afleiddrar starfsemi, svo sem í hugbúnaðarfyrirtækjum, markaðsfyrirtækjum, endurgreiðsluaðilum og starfsfólki sem vinnur beint að úrvinnslu Tax-Free gagna, hefur því aukist mikið og skilað fjölda starfa. Hér er því um að ræða gott dæmi um að hugvit er nýtt til að skapa gjaldeyristekjur, hagvöxt og störf án opinberra afskipta eða vinnslu náttúruauðlinda.

Íslensk útrás
Iceland Refund var stofnað árið 2001. Ári síðar annaðist fyrirtækið endurgreiðslu til 75.000 ferðamanna. Í dag er móðurfyrirtækið skráð á Írlandi, en rekur starfsemi sína í 12 löndum, með yfir 100 starfsmenn. Aðildarverslanir eru yfir 100.000 talsins víða um Evrópu og rúm 1,5 milljón ferðamanna nýtti sér þjónustu fyrirtækisins árið 2010.

Uppbyggingin hér á landi hefur verið nýtt sem fyrirmynd að uppbyggingu í öðrum löndum, því hvergi er jafn hátt hlutfall ferðmanna sem nýta sér Tax-Free endurgreiðslur og á Íslandi. Einn ferðamaður - ein Tax-Free sala er markmið sem er innan seilingar á Íslandi. Markmið um milljón ferðamenn árið 2020 - milljón endurgreiðslur felur í sér Tax-Free veltu vel á þriðja tug milljarða og ekki aðeins störf í verslun, heldur einnig í upplýsingatækni og annarri tengdri starfsemi. Tækifæri til verðmætasköpunar eru veruleg og munu nýtast íslenskri verslun, öðrum fyrirtækjum, heimilum og samfélaginu í heild.

Jónas Hagan, Taxfree Worldwide Ltd.

Tengt efni

Stuðningsstuðullinn lækkar

Jákvæð þróun á vinnumarkaði - Stuðningsstuðullinn mældist 1,3 í fyrra og lækkaði ...
10. nóv 2023

Umsögn um drög að frumvarpi um loftslags- og orkusjóð

Viðskiptaráð skilaði á dögunum inn umsögn um drög að frumvarpi til laga um ...
21. mar 2024